03.11.2012 21:00

Virðing er ekki meðfædd ........

Kæru skólasystkin!

Um daginn varð að veruleika sá langþráði  draumur að þeysast á mótorhjóli með Maríu í útlöndum. Við fórum með hagvönum vinum okkar til Orlando og ferðuðumst um á Flórída. Ég var búinn að vera þar áður og lenda í hremmingum, sem gerði endurminningar og frásögn þeirrar ferðar mjög leiðinlegar. Þá var búið að vara mig við umferðarmenningunni og sérstaklega trukkunum sem væru frekir og tillitslausir. Það var mikil spenna í loftinu þegar við mættum í Harley búðina til að ná í hjólin. Þegar ég stóð frammi fyrir síðhærðum, síðskeggjuðum, krosskeðjuðum afgreiðslumanni girtum hausarasveðju reyndi ég að vanda málfar mitt með fyrsta orðinu og rétti einnig fram hendina til að staðfesta að ég kæmi með friði. Hann horfði þannig á mig að ég vissi strax að fyrsta landið sem kom upp í huga hans var Mars. Til allra hamingju höfðum við prentað út pöntun okkar og samvinnan milli okkar jókst. Eftir klukkustunda yfirheyrslu, skriffinnsku, tölvuskráningu, ljósritun og undirritanir á leigusamningi, tryggingasamningi og greiðslustaðfestingu lyfti hann krepptum hægri hnefa. Það var mér til happs að kunna ennþá þetta atriði frumskógarlögmálsins, því með eldsnöggu hnefahöggi á móti var hjólasamningurinn innsiglaður með virðingu ...... 

Þegar ég sá splunkunýtt hjólið fór ég að skilja alvarleika samningins og hjarta mitt fór að mýkjast. Eftir að hafa dáðst að morgunrakstrinum í öllu króminu var farið að hlaða dóti í töskur og GPS á stýrið. Hjartað sló hratt á meðan hjólin runnu á stað um hverfið með stefnu á fyrstu hraðbrautina. Úti á aðreininni var ljóst af hraða umferðarinnar að hér var ekkert tilboð á "sorry - never been here before"! Í einni svipan þeyttust fákarnir inn í umferðarsogið sem var eins og beljandi jökulá. Þvílíkur urmull af bílum sem allir voru að flýta sér. Þegar við vorum búin að skanna inn umferðina á undan okkur var þar mikið af mótorhjólum af öllum gerðum sem og stjórnendur þeirra. Þrátt fyrir fjölda, hraða og margbreytilega einstaklinga var eins og allir færu þar fram með virðingu .......... 

Ups; nú var friðurinn skyndilega rofinn því ég sá í speglunum hvernig einn risatrukkurinn nálgaðist. Hann staðfesti skoðun sína á mér með því að blikka ljósunum. Í sömu andrá þeyttist mótorhjól framhjá okkur og ökumaður og farþegi stungu út höndunum og gerðu V með vísifingri og löngutöng. Ég sá fyrir mér hnefa afgreiðslumannsins sem ég fékk við samningslok sem "gentlemans agreement"! Við skiptum um akrein og trukkurinn rann upp að hlið okkar. Við settum bæði út hendi með V-fingur og fengum þá rokna lúðurhljóm tilbaka. Þar með var tilvera okkar með trukkakarlinum staðfest með virðingu .........  

Að kvöldi dags var þægilegt að matsölustaðurinn var handan við hótelið okkar. Þegar ég kom inn um dyrnar vorum það ekki við sem héldum dyrunum opnum fyrir hvort öðru heldur maðurinn sem fór inn á undan okkur. Þar var biðröð og var okkur boðið í hana með "please sir"! Maturinn rann ljúflega niður eftir þennan fyrsta dag okkar "on the road"! Það skemmdi ekki fyrir þegar við gengum út að kallað var á eftir okkur: "good night guys"! Ferðin gekk vel og það skyggði ekkert á þetta viðmót sem við kynntumst á fyrsta degi og upplifðum allan tímann ..............

Í ljósi fyrri reynslu minnar og þeirrar aðvörunar sem ég fékk gagnvart trukkum, varð mér tíðrætt um þá virðingu sem við mættum. Vinir mínir staðfestu að þetta væri almennt viðmót og ekki bara sparihegðun gagnvart ferðamönnum. Eftir heimkomuna varð mér þetta enn meira umhugsunarefni, því staðfesting á virðingu okkar gagnvart næsta manni hrundi í fyrstu matarinnkaupunum á Íslandi. Ég leitaði því í smiðju Gunnars Hersveins, en hann segir í bók sinni Gæfuspor um kosti okkar og galla: "Virðing er að umgangast aðra með tillitssemi, þekkja rétt annarra og kunna að meta hann. Hún er án hroka og felst í því að bera sigurorð af græðginni og skeytingarleysinu, sem er andstæða virðingarinnar".

Kæru skólasystkin. Af framansögðu má sjá að mótorhjólaferðin okkar var ekki bara ævintýri og upplifun á öðrum menningarheimi, heldur einnig lærdómur á hvernig hægt er (þrátt fyrir útlitið) að umgangast hvert annað með kurteisi og virðingu og ekki með "víkingasiðum"! Sannleikurinn er sá að virðing er ekki meðfædd, heldur numin eins og aðrar dyggðir. Virðing er megingildi í mannlegum samskiptum, en hún kemur ekki af sjálfu sér, það þarf að rækta hana! Ég vil því hvetja eitt og sérhvert okkar til að endurskoða hversdaginn og bæta þessum skemmtilega náungakærleik inn í lífið og tilveruna. Orðum mínum til áréttingar ætla ég að vitna í ljóð Tómasar Guðmundssonar, "Rödd úr draumi":

Það kemur sú stund, er haustið um hug þinn fer
og hraðfleygu sumri tekur óðum að halla,
að rödd úr draumi þér óvænt að eyrum ber
og ásakandi þér virðist á sál þína kalla.

Samt spyr hún ekki um afrek, sem fáum er fært,
og fæst því síður um völd og skammlífan hróður:
"En kjósirðu að vinna góðverk, sem Guði sé kært,
þá gakk þú aldrei fram hjá nauðstöddum bróður".

Og ennþá niðdimm nótt yfir öllu lá.
En næsti dagur? Hvort færðu með honum ratað
á veginn, sem ungur þú villtist í gáleysi frá?
Þar væntir þín ennþá líf, sem þú hugðir glatað.
Flettingar í dag: 46
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 52
Gestir í gær: 26
Samtals flettingar: 121795
Samtals gestir: 25510
Tölur uppfærðar: 15.5.2024 06:10:41
clockhere