Færslur: 2015 Janúar

17.01.2015 14:10

"Hvað boðar nýárs blessuð sól .......... "?

Kæru skólasystkin!

Ég efa ekki að öll höfum við strengt einhvers konar áramótaheit í þá veru að laga eitthvað sem miður hefur farið eða fara mætti betur. Með 60 ár að baki er ekki seinna vænna en að taka til höndunum. Ef hins vegar ekkert er að hjá okkur, mætti fara að segja öðrum til, eins hokin við erum af þekkingu og reynslu. Já - mér finnst að við ættum að hætta þessu væli, það er komið nóg af þessu og það smitar út frá sér. Fréttablaðinu er stungið inn um póstlúguna hjá mér á kvöldin og um nætur, þannig að það er alltaf til staðar á morgnana. Á hverri einustu forsíðu hafa verið risafyrirsagnir og myndir um niðurbrotna einstaklinga eftir margra ára einelti og vanlíðan og hina sem leika sér að því að festa sprengjubelti og gemsa utan um konur og ungar stúlkur og sprengja þær svo í loft upp inn á markaði eða inn í verslunarbyggingu til að valda sem flestum skaða. Svo má núorðið ekkert segja sem skyggir á svona ástand eða uppákomu, því við eigum að fá að hugleiða með lotiningu gjörðir einstaklinganna til að skilja hvernig þeir vilja tjá huga sinn í verki. Mér finns þetta allavega ógeðslega ljótt og ég hlýt að mega segja það upphátt - til þess að allavega einhver byrji að tjá sig.

Hverju lofaði ég þá - fyrst ég byrja svona harkalegur í upphafi árs?. Ég lofaði auðvitað því, að ekki bara þegja eins og þetta kæmi mér ekki við. Ég lofaði því að tala með jákvæðni í stað neikvæðni, með uppbyggingu í stað niðurrifs og með hrósi þar sem það á við. Þó svo ég nái ekki til alheimsins, þá næ ég til nánasta umhverfis míns og okkar. Ég er sannfærður um að í sameiningu náum við að umbreyta heiminum þó ekki sé nema eitt hjarta í einu. Ég tel að með framkomu okkar, orðum eða gerðum, þá náum við að smita út frá okkur hugrekki sem margir þurfa á að halda í dag eins og t.d. Katý heitin gerði forðum. Ég bið okkur allavega, að ekki verða samdauna fjölmiðlunum á því að endalaust draga fram og mata okkur á öllu því ljótasta og ömurlegasta sem þeir telja svo áhugavert á hverjum degi.

Þið spyrjið ykkur örugglega hvernig þið náið til annarra en þeirra sem þið hittið dags daglega. Það hafa margir brosað í kampinn þegar einhver hefur talað um "hið neðra" eða "viti" og notað til þess mörg önnur orð. En það má með sanni segja að svokallaðir "netheimar" séu í raun þesi staður í dag. Má þá ekki segja að þar sem við erum með þessa heimasíðu okkar, að við tengjumst netheimum í ákveðnum skilningi? Eins og sagt hefur verið gegnum tíðina að til séu bæði góð öfl og vond, þá tel ég og vil að við séu góðu öflin í netheimum eða "the good guys"! Ég er þá ekki að meina að við eigum að fara að skrifhöggvast á við einhvern, heldur koma fram með góðri og traustri fyrirmynd. Það má vera að það sé auðveldara að skrifa svona á blað heldur en segja það upphátt, því það truflar enginn á meðan, með mótmælum eða útúrsnúningi. Það er að vissu leiti rétt, en málið er að það kemst ekkert á blað nema fara fyrst gegnum hugann. Þess vegna er það hugur okkar sem þarf að vera rétt stilltur hverju sinni, en læknisfræðilega séð gerist það með hjartanu.

Kæru skólasystkin. Einhver ykkar hugsa með sér að nú sé ég að taka of djúpt með árinni - en það er meiningin, því annars hef ég ekki vakið okkur til umhugsunar. Ég verð því mjög hissa ef enginn vill leggja þessum málstoð mínum/okkar orð í belg með því að tjá sig frekar. Þetta er pínulítið "flash-back" til þess tíma þegar við byrjuðum að eiga orðaskipti með/á síðunni okkar sem er nú á 5 aldursári. Okkur fanns þá mjög erfitt að segja eitt og jafnvel erfitt að segja ekki neitt; - en vilji maður leggja orð í belg, þá er bara að láta sig hafa það. Ég hvet ykkur nú til þess að hugleiða vel það sem hér stendur, því sameinuð stöndum við, en sundruð föllum við - en það skal aldrei verða sagt um okkur 1954 púkana. Orðum mínum til stuðnings valdi ég kvæði Matthíasar Jochumssonar, "Hvað boðar nýárs blessuð sól?", þar sem titillinn og ekki síður textinn á að tala sérstaklega til okkar allra núna:

Hvað boðar nýárs blessuð sól?
Hún boðar náttúrunnar jól,
hún flytur líf og líknarráð,
hún ljómar heit af Drottins náð.

Sem Guðs son forðum gekk um kring,
hún gengur ársins fagra hring
og leggur smyrsl á lífsins sár
og læknar mein og þerrar tár.

Ó, sjá þú drottins björtu braut,
þú barn, sem kvíðir vetrarþraut,
í sannleik hvar sem sólin skín
er sjálfur Guð að leita þín.

Því hræðst þú ei, þótt hér sé kalt
og heimsins yndi stutt og valt,
og allt þitt ráð sem hverfult hjól,
í hendi Guðs er jörð og sól.

Hann heyrir stormsins hörpuslátt,
hann heyrir barnsins andardrátt,
hann heyrir sínum himni frá
hvert hjartaslag þitt jörðu á.

Í hendi Guðs er hver ein tíð,
í hendi Guðs er allt vort stríð,
hið minnsta happ, hið mesta fár,
hið milda djúp, hið litla tár.

Í almáttugri hendi hans
er hagur þessa kalda lands,
vor vagga, braut, vor byggð og gröf,
þótt búm við hin ystu höf.
  • 1
Flettingar í dag: 32
Gestir í dag: 21
Flettingar í gær: 48
Gestir í gær: 9
Samtals flettingar: 120093
Samtals gestir: 24891
Tölur uppfærðar: 28.4.2024 21:12:48
clockhere