Færslur: 2011 Júní

13.06.2011 10:31

Hvað þýðir: "Þannig fór með sjóferð þá ........" ?

Kæru skólasystkin!

Það hvarflar að manni setningin: "Þannig fór með sjóferð þá .......", flestir segja þetta í neikvæðri merkingu, en orðin segja alls ekki hvort sjóferðin hafi farið vel eða illa! Það blés hressilega á móti þegar bíllinn okkar stóð hæst á Steingrími og Djúpið kom í ljós, með hvitfyssandi öldurnar. Það heyrðist líka smellur í hitamælinum þegar hann datt úr 10 gráðunum niður í 2. "Já, þetta eru móttökurnar" eða "nú er hann kaldur af jökklinum" eða "svakalega ætlar sumarið að koma seint"! Mér var svo gjörsamlega sama um allt þetta, því ég hlakkaði svo til að komst "heim"! Þessu var þó ekki lokið, því um kvöldið hringdi "brósi" og bauð okkur að koma í Sjómannadagssiglingu með Sigga Bíu út á Djúpið. Í þessum töluðu orðum horfði ég út á hvitfyssandi Pollinn og sá fyrir mér hvernig allir skemmtu sér í siglingu á meðan ég lægi í keng út í einhverju skotinu með ælupokann í annarri og útataða myndavél í hinni hendinni. Þegar við komum loxins út úr þessum nýju en löngu og dimmu Bolungarvíkurgöngum, þá var bara logn í Víkinni. Á bryggjunni tóku við faðmlög og "langt síðan síðast" kveðjur og "hjartanlega velkomin um borð"! Siggi var flottur og snöggur í snúningnum - allt í einu á flugi út á Djúpið. Þarna var mikið af bæði stórum bátum sem fóru rólega og litlum bátum sem skutluðust inn á milli og út og suður svo "sauð á keipum"! Úti á miðju Djúpinu voru bátarnir komnir frá Ísafirði og þarna heilsuðust þeir "frændurnir" eins og hundar á lóðaríi með þvílíkum skvettugangi. Mér var efst í huga: "´Þannig fór með sjóferð þá ....... ", en það hefði verið hræðilega misskilið, því enginn vissi hvað mér hafði hviðið fyrir ferðinni þegar mér var boðið í hana kvöldið áður. Þess vegna sagði ég hátt og snjallt: "þetta var tær snilld" og það skildu allir rétt :))

Að þessu sögðu er auðveldara að lýsa tilfinningum mínum gagnvart 1954 hittingnum okkar. Ég var búinn að hlakka til hans eins og lítið barn. Þar blandaðist saman bæði það að hittast og að koma vestur. Ég skil alveg og virði ákvörðun nefndarinnar, en hélt því til streitu að fara vestur til að heilsa upp á "heimahagana"! Ég þarf ekki að útskskýra það á prenti hvernig brugðist var við komu okkar - með vinnugallann á hælunum, símann á öxlinni og höfuðið inni í bakarofni, var brostinn á "vorhittingur"áður en verðurfréttunum lauk á Stöð 1. Ekki nóg með að við náðum að knúsast, tala, hlægja og borða fram yfir miðnætti, heldur var haldið áfram í kjölfar erfidrykkju næsta dag. Þó svo að flestum okkar hafi verið efst í huga: "´Þannig fór með sjóferð þá ....... ", þá er það algjör misskilngur sem leiðréttist hér með og ég get aftur sagt hátt og snjallt: "þetta var tær snilld" og það skilja þeir rétt sem voru á staðnum :))

Ég vil því hvetja okkur til þess að missa ekki af tækifærinu sem gefst í haust. Þó svo að við gerum okkur ekki grein fyrir því í daglegu amstri og lífsins hlaupi, þá er ekkert dýrmætara en fjölskyldubönd, sem við í raun tengjumst með þessari sterku 1954 samstöðu og vináttu. Látum ekki svona dýrmætt tækifæri fara of auðveldlega fyrir bý - það væri mikil sóun á lífsins gæðum.

Mér finnst ljóð dagsins sem heitir "Leiðsla" og er eftir Þorstein Valdimarsson, passa vel inn í þessar kringumstæður okkar:

Í vefstól skúraskýja
hin skæra júnísól
með geislavafi vefur
á vorið daggakjól.

Svo skín þér allt í einu
þess undur tignarhljótt
í ljóma ungrar ástar
á óttubjartri nótt.

Þú stóðrst við elfarstrenginn,
er stríður geistist hjá,
en bakkinn rósum roðinn
í regnsins bláma lá.

Nú veit ei fyrr né framar
hinn fangni hugur þinn
en tíð og leið þér týnast
í tíbrá vorsins inn.

Þú felllur fram og skelfist,
hve fögur mynd þess er;
og kjólfald bryddan blómum
þú berð að vörum þér.

Ég óska ykkur áframhaldandi gleðilegs sumars með þakklæti til þeirra sem stóðu að og komu á vorhittinginn og uppörvun og hvatningu til þeirra sem ekki komu/ komust fyrir hittingnum í haust!
  • 1
Flettingar í dag: 101
Gestir í dag: 71
Flettingar í gær: 61
Gestir í gær: 15
Samtals flettingar: 122218
Samtals gestir: 25722
Tölur uppfærðar: 21.5.2024 16:16:47
clockhere