04.12.2011 21:16

Hvernig er hugur þinn ...........?

Kæru skólasystkin!

Nú er aðventan byrjuð með tilheyrandi undirbúningi fyrir jólahátíðina. Fólk dæsir yfir því hvað frídagarnir séu fáir og það verði hreinlega engin jól í ár, sérstaklega ekki heldur í ljósi þess slæma ástands sem er í efnahagsmálum þjóðarinnar ........... eða hvað. Um daginn föðmuðu félagar mínir í Svíþjóð mig innilega á vinnufundi í Kaupmannahöfn og vottuðu mér næstum samúð sína yfir þessu ástandi á Íslandi. Þegar ég hafði sagt þeim frá þeim innilegu móttökum sem verslunarkeðja þeirra Lindex hafði fengið hjá okkur, létti á faðmlaginu og sorgasvipnum og ég varð óviss um hvort þeir væru að gleðjast í sér eða hætta að votta mér samúð sína. Allt í einu fannst mér eins og ég stæði einn á gólfinu ........ Eftir að mér hugkvæmdist að þakka þeim fyrir þessa kærkomnu verslun og frábæru föt á viðráðanlegu verði, datt ég aftur inn í hópinn (snilld).

Svipað á við um veðrið sem að undanförnu hefur hegðað sér svo óútreiknalega að við könnumst ekki við aðrar eins uppákomur. Starfsfélagi minn segir gjarnan: "það er alltaf veður Halldór, en ef þér líkar það ekki, þarftu að breyta um hugarfar"! Með þessi orð í huga fór ég vestur í Dali fyrir 3 vikum síðan til að huga að rjúpu upp á Tröllatunguheiði. Þegar kom að Gilsfirði var veðurhamurinn slíkur að ekki sá í veginn fyrir sjógangi. Jákvæður í huga hélt ég áfram, gegnum sjóskaflana, yfir Króksfjarðarnesið og upp á heiði. Ég svipti upp bílhurðinni og stökk út í veðrið. Þrátt fyrir jákvætt hugarfar, fauk ég eins og fis eftir veginum og endaði (sem betur fer) ofan í snjófylltu gili. Þarna var mun lygnara og þar sem ég var ennþá jákvæður, klóraði ég mig tilbaka upp eftir árfarveginum og fram fyrir bílinn. Þegar upp á veginn kom, var vindurinn jafnsterkur og áður (enda ég jafnléttur) og feiktist ég eftir veginum að bílnum. Eftir að ég náði að þrengja mér um hurðarfalsið og aftur inn í bílinn var ég ennþá jákvæður og sagði "tær snilld" og ákvað að snúa aftur til byggða.

Eftir á að hyggja hafði ég enga stjórn á veðrinu, heldur eingögnu huga mínum og afstöðu minni til þeirra aðstæðna sem ég var í. En með þessar dæmisögur í huga getum við þrátt fyrir efnahagsástandið í þjóðfélaginu og veðrið í landinu haldið ótrauð áfram að undirbúa komu jólanna til að minnast fæðingu Frelsarans. Það er á þessum tíma sem við getum með jákvæðu hugarfari breytt kringumstæðum okkar úr vonleysi í bjartsýni, þó svo að umhverfið mæli því mót. Frídagar jólanna eru fáir og því þurfum við að nýta hverja stund til hins ítrasta, þó svo hún fari fram í snjófylltu gili ......................

Þessum orðum mínum til staðfestingar ætla ég að vitna í tvö ljóð Benedikts Sveinbj. Gröndal úr kvæði hans: "Mér kenndi"!

Mér kenndi faðir
mál að vanda,
lærði hann mig,
þó ég latur væri;
þaðan er mér kominn
kraftur orða,
meginkynngi
og mynda gnótt.

Mér kenndi móðir
mitt að geyma
hjarta trútt
þó heimur brygðist;
þaðan er mér kominn
kraftur vináttu,
ástin ótrauða,
sem mér aldrei deyr.


Kæru skólasystkin!

Ég óska ykkur gleðilegra jóla, farsæls komandi árs og þakka ykkur dýrmætar samverustundir!
Flettingar í dag: 71
Gestir í dag: 51
Flettingar í gær: 52
Gestir í gær: 26
Samtals flettingar: 121820
Samtals gestir: 25527
Tölur uppfærðar: 15.5.2024 14:51:07
clockhere