29.03.2013 09:13

"Af hverju fer maður vestur ........ ?"

Kæru skólasystkin!

Af hverju fer maður vestur og af hverju fer maður suður? Þessum spurningum verður hver og einn að svara sjálfum sér, en almennt er talið að það sé lengra í aðra áttina! Ég og María fórum vestur fyrir páska með strákana og eina kærustu. Við fórum akandi til þess að kenna börnunum um staðhætti í Djúpinu og til þess að njóta þeirrar ásyndar sem þar ber fyrir augu, sérstaklega á góðviðrisdögum eins og við fengum. Á vesturleiðinni var dottið á myrkur sem gerði suðurleiðina enn þá meira spennandi og tilkomumeiri. Það er alltaf jafnótrúlegt hvað hægt er að forfæra baráttu fortíðarinnar til sigurvímu hvert sem augað lítur og hvað sem rætt er um. Það var af nógu að taka þar sem ættirnar komu að beggja vegna Djúpsins. Líflegar undirtektir strákanna örvaði mjög frásagnargleðina, en hemilinn hafði ég í baksýnisspeglinum þegar augu kærustunnar fóru að snúast í hringi. Það er alltaf jafnólýsanlegt að "detta inn" í Skutulsfjörðinn í þvílíku spegillogni að himinn og fjöll líta eins út hvort sem horft er til himins eða hafs.

Annars er ekkert jafn unaðslegt og að hitta og umgangast fjölskyldu og vini, sem er því miður alltof sjaldan. Það þarf orðið "tilefni" til allra slíkra athafna, þar sem dagatal og skipulag ræður orðið ríkjum yfir öllum tímasetningum; tilefnið "þarf að passa öllum"!. Þrátt fyrir háan meðalaldur í hópnum var "páskafrí í skólanum" samnefnari þess að hægt var að fara og svo þurfti einnig að "deila upp" álaginu. Það þarf ekki síður að sýna og segja frá þegar komið er "heim", bæði innanhúss sem utan; yfirgnæfandi fjöllin í bak og fyrir, skipin í höfninni, fólkið í bænum, uppgerðu húsin, bílarnir í götunni og veðrið.

Snemma morguns bárust hamarshögg og vélahljóð frá höfninni inn um stofugluggann - einnig þrastarsöngur. Vorið staðfestir komu sína með sólroða á fjallstindana - en það er ennþá mjög kallt úti á tröppum. Fréttaflutningur brestur á í batterísútvarpinu - alltaf jafn brjálað þarna í Reykjavík og svo kemur veðrið með góðu útliti fyrir daginn - allavega "á miðum og annesjum" allt í kring! Við drífum okkur á skíði "til þess að nýta daginn". Það er fátt um manninn á Tungudalnum, því það er "bara helgi" - ekki komnir páskar. "Það er eins og allir séu fastir í internetinu" sagði lyftuvörðurinn og dæsti; "ég ætla sko ekki að fá mér tölvu - þetta er skrímsli sem étur mann"! Ég greip í lyftustöngina og þeyttist upp brekkuna. Ég var lyftunni mjög þakklátur að toga mig burtu frá þessari "gífurlegu" yfirlýsingu og lyfta mér upp í sólina og sjá hvernig Ísafjörður og öll fellin (Sandvell, Miðfell, Búrfell og Kistufell) birtust hægt og bítandi í öllu sínu veldi - ekki var það síður að snúa sér við upp á endastöð og sjá alla heiðina blasa við með sína spegilglampandi ásjónu í sólinni.  

Fólk sigraðist á deginum með margvíslegum hætti; fóru aftur niður í löngum og hægum boga til að sólin skini jafnmikið á báðar kinnarnar, fóru svörtu brekkuna í einum rykk, fóru í Gilið á brettinu, fengu börnin með sér í áttina að Orustuhól með loforði um Prins Póló þegar þangað kæmi eða kakói þegar niður kæmi. Aðrir fóru gamla skíðaveginn upp á Seljalandsdal og gengu þar í mislöngu spori allt eftir því sem markmiðið hafði verið var sett fyrir daginn; þriðji hópurinn þeyttist á vélsleða upp um ósnertar fjallshlíðarnar og merkti sér þær með tilheyrandi krúsidúllum. Allavega var umræðuefnið ærið þegar komið var í heitapottinn í Víkinni með snæviþakinn Ernirinn gínandi yfir sér. Það sem vakti mann sérstaklega til umhugsunar var það mikla öryggi sem talið er að göngin veiti á sama tíma og fólk fjölmennir til allskyns útiveru á hinni stórhættulegu Óshlíð. Allavega voru allir sammála um að ekki væri eins gaman að "keyra út í Vík" eins og áður!

Þegar betur er að gáð, snýst lífið í bænum okkar ekki bara um útiveru og náttúruaðdáun, flug og fisk! Það er mikið verslunar-, iðnaðar og menningarlíf sem er innilokað í öllum húsunum niður í bæ; þetta verður maður ekki var við nema fara líka þangað. Fyrst verður fólk hugfangið af öllum nýuppgerðu húsunum og þegar inn er komið, hvað mikið er í gangi þar. Heitasta umræðan snerist eðlilega um páskana og eins og sagt er í dag hátíðina "Aldrei fór ég suður"! Þrátt fyrir að þetta sé mikill viðburður í bæjarlífinu, þá halda bæjarbúar alveg ró sinni og festu í daglegu amstri. Endurreisn Edinborgarhússins og Neðstakaupstaðar hefur tekist með undraverðum hætti.  Þar er alltaf mikið af fólki, sérstaklega ferðamönnum sem vilja kynnast okkur betur. Þó svo að þar sé allar heimsins upplýsingar að finna, mun ég alltaf sakna "Bæjarkarlanna" sem settu svip sinn á bæinn og vissu nákvæmlega um allt sem maður þurfti að vita hverju sinni.

Kæru skólasystkin! Það er alltaf margs að minnast; sumt gott, sumt vont. Tímann er ekki hægt að spara - aðeins hægt að nýta hann betur. Þá er mikilvægt að draga fram það góða og jákvæða úr átthögunum og miðla áfram til komandi kynslóða. Framundan eru ýmis merk tímamót sem vert er að minnast og kætast yfir, en eins og ég sagði í upphafi krefst allt í dag undirbúnings og skipulagningar til að flestir geti tekið þátt og notið samverunnar í okkar bláa fjallahring. Máli mínu til staðfestingar ætla ég að vitna í "Vorvísur" Valdemars V. Snævarr.

Vakir vor í landi.
Vorsins blíður andi
köldum klaka eyðir,
kveður starfa til.
Kátur fossinn freyðir,
fyllir hamragil.
    Vakir vor í landi.

Vakir vor í landi.
Vorsins blíður andi
vekur blóm á bölum,
býður fuglum heim.
Drótt í frónskum dölum
dátt mun fagna þeim.
    Vakir vor í landi.

Vakir vor í landi.
Vorsins blíður andi
gleður, fjörgar, græðir,
gleymast vetrarsár.
Kapp og framtak fæðir
fjallahringur blár.
    Nú er líf í landi.

Vakir vor í landi.
Vorsins blíður andi
vekur von og gleði,
vermir allt, sem kól.
Nú er glatt í geði,
gullbjört ljómar sól.
    Nú er líf í landi.
Flettingar í dag: 63
Gestir í dag: 46
Flettingar í gær: 52
Gestir í gær: 26
Samtals flettingar: 121812
Samtals gestir: 25522
Tölur uppfærðar: 15.5.2024 11:30:43
clockhere