05.05.2013 07:09

"Tal við spóa........."

Kæru skólasystkin!

Til hamingju með nýliðið 45 ára fermingarafmælið okkar; tíminn líður og veðrið er eins og það er. Ég man eftir þessum 28. apríl eins og hann hafi verið í gær. Það gekk flensa í bænum og fólk misjafnlega vel á sig komið til kirkjuferðar, en séra Sigurður gaf engan afslátt á því að við þyrftum að mæta til brauðsbrotningar; "þið hressist bara á því"! Rósa kastaði upp í lúkurnar á pabba sínum, en ég náði að hlaupa út - síðan var gengið til altaris og fermingin staðfest með víni og brauði. Það urðu allir hressari á eftir og hvergi slegið af tilheyrandi veisluhöldum. Veður var kallt; hvasst, frost og snjór. Við tók hefðbundið upplestrarfrí og próf .........

Undanfarin ár höfum við vanist því að sumarið komi fyrr (í apríl) með hlýindi og sól. Að sama skapi hefur veturinn verið snjóléttari og færri tækifæri til skíðaiðkunar, sérstaklega svig og bretti, sem í dag eru algjörlega háð því hvort lyfta sé í gangi eða ekki. Það kom því flestum skemmtilega á óvart hvað Ísafjörður skartaði bæði miklum snjó og fallegu veðri um páskana. Dalirnir "okkar" voru til þvílíkrar fyrirmyndar hvað varðar alla aðstöðu til útiveru, en það merkilega gerðist að aðeins nokkrir mættu á svæðið til að njóta. Fyrsti morguninn minn á svæðinu fór í að "taka út" aðstæður og njóta þessarar dýrðar sem snjórinn, sólin og lognið sköpuðu í faðmi þessara vestfirsku fjalla. Annan morguninn tók ég snemma og var mættur upp úr 10, en þá sagði Steini Magnfreðs stjóri á efstu lyftunni: "Halldór, þú hefðir átt að vera hér í morgun, þegar sólin læddist upp fyrir fjallsbrúnina og skreið niður dalinn - þá var líka logn". Vá, hvað ég var smá spældur að hafa verið sofandi í slíkri dýrð. Þriðja morguninn var ég mættur snemma og fékk þá að upplifa það sem ég svaf af mér daginn áður, en Steini hafði greinilega fengið nóg, því hann lá fram á kaffiborðið og var greinilega í öðrum heimi en þessum. Þegar líða fór að hádegi og ennþá fámennt á svæðinu spurði ég Steina, hvar allt fólkið væri? Steini hvessti á mig augun eins og ég hefði gert eitthvað af mér og sagði mjög alvarlega: "Halldór, það er fast í internetinu"!

Þessi setning "fast í internetinu" skaut mig í hjartastað. Á leiðinni upp í lyftunni sá ég fyrir mér fólk fast í neti og berjast um eins og seli í fiskineti ....... Þetta var mjög truflandi, sérstaklega af því að ég sá ekkert fólk á Dalnum og Steini var mjög sannfærandi. Þegar ég kom heim, þá sá ég að Steini hafði rétt fyrir sér, því fólk fór beint í símann sinn, Paddinn eða í tölvuna til að taka púlsinn á því sem gerst hafði frá því að við fórum fram eftir um morguninn! Ég var svo smám saman leiðréttur og bent á að dagarnir eins og þeir væru núna hefðu ekki verið til staðar í mörg ár og á þessum tíma hafi fólk hreinlega fundið sér aðrar tómstundir en að stunda skíði ........ Þannig væri nú til staðar kynslóð sem ætti engar skíðagræjur, heldur bara tölvur og ýmislegt annað sér til skemmtunar og viðurværis.

Það sem greinilega hafði ekki brugðist í tímans rás og óháð veðri og vindum er tónlistarlífið á Ísafirði. Annars vegar er þar afsprengi frá Tónlistaskólanum með áframhaldandi þróun einleikara og kóra: Þar ber hæst frænkurnar, okkar Margréti Gunnars og (okkar Einars) Sunna Karen sem hvergi láta deigan síga með söng og undirleik; og hins vegar er það hann Mugison sem bara skátengist okkur, en er að engu síður orðinn og búinn að gera Ísafjörð heimsfrægan fyrir sína páska uppákomu. En þrátt fyrir allar þessar skemmtistundir er ótrúlega stutt í gráma hversdagsleikans, því strax í kjölfar páskanna átti sumarið að koma með hækkandi sól og blíðviðri, sem algjörlega stendur á sér eins og myndun nýrrar ríkisstjórnar. Á meðan að við bíðum, þá berjumst við bara fyrir endurbótum í samgöngum með því að senda vöruflutningana aftur út á haf og bora fleiri göt í fjöllin okkar til að sleppa við að aka um alla þessa fallegu firði.

Já; þrátt fyrir kuldann, stefnir hugur Ísfirðinga hátt ef marka má fréttir úr fjölmiðlum þaðan. Ég fæ ekki betur séð en að þar sé endurreisn í gangi bæði í huga og í verki. Við erum búin að fá nýjan bæjarstjóra sem er uppalinn á staðnum og flestur hnútum kunnugur og síðan er hvert sprotafyrirtækið á fætur öðru "að gera það gott" og að verða heimsfræg eins og eiginlega allt sem byrjar og verður til á Ísafirði.

Kæru skólasystkin. Þrátt fyrir kalda sumarbyrjun, þá vil ég hvetja ykkur til að minnast staðfastra róta ykkar og það trausta bjarg sem þær gefa ykkur inn í hvern dag lífs ykkar; minnist bara hvað það kom nú alltaf leiðinlegt veður eftir vorprófin, en svo kom loxins sumarið og spóinn  - þannig hafa þau alltaf komið aftur óháð "internetinu" .......  
Máli mínu til stuðnings í dag ætla ég að vitna í ljóð Jóhannesa úr Kötlum, "Tal við spóa", sem gæti hafa farið fram á Ísafirði.

Ég átti í morgun tal við spakan spóa,
sem spígsporaði um þýfðan sinuflóa
og var að flauta fjörugt ástarstef
og föndra við sitt langa og bogna nef.

Hann sagði, að hvergi væri betra að vera
né viturlegra hreiður sitt að gera
en hér á þessum hlýja og frjálsa stað,
og hjartanlega vall hann upp á það.

Ég grét af öfund, vildi verða spói
og vildi að landið yrði tómur flói,
og vildi elska og syngja í sinu þess,
 - þá sagði spóinn: Jæja, vertu bless!
Flettingar í dag: 18
Gestir í dag: 12
Flettingar í gær: 52
Gestir í gær: 26
Samtals flettingar: 121767
Samtals gestir: 25488
Tölur uppfærðar: 15.5.2024 04:35:11
clockhere