15.11.2008 22:41

VINÁTTA..........

......Vinátta er oftast lengi að verða til. Hún er ekki hrifning því fólk getur hrifist hvert af öðru án þess að mynda persónulegt samband. Vinátta felst í því að gera eitthvað saman, vinna, skemmta sér og leysa vandamál. Það vekur vonir um framtíðina að gera eitthvað ánægjulegt saman og skapa góðar minningar. Vinátta er því lifandi samband sem þróast og styrkist með árunum og segja má að góðir vinir bæti hver annan!

...... Vinátta gefur djúpa reynslu af vinum og sjálfum okkur. Vinur er spegill sem sýnir ekki útlit heldur innri mann, hver við erum í raun. Enginn getur þekkt sjálfan sig nema í gegnum náin kynni við aðra manneskju. Við deilum tilfinningum okkar og hugsunum með vinum og treystum þeim fyrir innstu hugðarefnum okkar. Vinur er ekki aðeins félagi heldur kær félagi. Orðið vinur er tengt latneska orðinu Venus sem merkir kærleikur og er heiti yfir gyðju ástar. Ást og traust eru því sterkustu þræðir vináttunnar.

..... Við getum átt nokkrar gerðir af vinum, ef svo má segja, til dæmis ánægjuvini: þá er ánægjan sterkasti þráðurinn í sambandinu. Við skemmtum okkur með þeim og hlæjum mikið. Unglingarnir eiga marga ánægjuvini og beinist athygli þeirra þá meira að hlutum sem veita ánægju heldur en sambandinu sjálfu. Sumir eru nytjavinir: við eigum sameiginlegra hagsmuna að gæta með þeim. Þeir hjálpa okkur og við þeim. Aðrir eru andlegir vinir: Manngerðin, skapgerðin og persónan sjálf vega þá þyngst. Vinir í þessum flokki yfirgefa okkur síðastir þegar á móti blæs. Andlegur vinur hefur lært að treysta okkur, virðir góðu eiginleikana í fari okkar og fyrirgefur annað. Hann hefur gengið í gegnum súrt og sætt með okkur. Hann þekkir okkur og við erum hluti af hans eigin sjálfsmynd. Hann er tryggur þegar við lendum í hremmingum sem verða til þess að margir hætta að umgangast okkur. Andlegur vinur er því vinur í raun. {Þetta síðasta ætti að vera aðalsmerki íso 1954 - tiilaga HJjr}.
 
...... Öllum er nauðsynlegt að eiga vini og enginn vill lifa vinalaus. Markmiðið getur því aldrei verið að eiga sem flesta vini. Einn vinur getur verið nóg því sá sem á einn andlegan vin hefur mikið að þakka. Hann ætti að gefa vini sínum margt af hinu góða  sem hann býr yfir en minna af göllum sínum. Ein á báti getum við ekki öðlast næga andlega fullnægingu, lífiið fullgerist aðeins í samskiptum okkar við aðra. Lífið hlýtur að vera meira virði ef við erum svo lánsöm að gera notið stundanna með öðrum.

......Vinir eru ekki á hverju strái. "Vandfenginn er vinur trúr",  er málsháttur sem minnir á að allir menn eru breyskir. Það er aftur á móti heimska að vanrækja vin. Ástfangin pör sem hefja náin kynni falla þó oft í þá gryfju að sinna ekki gömlum vinum og til eru þeir sem hafa staðið uppi vinalausir þegar ástarsamband þeirra slitnar. Vinasamband á ekki að rjúfa nema í undanteknigartilfellum: Það getur átt við ef vinurinn tekur nýja stefnu í lífinu sem okkur er engin leiða að fylgja eða sætta okkur við, ef vinurinn bregst trausti eða misnotar sambandið eða ef vitsmuna- eða tilfinningaleg gjá myndast á milli vinar. (tilv. í gæfuspor Gunnars Hersveins). 
                    
                                TRAUST OG ÁST ERU MÁTTARSTÓLPAR VINÁTTUNNAR

Flettingar í dag: 234
Gestir í dag: 68
Flettingar í gær: 87
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 215038
Samtals gestir: 38906
Tölur uppfærðar: 24.12.2024 18:33:22
clockhere