Færslur: 2011 Maí

09.05.2011 23:03

Að skóla loknum .........

Kæru skólasystkin!

Já - hver man ekki þessa stund: "að skóla loknum"! Fyrstu árin var það sumarvinnan sem tók við: barnapössun, skógræktin, vinna fyrir mömmu, vinna fyrir pabba, fara í sveit og svo mætti lengi telja. Núna er 50 ár síðan við vorum í þessum sporum og á þeim tíma höfum við þurft að taka ýmsar ákvarðanir og stefnur sem hafa verið mikilvægari og þyngri í meðförum en einhver sumarvinna. Ég man samt eftir því að þetta vóg þungt í því hvað yrði úr sumrinu; ekki skemmdi heldur fyrir að fá pening fyrir verkið. Svo þurfti að hafa sig til fyrir þennan tíma með sumarklippingu hjá Árna Matt og gúmmískóm í Gústabúð. Ég veit að þessi háttur var nú ekki "standard" og verður gaman að heyra allar hinar sögurnar á hittingnum okkar. Þá getur söguljóminn orðið mismikill og eflaust á stundum það lítill og kannski óskemmtilegur og ekki verður til upprifjunar. Mér finnst hins vegar að hópurinn okkar sé orðinn þannig í stakk búinn og þroskaður, að hittingur sem þessi sé kjörinn vettvangur til að taka fram æskuminningar hvort sem þær voru nú sætar eða súrar. Þær sætu eru sérstaklega til að kæta hópinn og hjálpa til að muna þennan frábæra tíma sem við áttum hvert og eitt og einnig saman. Þær súru eru ekki síður til að leiðrétta mögulegan misskilning sem hefur lifað í gegnum allan þennan tíma og bara gerjast til hins verra með hverju árinu sem líður. Allavega vil ég hvetja okkur til að láta nú gamminn geysa gegnum síðastliðin 50 ár, festa á blað það sem kemur upp í hugann og draga fram myndir sem varpa betur ljósi á þessa tilveru okkar.

Mér finnst við hæfi að ljúka þessum maí-orðum til okkar með tilvitnun í kvæði Bjarna Gissurarsonar, sem heitir: "Samlíking sólar og konu"!

Hvað er betra en sólar sýn,
þá sveimar hún yfir stjörnu rann?
Hún vermir, hún skín
og hýrt gleður mann.

Þegar fögur heims um hlíðir
heilög sólin loftin prýðir,
lifnar hauður, vötn og víðir,
voldugleg er hennar sýn.
Hún vermir, hún skín.
Með hæstu virðing Herrans lýðir
horfi á lampa þann.
Hún vermir, hún skín
og hýrt gleður mann.

Já; nú er að hrökkva eða stökkva, því helgin er stutt undan og Nefndin þarf að vita fyrr en seinna hvað margir geta alls ekki komið :))
  • 1
Flettingar í dag: 120
Gestir í dag: 60
Flettingar í gær: 44
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 120225
Samtals gestir: 24958
Tölur uppfærðar: 29.4.2024 09:55:46
clockhere