04.10.2011 22:24

"Stundir á milli lægða ......"

Kæru skólasystkin!

Hjartans þakkir fyrir frábæran "hausthitting" um daginn. Þetta tókst frábærlega í alla staði eða "tær snilld" eins og sagt er í dag. Ég hafði ekki síður mikla væntingar fyrir þessum endurfundi frekar en þeim sem ætlaður hafði verið sl. vor og það gekk svo sannanlega eftir. Það var sko ekkert gefið eftir frekar en fyrri daginn - stærðfræðiséní hópsins var harður á því að 50 ár væru liðin síðan við hittumst fyrsta sinni í svokölluðum vorskóla, en þá vorum við undirbúin fyrir skólagöngu komandi hausts. Ekki man ég eftir veðrinu, en sérstaklega vel eftir hossinu aftan í honum Grána, en svo hét bíllinn hans Hreins sem við sátum í frá Engjaveginum og niður í bæ. Við vorum vel til fara, sumir strákanna í nýsaumuðum buxum frá Siggu saumakonu og stelpurnar með hliðartösku úr Bókhlöðunni með Andrésar Önd mynd utan á. Það þurfti að fara í röð framan við útidyrnar áður en ráðist var inn í anddyrið. Agnes var svo heppin að vera fremst, líklega vegna þess að skólastjórinn þekkti pabba hennar betur en okkar pabba - þetta þýddi líka að hún var alltaf lesin fyrst upp í kladdanum; eins gott að hún bjó nálægt og var því alltaf mætt snemma. Nú svo byrjaði bara skólinn og hver bekkur fékk sinn umsjónarkennara. Við þekktum þessa kennara misvel og þeir höfðu misgóð áhrif á okkur. Stundum veit maður ekki fyrir vízt hvað ræður framgangi og þróun mála frekar en hin margvíslegu veður, sem ýmist eru hlý, köld, blíð, hörð, laða fram vellíðan eða setja allt um koll með ófyrirsjánalegum afleiðingum .......... Stundin sem við áttum núna í skólastofunni okkar 50 árum seinna fannst mér vera eins og "stund á milli lægða" - það mátti sjá hvernig hugur flestra fór á flug, hjá sumum í hljóði og hjá öðrum með hljóði; en eitt vorum við sammála um: "við hefðum mátt hegða okkur betur, en hvort afleiðingarnar hefður orðið aðrar vitum við vízt aldrei  .... en nú virtist allt með kyrrum kjörum"! Auk þessarar stundar áttum við frábæran tíma í bíó með kók og popp, í Gamla með kakó og kókoslengju, í kirkjugörðunum í úrhellsirigningu og að lokum í Tjöruhúsinu með gítar- og nikkutríói og lokahnykk með balli í Krúsinni. Þannig var þessi stutta 50 ára samveru- og upprifjunarstund milli lægða tekin með stæl, enda ekki eftir neinu að bíða .........

Í fyrradag skaust ég á hjólinu austur í Skaftafell með kærum vini mínum, þrátt fyrir aðvaranir veðurstofu um slæmt veður vegna samfallandi lægða; það virtist allt mæla með því að við sætum bara heima og biðum eftir þessu voðalega - hræðilega veðri. Við fengum hins vegar blankandi logn, þurrviðri og sólarglætu alla leið þangað en þvílíka úrhellisrigningu og hvassvirði á bakaleiðinni svo að sundkskýla hefði passað betur en mótorhjólgallinn. Þegar ég sit núna við tölvuna í þurrum fötum og með nýgreitt hár get ég staðfest að ferðin var tær snilld og samveran og minningin um hana er mjög kær.

Já - kæru skólasystkin - ég vil hvetja ykkur hvar sem þið eruð að hallað ykkur aftur í smástund og smjatta á þessum dásamlega endurfundi sem við áttum og sem kemur ekki aftur. Mér fannst hurð skella nærri hælum þegar vorhittingurinn var blásinn af, því við gerum okkur í raun ekki grein fyrir því hvað við þurfum við að nýta vel "stundirnar milli lægða"; þær eru mislangar, misskemmtilegar og misblautar og mis- allt mögulegt, en það sem upp úr stendur er að þær eru hópnum okkar og ekki síður hverju og einu okkar óendanlega dýrmætar. Orðum mínum til staðfestingar vil vitna í stutt ljóð Stephans G. Stephanssonar sem heitir "Hugur og hjarta" og sem tala beint inn í kringumstæður okkar:

Láttu hug þinn aldrei eldast eða hjartað.
Vinur aftansólar sértu,
sonur morgunroðans vertu.

Flettingar í dag: 87
Gestir í dag: 59
Flettingar í gær: 52
Gestir í gær: 26
Samtals flettingar: 121836
Samtals gestir: 25535
Tölur uppfærðar: 15.5.2024 23:40:34
clockhere