03.03.2013 09:04

"Fjöllin í brjósti þér ..... "

Kæru skólasystkin!

Eina stundina er eins og tíminn standi í stað og aðra stundina er eins og hann bruni áfram. Um síðastliðin jól stóð hann allavega kyrr um stund, en skrölti svo aftur af stað upp úr áramótunum. Hann tók svo sérstaklega vel við sér í lok janúar þegar sólin gægðist yfir fjallatoppana og við gátum fagnað með hvort öðru í Sólarkaffinu. Þá leitaði hugurinn til fyrri tíma, sérstaklega þegar Hrólli fór að rifja upp öll prakkarastrikin sín og nánustu vina sinna. En auðvitað er enginn undanskilinn - þetta hreinlega viðgekkst á þessum tíma, þetta var okkar "prakkaratími".

Það hefur oft hvarflað að mér hvað kynslóðirnar á eftir okkur ætla að tala um þegar þau koma saman og fara að rifja upp svipaðan tíma og okkar; ég hef grun um að þau setjist bara í hring með iPaddinn sinn og fara í einhverja rafræna leiki eins og tíðkast í dag. Já, hugsið ykkur hvað við vorum í raun heppin að hafa fæðst á þessum tíma, því það var ekki bara tíðarandinn sem mótaði okkur, heldur einnig umhverfið sem við lifðum í og tókum mið af. 

Á þessum tíma voru göturnar fullar af snjó, vegir lokaðir inn í Djúp og vestur án þessu að allt ætlaði um koll að keyra í sjónvarpinu - bara það væri flogið og Djúpbáturinn kæmist leiðar sinnar. Sum okkar stefndu upp í Stórurð eða fram á Dal  meðan aðrir létu sér lynda að verða eftir í bænum. Á þessum tíma var það eðilegt að leika sér í og milli fjallanna, en í dag er það orðið hættulegt, nema að vel athuguðu máli. Hvað hefur gerst  - hefur náttúran breyst eða hefur tæknin tekið völdin yfir "eðlilegum" kringumstæðum okkar og gert okkur hrædd við upprunann. Því er ekki að neita að veðurfarið hefur "tekið burtu" gamla góða snjóinn okkar og tímans tönn hefur breytt nánasta umhverfi, en ekkert fær tekið burt minningarnar.

Framundan eru páskar sem vekja upp og kalla fram margvíslegar tilfinningar. Sumir hlakka til þeirrar helgihátíðar sem þeir í raun eru, en í hugum okkar flestra eru þeir byrjun vorsins með Ísafjarðalogni, sól, skíðum, skemmtun og góðum mat. Svo ekki gleymist nú allir gestirnir sem flykkjast á staðinn og fylla alla gististaði bæjarins - það verður eitt allsherjar risastórt ættarmót á þessum tíma. Já, það er stórmerkilegt eins og fjöllin eru há og brött og ógnvænleg og fyrir sumum hættuleg, þá flykkjumst við aftur og aftur heim og söfnumst saman í þeim eða á milli þeirra - það er eins og þau eigi sinn stað í brjósti okkar ............

Kæru skólasystkin. Hugur okkar getur ekki alltaf verið samstilltur, en á sérstökum stundum sem páskarnir eru, þá leitar hann ósjálfrátt "heim". Við höfum mismunandi möguleika á að komast "milli fjallanna", en ég vona að hvar sem þið eruð eða verðið á þessum tíma, þá látið hugann fara gegnum þær góðu minningar sem við geymum í brjóstum okkar og styrkja samhugann milli okkar í hvert sinn sem þær koma fram. Orðum mínum til hvatningar ætla ég að vitna í ljóð Matthíasar Jóhannessen, "Fjöllin í brjósti þér"!

Hann skín þér enn við augum dagur sá,
sem öllum dögum fegri rís úr sjá.
Og ennþá kemur hann á móti mér,
og morgunbjört vor ættjörð færir þér

sín himingnæfu fjöll - þú fylgir þeim
sem fugl er snýr á nýju vori heim,
þér fagnar ávallt heiði hrjósturgrá
og himnesk nótt með stjörnuaugu blá.

Og fjöllin rísa björt í brjósti þér,
þau benda heim svo langt sem auga sér.
Og moldin vakir, mold og gróin tún
 - og máttug rís þín sól við fjallabrún.

Þú kemur heim, þín sól við sund og vík
er seiður dags og engri stjörnu lík,
hún bræðir hrím og vekur vor sem er
svo vængblá kyrrð og þögn í brjósti mér.
Flettingar í dag: 73
Gestir í dag: 53
Flettingar í gær: 52
Gestir í gær: 26
Samtals flettingar: 121822
Samtals gestir: 25529
Tölur uppfærðar: 15.5.2024 15:28:07
clockhere