Færslur: 2011 Mars

06.03.2011 16:49

Mót hækkandi sól ........

Kæru skólasystkin!

Já; nú er aldeilis að færast fjör í hópinn. Það er varla búið að klára einn hittinginn þegar blásið er til þess næsta. Það er kannski eitthvað til í þessu með D-vítamínið sem talið er að þjóðina skorti í dag, því kallið frá nefndinni fyrir vestan kom einmitt í kjölfar Sólarkaffisins. Það er nú hreint ótrúlegt að 50 ár séu liðin síðan við trítluðum fyrstu ferðina okkar í vorskólann 1961. Við Engjavegspúkarnir þurftum hins vegar ekki að trítla niður eftir því Hreinn heitinn keyrði okkur í Grána. Það þurfti að halda sér fast því nóg var af holunum á leiðinni. Það var svo sem í lagi því skólataskan hékk í langri reim yfir öxlina og svo var hægt að stífa sig af í nýju ilmandi gúmmískónum frá Gústa í skóbúðinni. Já - það verður margs að minnast og ýmislegt til upprifjunar á hittingnum í vor. Ég vil hvetja hvert og eitt okkar til að líta tilbaka og rifja upp þennan tíma til að allir hafi eitthvað að segja með vorinu. 

Þó spenningur okkar yfir vorhittingnum sé þegar byrjaður má vera að hann tengist líka þjóðfélagsaðstæðunum; hvernig fara nú kosningarnar og hverjar verða afleiðingarnar. Það er líka spenningur yfir því að páskarnir eru stutt undan og þeir marka alltaf tímamót okkar milli veturs og vors, því í kjölfar þeirra fara skíðin upp á loft, snjórinn bráðnar og sólin tekur völdin. Þessar fyrirætlanir eru þó allar byggðar á gömlum minningum frá fyrri tíð. Í dag eru hlutirnir eins og meira óútreiknanlegir eins og t.d veðrið sem mitt í þessu lemur með éli á glugganum á miðjum sólardegi. Það er á slíkri stundu sem við þurfum að kalla fram hlýjar minningar og það fallega umhverfi fjallanna sem við ólumst upp með og tengir sem okkur innst inni órjúfanlegum böndum.
 

Ljóð Matthíasar Johannessen, "Fjöllin í brjósti þér", lýsa þessu á eftirfarandi hátt:

Hann skín þér enn við augum dagur sá,
sem öllum dögum fegri rís úr sjá.
Og ennþá kemur hann á móti mér,
og morgunbjört vor ættjörð færir þér

sín himingnæfu fjöll - þú fylgir þeim
sem fugl er snýr á nýju vori heim,
þér fagnar ávallt heiðin hrjósturgrá
og himnesk nótt með stjörnuaugu blá.

Og fjöllin rísa björt í brjósti þér,
þau benda heim svo langt sem auga sér.
Og moldin vakir, mold og gróin tún
 - og máttug rís þín sól við fjallabrún.

Þú kemur heim, þín sól við sund og vík
er seiður dags og engri stjörnu lík,
hún bræðir hrím og vekur vor sem er
svo vængblá kyrrð og þögn í brjósti mér.

Ég vil hérmeð hvetja okkur til að taka mót sól og vori full tilhlökkunar að hittast og rifja upp gamlar og góðar minningar um þann yndislega tíma sem við áttum saman á fyrstu skólaárunum fyrir 50 árum síðan! 
  • 1
Flettingar í dag: 32
Gestir í dag: 21
Flettingar í gær: 48
Gestir í gær: 9
Samtals flettingar: 120093
Samtals gestir: 24891
Tölur uppfærðar: 28.4.2024 21:12:48
clockhere