05.04.2014 09:48

Á páskum ...........

Kæru skólasystkin!

Nú eru páskarnir að bresta á og margir eflaust farnir að hugsa vestur. Hvað þýðir þetta eiginlega "að hugsa vestur"? Ætli þeir sem ættaðir eru frá öðrum stað eða eiga engra hagsmuna að gæta þar séu þá farnir að "hugsa norður" eða í einhverja allt aðra átt - kannski "til sólarlanda" eða hugsa sér ekki neina átt, heldur bara að vera á þeim stað þar sem þeir eru núna.

Allavega vitum við sem erum að vestan nokkurn veginn hvað þetta þýðir í okkar huga, Við erum ósjálfrátt að rifja minningar í hugarfylgsnum okkar eins og þegar Ísafjörðurinn okkar skartar sínu fegursta með endurspeglun fjallanna í Pollinum eða með snæviþöktum sólbjörtum fjöllum eða ysi og þysi í bænum eða dúndrandi hljómlist frá dansleik eða tónlistarhátið og tilheyrandi uppákomum til að gleðjast yfir þessum tímamótum ársins; önnur hlið þessa tíma er undirbúningur fyrir komandi próf og skólalok eða keppnir og lok skíðavertíðar. Samanlagt má segja að páskarnir á Ísafirði einkennis af nokkurskonar uppskeruhátið vetrarins og fögnuði yfir komandi vori, hækkandi sól og sumaryl.

En öllu gamni fylgir alvara. Einhver okkar eru kannski ekkert "að hugsa vestur" - hvarflar ekki að þeim, vegna þess að rætur þeirra hafa losnað eða hreinlega slitnað af margvíslegum ástæðum; þeim líður betur annars staðar. Sumir fara til kirkju af því öll fjölskyldan er að fara til messu "að fornum sið", en einhver okkar fer til að fagna upprisu Jesú Krists frá dauðum. Óháð stöðu, ástæðu og kringumstæðum er ég sannfærður um að innst inni í okkur röllum leynist fræ sem aldrei verður hægt að ná úr okkur og það er 1954 fræið. Það er þarna og hjálpar okkur í blíðu og stríðu til að hugsa til hvers annars, sína samstöðu og samheldni og gera tímann okkar að dýrmætustu stund hverju sinni.

Kæru skólasystkin. Árið í ár er einmitt slík tímamót þar sem okkur gefst tækifæri til að í alvöru fagna með hvert öðru. Eins og þeir sem lesa síðuna okkar sjá glögglega eru skráðir afmælisdagar okkar 80 talsins og telst örugglega til stærsta árgangs sem orðið hefur til í landinu. Þó einhverjir vilji láta lítið fyrir sér fara, þá erum við öll svolitið börn inn í okkur þannig að ein afmæliskveðja mun ekki skaða okkur til frambúðar. Ég vil því nota tækifærið til að óska okkur öllum gleðilegrar páskahátíðar hvernig svo sem henni verður háttað og hvetja okkur til að óspart senda inn afmæliskveðjur til hver annars á viðeigandi dögum , hver "með sínu nefi"!

Orðum mínum til stuðnings í dag ætla ég að vitna í ljóð Þorgeirs Sveinbjarnarsonar, "Á páskum"! 

Aldrei hefur birta morgunsins
og litur landsins
ljómað eins skært og í dag.

Sjá, auga lyftist
og fær ljós að gjöf.
Lífbrún fagnar moldin
og angar.

Enginn skuggi
við gröf.

Geisli leikur tónmjúkt
sterkri hendi
við stráin.

Enginn
dáinn.

Gangan er létt
úr garði
til glaðra endurfunda.

Það sem var
er heilt

framundan

horfið,
en ekki liðið.

Í birtu morgunsins
mætir þú Kristi
við hliðið.
Flettingar í dag: 61
Gestir í dag: 44
Flettingar í gær: 52
Gestir í gær: 26
Samtals flettingar: 121810
Samtals gestir: 25520
Tölur uppfærðar: 15.5.2024 10:30:58
clockhere