01.03.2015 11:15

"Köld er nú tíð ............. "

Kæru skólasystkin!

Já - veturkonungurinn lætur aldeilis ekki hæðast að sér í dag; sendir hverja lægðina á fætur annarri yfir okkur og allt í kring svo landið er að drukkna í vatni eða snjó. En er þetta eitthvað öðruvísi en þegar við áttum öll heima á Ísafirði? Ég man mjög vel eftir hvernig hvein í fjöllunum, hvernig vatnselgurinn kom niður frá klettunum, milli húsa og út í sjó - tók einu sinni með sér heilan bílskúr inn á Strítu. Og mikill var snjórinn sem lagði heilu húsin í kaf, svo ekki sé talað um hvernig bílarnir í götunum hurfu einn af öðrum svo upp úr stóð aðeins útvarpsstöngin. Þar sem þetta var á þeim tíma talið eðlilegt, var ekki nein sérstök umræða um þetta fólks í milli eða í fréttamiðlunum. Það var eðlilega meira fréttnæmt ef óhöpp urðu, eins og sjóslysin og síðar snjóflóðin.

Sem betur fer hefur okkur tekist vel upp í að tryggja öryggi sjómanna og báta með margvíslegum og markvissum hætti svo orð hefur verið haft á í skýrslum hin síðari ár. Erfiðara hefur reynst að koma böndum á eðli náttúrunnar, en viðbrögð við henni hafa frekar byggst á mynstri veðurs og mögulegum afleiðingum í ljósi fyrirliggjandi landslags. Ekki hefur verið hlustað á þekkingu eða reynslu heimafólks, þar sem slíkar upplýsingar kallast óábyrgar sögusagnir. Í forvarnarskyni hefur verið farið út í miklar breytingar á vegum og landslagi sem setur mikinn og "öðruvísi" svip á umhverfið en áður. Það að hunsa fyrirliggjandi þekkingu mannsins hefur nú sannað sig æ ofan í æ þegar nýir vegir lokast í fyrstu snjóum, snjóflóðin koma ekki á varnargarðana heldur fara framhjá þeim og hýbýli neðan við garðana fara á flot þegar búið er að breyta hefðbundnum farvegi vatns og stefna honum í aðra leið sem átti að vera örugg "samkvæmt öllum útreikningum"! Hvort sem umhverfið heitir Landeyjarhöfn, Þröskuldar eða Eyrarfjall, þá gilda sömu náttúruöfl á öllum þessum stöðum og þeim verður ekki breytt með pennastrikum á teikniborði. Á sama tíma og verið er að rústa mjög svo fallegri ásjónu Eyrarfjallsins vegna "nauðsynlegs" umhverfisöryggis, sem mér vitanlega hefur aldrei ollið skaða, svelta bæjarbúar af peningaskorti í ómokuðum götum, samdrætti í heilbrigðisþjónustu og nauðsynlegum atvinnumöguleikum. 

Þegar við göngum gegnum bæinn okkar, fyllist maður lotningu yfir því hversu vel hefur tekist til við endurnýjun gamalla húsa og fegrun lóða kringum þau; einnig hversu vel hefur tekist til við endurnýjun og uppbyggingu nýrra fyrirtækja. En einhvern veginn finnst mér þetta alfarið vera vegna einkaframkvæmda og ekki að bæjaryfirvöld standi heilshugar að eða á bak við þessa þróun. Er mögulegt að við séum bara að "fegra" bæinn fyrir augu aðkomumannsins þannig að framhliðin sé ólýsanlega falleg en á bak við séu raunverulegu vandræðin sem bara bæjarbúar fá að upplifa og líða fyrir. Ég vil ítreka að þetta eru nú bara hugleiðingar úr fjarska sem ekki eru byggðar á staðföstum tölum, heldur meira upprifjun á fyrri tíma sem borinn er saman við daginn í dag. Þrátt fyrir þetta "ástand" er alltaf jafn notalegt að koma heim, því þrátt fyrir öll veður og landslagsbreytingar er þar fólkið okkar sem við unnum og í gegnum það tengjumst við aftur fortíðinni sem við viljum muna eftir og minnast saman sem skemmtilegri og auðveldari á allan hátt miðað við í dag. Þrátt fyrir erfiðar kringumstæður, þá birtir oftast upp um síðir og sérstaklega á Eyrinni okkar þegar sólin brýst yfir fjallatoppana og hitastigið hækkar á milli fjallanna okkar.

Kæru skólasystkin. Ég vona að þögn sú sem ríkt hefur eftir síðasta Sólarkaffi sé ekki merki um að þið hafið lagt árar í bát. Ég bíð ennþá spenntur eftir að sjá einhverjar myndir af okkur fagna sólinni sem alltaf kemur aftur upp á sama stað og síðast, þrátt fyrir landslagsteikningar og umhverfisbreytingar. Ég hef skorað á sjálfan mig í kjölfar þessara hugleiðinga að auglýsa eftir og einnig sjálfur grafa upp gamlar myndir frá 1954 til 1974 eða þann tíma sem ég tel að við munum best eftir og bera saman við myndir í dag til að hvort tímans tönn hefur unnið meira á umhverfinu eða okkur. Máli mínu til stuðnings vitna ég í dag í kvæðið "Köld er nú tíð" eftir Friðrik Friðiksson.

Köld er nú tíð,
kólgandi stormur sér leikur um jörð,
hamast nú hríð,
hylja hér skaflarnir leiti og börð.
Vetrar und fönnum
vormagnið samt er í önnum.

Svo kemur tíð
sólin er ísana leysir af grund,
vorfrjóvgan blíð
vinna mun sigur á hamingjustund,
grundir þá gróa,
grængresi og blóm þekja móa.

Hræðast ei ber
harmanna tíðir og særandi þraut,
veturinn fer,
vorið mun færa þér hamingju í skaut.
Dafnar í harmi
dáð þér og kraftur í barmi.

Bið því og bíð,
brosandi gæfan mun vaxa úr neyð,
föðurhönd blíð
fjötrana sprengir og ryður þér leið,
veg gegnum vetur,
vorið að frói þér betur.
Flettingar í dag: 21
Gestir í dag: 6
Flettingar í gær: 44
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 120126
Samtals gestir: 24904
Tölur uppfærðar: 29.4.2024 03:33:23
clockhere