06.01.2013 21:08

Rigning .............

Kæru skólasystkin!

Það hefur mikið rignt að undanförnu, bæði utan húss og inni í okkur. Hver lægðin á fætur annarri hefur dunið á landinu okkar rétt eins og í byrjun síðastliðins hausts. Á annan dag jóla byrjaði hins vegar að rigna inn hópnum okkar þegar ástkær Katý okkar kvaddi þennan jarðneska heim eftir nokkurra ára baráttu við illvígan sjúkdóm. Ég hefði getað sagt: "játaði sig sigraða", en það gerði hún í raun aldrei - því hún var baráttukona frá fyrsta degi sem sjúkdómurinn greindist. Eins og ég sagði í minningargreininni, þá lét hún hann aldrei verða að vandamáli, hversu harkalega sem hann réðist að henni. Hún brosti jafnan breitt og var æðulaus; hún missti aldrei sjón á gildum lífsins. Katý var félagslynd að eðlisfari og ræktaði stöðugt bæði vini og fjölskyldu. Hún var líka vinnusöm bæði utan sem innan heimilisins, þótt sjúkdómurinn sækti að úr öllum áttum.  Hún missti aldrei trúnna á læknavísindin þó hún hafi aðeins skilið helminginn af því sem sagt var við hana, enda stundum ekki fyrir heilvita mann að skilja þetta allt saman ........, sérstaklega ekki þegar dauðinn hefur betur ......, því hann kemur jú alltaf  óvænt á þessum tíma lífsins ............! Á slíkri stundu er nauðsynlegt að gráta og láta rigna inn í sér......

Fyrir tveimur árum síðan grétum við einnig sárt andlát Mumma Þórs. Hann var vélstjórnarkennari við Menntaskólann á Ísafirði. Á sama degi og Katý var jörðuð var opnuð Fab Lab nýsköpunarsmiðja sem var nefnd í höfuðið á honum, Guðmundarsmiðja. Því má með sanni segja að rigning okkar sem og annarra ber ríkulegan ávöxt. Því er ég sannfærður um að rigningin eftir hana Katý eigi einnig eftir að leiða gott af sér með því að við höldum nafni hennar og lífssýn hátt á lofti áfram.
 
Framundan er ennþá skammdegi, þó svo að daga sé farið að lengja og birta að aukast. Fólk lætur þennan tíma fara misjafnlega illa í sig eða skapið á sér. þeir sem hafa möguleika á, stytta tímann til páska með margvíslegum hætti eins og að stunda ræktina eða fara í utanlandsferðir. Aðrir elta uppi mannamót eins og árshátíðir og þorrablót til að rifja upp óendanlega mikla vinnugleði og ómissandi "mat" sem var á borðum forfeðra okkar áður en ísskápur og frystikista var fundin upp. Þrátt fyrir fráfall Katýar, ætlum við "Ísafjarðarpúkar 1954" að fjölmenna á Sólarkaffi Ísfirðingafélagsins til að nuddast saman og rifja upp okkar fyrri stundir í bæði gleði og rigningu ......., því (eins og sagt er) "það hefði hún viljað"! Það verður allavega auðveld upprifjun af okkar hálfu, því þar mun stíga á stokk (eða í ræðustól) einn úr okkar hópi, sjálfur Hrólli skipstjóri. 

Þegar litið er tilbaka, þá er Katý sú 7-unda sem yfirgefur okkar 80 manna árgangshóp. "Þetta nær engri átt", sagði Konni í erfidrykkjunni sl. föstudag; "hvar er Guð eiginlega"? Presturinn sagði: " hann er allt um kring og nú er hún Katý okkar hjá honum, læknuð meina sinna og laus við allar þjáningarnar"! og þar sem við erum kristin, þá skildum við þessa staðfestingu séra Vigfúsar og öllum virtist líða betur á eftir. Alla vega þornaði rigningin upp sem var innra með okkur í útförinni og við náðum smán saman áttum á ný á meðan við sötruðum kaffið og meððí og kættumst smá yfir þessum stutta endurfundi. Já, við vorum 17 systkini mætt til að kveðja í þetta sinn. Það hlýjaði okkur í rigningunni hvað 1954 luktin "okkar" með áletruðum skildi sómdi sér vel við kistugaflinn; ég er viss um að það heyrðist þaðan barátturödd "að hætta þessu snökti, því það styttir alltaf upp um síðir  ........"!

Kæru skólasystkin. Ég bið ykkur að taka þessi orð alvarlega - það er í anda Katýar og þannig höldum við merki hennar, brosmildi og æðruleysi, á lofti. Orðum mínum til stuðnings vitna ég að þessu sinni í kvæðið "Rigning" eftir Einar Benediktsson.

Hver er sem veit, nær daggir drjúpa,
hvar dafnar fræ, sem ná skal hæst.
Hver er sem veit, nær knéin krjúpa
við kirkjuskör, hvað Guði er næst.

Fyrst jafnt skal rigna yfir alla,
jafnt akurland sem grýtta jörð, - 
skal nokkurt tár þá tapað falla,
skal týna sauði nokkur hjörð?

Hver er að dómi æðsta góður, - 
hver er hér smár og hver er stór?
- Í hverju strái er himingróður,
í hverjum dropa reginsjór.
Flettingar í dag: 56
Gestir í dag: 40
Flettingar í gær: 52
Gestir í gær: 26
Samtals flettingar: 121805
Samtals gestir: 25516
Tölur uppfærðar: 15.5.2024 09:22:53
clockhere