04.09.2016 21:39

"Aldurinn ........"

Kæru skólasystkin!

Ég þurfti smá umhugsun til að átta mig á skeytinu frá Lilju hér um daginn: "enginn veit, hvað undir annars stakki býr" ...."HJjr, er nokkuð nýtt á döfinni"? Ég var jú að enda við að skrifa þetta í síðustu hugleiðingum mínum um hann Bjössa á Bergi! Hvað er hún eiginlega að meina með þessari gátu; - ups, það er liðinn þriðjungur úr ári síðan þetta var skrifað, svo það er ekki skrítið að spyrja hvort íslenski tíminn sé staðnaður eða hvort við séum kannski dottin úr sambandi. Nei - hvorugt, ég held að tíminn líði bara aðeins hægar um þessar mundir; kannski er það aldurinn kæra Lilja?

Það má kenna aldrinum um ýmislegt, en síðan síðast er búið að vera heilt sumar með þvílíkri veðursæld að aldrei hefur annað eins verið til á Íslandi - allavega ekki á okkar lifsskeiði. Ég er sannfærður um að ekkert okkar hefur setið auðum höndum; margir náðu saman á hittingi á Ísafirði, aðrir náðu saman í fótboltanum, á golfvellininum, í bústaðnum eða í húsbílnum .....

Það var tær snilld að ná saman á Ísafirði í sumar. Þó fyrirvarinn hafi verið stuttur (illa auglýst) voru þó margir sem voru búnir að "spotta" þetta út og svo aðrir sem  gera geta gert hlutina fyrirvaralaust. Þeir sem komast njóta vel og hinir sem ekki komast, njóta gegnum frásagnir og myndir og þannig viðhaldast þessi órjúfanlegu bönd sem tengja okkur saman.

Við þurfum á sama hátt og hittingur brestur "fyrivaralaust" á fyrir vestan að finna leið til að slíkt geti einnig orðið hér á suðvestur hluta landsins. Með öllum þeim tæknibúnaði sem við kunnum ennþá á og höfum á að skipa, þá látum við þetta verða að raunveruleika fyrr en síðar. Þó Facebook og Skypið slái engu við á neyðarstund, þá er ekkert sem slær við "knúsi og krami". 

Þó haustið sé dottið á samkvæmt tímatali og yfirvofandi haustverkum eins og berjatýnslu og sláturtíð, þá er erfitt að ímynda sér það miðað við það veður sem ennþá er í kortunum. Ég skil því vel að við séum ekki alveg tilbúin að setjast niður til að fara ryfja upp gamla tíma og ræða málin. Það kemur þó að því að við setjumst niður hvort sem við viljum eða ekki og þurfum að horfast í augu við að aðrir eru staðnir á fætur til að gera framkvæma alla þessa hluti sem við erum bara vön að taka okkur fyrir hendur af gömlum vana. Þetta kallast í sinni víðustu merkingu: "aldurinn", hvaða skilning sem við svo sem leggjum í hann. Þannig færumst við hægt og bítandi inn í setu- og yfirsetu hlutverkið með öllu sem það býður upp á. 

Ég held við séum mistilbúin til að taka þessu lögmáli og misundirbúin að horfast í augu við þessa staðreynd. Ég tel að þetta sé flókin klukka líkama og veruleika sem undirbýr okkur vitandi og kannski líka óvitandi eins og líkama konu sem aðlagar sig að barni bæði á meðgöngu sem og fyrir og eftir fæðingu. En eins og ég hef sagt áður, þá eru það genin sem er stóri lykillinn í öllu ferlinu og svo áreitið gegnum tímann bæði innan í frá og að utan sem hnoðar og mótar okkur gegnum lífið. 

Kæru skólasystkin! Ég er svo himinlifandi glaður yfir því sambandi sem við erum í með þeim miðlum sem við höfum stofnað. Það er mikill ágangur fólks að komast inna Facebook síðuna okkar, en samkvæmt síðustu ákvörðun, þá hef ég neitað öllum sem til mín hafa leitað eftir að vera þar með. Ég veit að við erum dugleg að tala um samheldni okkar og ánægjustundir út á við og ég bið ykkur áfram að ná til þeirra okkar sem enn eiga eftir að komast inn í hópinn okkar. Þar sem ég er búinn að kenna góðu sumri og ýmsum viðburðum um langan tíma milli skrifa, ætla ég að láta fallegar hugleiðingar Þóru Jónsdóttir um aldurinn verða endapunktur þessara hausthugleiðinga.

Andlit þitt
er ekki framar ungt

en augun segja
við spegilmynd sína:

Sálin hefur engan aldur.

Þú gengur sem fyrr
út í birtuna
og gleðst yfir deginum.
Flettingar í dag: 39
Gestir í dag: 19
Flettingar í gær: 44
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 120144
Samtals gestir: 24917
Tölur uppfærðar: 29.4.2024 04:24:47
clockhere