08.12.2012 16:27

Til hvers "gengur aðventan í garð" ........... ?

Kæru skólasystkin!

"Jæja, þá er aðventan gengin í garð .........."! Hvað, er einhver úti í garði? Það er ekki nema von að yngra fólk spyrji í dag hvað/ hvert við séum eiginlega að fara með slíku orðalagi, sem er notað í minna mæli en áður á þessari öld rafrænna viðskipta og umgengni.

Það má vel vera að einhver sé út í garði, en með þessu er átt við að nú séu aðeins fjórar vikur til jóla. Þetta er heiti á tímabili sem hefst fjórða sunnudag fyrir jóladag og stendur yfir í 4 vikur og "er ætlaður til undirbúnings fyrir komu frelsarans og til að minnast fæðingu hans". Þessi tími var áður kallaður jólafasta, en þá var það kaþólskur siður að fasta síðustu vikurnar fyrir jól. Í er þessum tíma mjög misjafnlega varið; sumir eru í hugleiðingum, aðrir setja upp aðventuljós og kransa og enn aðrir eru á fullu í jólagjafakaupum og að skrifa jólakort til útlanda.

Ég man eftir því frá skólaárunum á Ísafirði hvað þessir dagar lengdust eftir því sem nær dró jólunum og þó að við lentum ekki beinlínis í undirbúningi fullorðna fólksins, þá skynjuðum við hvernig spennan magnaðist og hraðinn á öllu jókst, nákvæmlega eins og í dag. Ég man aldei eftir því þá og hef ekki tekið eftir því nú að fólk væri sérstaklega að undirbúa jóldaginn sjálfan. Þessi tími hefur frekar verið nýttur til að gera hluti sem ekki hafa náðst yfir árið og síðan til að redda öllum jólapökkunum og ekki gleyma öllum matnum, því hvorki megum við fara í jólaköttinn eða svelta.

Það sem ég sakna mest að vestan úr þessum undirbúningi okkar krakkanna, eru allar "verslunarferðirnar" sem við fórum til að safna drasli á brennuna. Þetta var nú ekkert smávegis basl að draga þetta á sleða og kerrum sem við fengum lánaðar úr Neista, Jónasarbúð og Apótekinu. Ég man líka eftir sigurvímunni sem fór um okkur þegar kveikt var í og við kvöddum árið með stæl í Hlíðinni "okkar"! Þannig var í raun "okkar" adventa.

Í dag förum við ekki varhuga af afleiðingum svokallaðrar kreppu. Í stað undirbúnings er mikil spenna í þjóðfélaginu, ekki minnst inni á vinnustaðnum mínum, þar sem mikið er um uppsagnir og óvissu. Inn í þetta blandast öll óvissan um framtíð landsins okkar. Ef ekki nú, þá veit ég ekki hvenær við ættum að hjálpast að til að "gíra niður" og hugsa til fyrri ára og tíma og minnast þess að jólin komu nú alltaf á sama tíma, óháð því hvort við höfðum baslað mikið eða lítið í undirbúningum. 

Kæru skólasystkin. Ég vil hvetja okkur til að nýta aðventuna til góðra athafna eins og áður, en einnig til að hugsa vel til hvers annars og veita þannig styrk og hugarró inn í allra kringumstæður. Ég hef sagt það áður að tíminn okkar núna líður miklu hraðar en áður og hver líkamsfruma er eldri og úthaldsminni og þannig auðveldari bráð fyrir beyglum og skakkaföllum lífsins. Þannig er hver mínúta lífs okkar nú dýrmætari og verðmætari og okkur í (sjálfs)vald sett að fara vel með.

Ég óska ykkur, fjölskyldum ykkar og vandamönnum Gleðilegra jóla og farsæls komandi árs! Ég þakk ykkur einnig fyrir "rafræna spjallið" sem við höfum átt á líðandi ári. Orðum mínum til stuðnings ætla ég að vitna í ljóð Steingerðar Guðmundsdóttur, "Á aðventu"!  

Í skammdegismyrkri
þá skuggar lengjast
er skinið frá birtunni næst
ber við himininn hæst.

Hans fótatak nálgast
þú finnur blæinn
af Frelsarans helgiró -
hann veitir þér vansælum fró.

Við dyrastaf hljóður
hann dvelur - og sjá
þá dagar í myrkrum rann
hann erindi á við hvern mann.

Þinn hugur kyrrist
þitt hjarta skynjar
að hógværðin býr honum stað
þar setst hann sjálfur að.

Og jólin verða
í vitund þinni
að vermandi kærleiks yl
sem berðu bölheima til.
Flettingar í dag: 18
Gestir í dag: 12
Flettingar í gær: 52
Gestir í gær: 26
Samtals flettingar: 121767
Samtals gestir: 25488
Tölur uppfærðar: 15.5.2024 04:35:11
clockhere