Færslur: 2009 Nóvember

28.11.2009 18:05

Tíminn .......

Ég glugga áfram í bók Gunnars Hersveins, Gæfuspor. Þar segir hann m.a. í kafla um Árstíðir:

....... "Ýmsir taka sér hvíld yfir jólin en stundatafla daganna krefst þess að henni sé hlýtt, þannig að atburðarásin haldi áfram, og endalaus verkefnin ráða tímaskynjun hvers og eins; það eru fundir, viðburðir, nám, skýrslugerð, verkefnalok. Manneskjan er háð tímanum en þó ekki alveg bundin honum. Hver mannsekja gerir í raun samkomulag við tímann; um að vera stundum í takt við hann, synda endrum og eins á móti straumi hans og jafnvel að hefja sig yfir hann. Tíminn í sjálfum sér nemur ekki staðar eða hægir á sér, innri  tími persónu er aftur á móti sveiganlegri í samningum. Vitundin um að geta stjórnað tíma er forsenda fyrir því að ráð sér sjálfur".

Vá; þetta var háfleygt og kannski ekki tilheyrandi nú þegar Aðventan er að byrja og allir með hugann við jólaundirbúning. Það er samt ágætt að stinga smá hugleiðingum Gunnars inn í amstur dagsins og t.d. "þakka það sem þú hefur og líka það sem þú hefur ekki. Þakklæti er tilfinning um lánsemi og ályktun um hlutdeild annarra í henni. Það er að kunna að gefa og þiggja og sýna gleði yfir hvoru tveggja. Hann þakkar til dæmis þeim sem braut reglu til að liðsinna honum og þeim sem gat veitt honum uppbyggilega gagnrýni".


Um þetta segir Hannes Pétursson í kvæði sínu, Þaðan:

Innst i því öllu sem gerist
öllu sem tekst þú í fang
heyrir þú stundirnar hverfa
heyrir þú klukkunnar gang.

Og þaðan mun þögnin koma - 
þögnin og gleymskan öll
er hinzta mínútan hnígur
á hvarma þér, eins og mjöll.    

Gaman væri að heyra sögur frá undirbúningi í öðrum löndum eins og t.d. Svíþjóð, Danmörku, Austurríki ofl.

06.11.2009 21:53

Ég held um smáa hendi ..........

Í vikunni kallaði ég eftir smá lífsmerki frá Svíþjóð. Lilja svaraði að vanda með fallegum haustmyndum úr sænska ríkinu, en hafði orð á því að við þyrftum kannski að halda aftur af okkur og leyfa öðrum að komast að ............. ! Ég svaraði því til að allir væru alltaf velkomnir, en það bólaði óneitanlega lítið á systkinum okkar. Kannski finnst þeim bara notalegt að fylgjast með blaðrinu í okkur um gamla tímann og þegar við vorum litlir krakkar.

Í þeim töluðu orðum datt ég niður í texta Gunnars Hersveins um Föruneyti Barnsins, sem mér fannst allt í einu passa mjög vel inn í kringumstæður okkar í dag og umræðuna, en þar segir m.a.: "Tíðarandinn er sýnilegt og ósýnilegt umhverfi barnsins. Í honum streyma margvíslegar hæðir og lægðir, persónur og viðhorf, straumar og stefnur, viðfangsefni og hættur. Þrautin er að greina tíðarandann, velja og hafna og taka ákvarðanir. Tíðarandi hverrar kynslóðar er breiðari en breiðasta fljót og dýpri en dýpsti hylur og í honum synda margir fiskar, ætir og óætir. Verkefnið er það sama og í öllum ævintýrum: Að læra að greina á milli góðs og ills - og sýna hugrekki og styrk.

Þar með smellur Ljóð dagsins sem er Vögguljóð eftir Jakobínu Johson beint inn í umræðuna um hlutverk okkar og tilveru:

Ég held um smáa hendi, því gatan hér er grýtt,
þá get ég líka fundið, hvort þér er nógu hlýtt.
Ég veit mér skylt að ráða og rata fyrir þig,
- en raunar ert það þú, sem leiðir mig.

Æ snertir þú við þyrni? - Hann fól hin fríða rós,
og fögur tárin myrkva þitt skæra hvarmaljós.
Mér rennnur það til hjarta og reyni að gleðja þig,
- en raunar ert það þú, sem huggar mig.

Þú spyrð um svarta skýið, sem skyggir fyrir sól,
og skrælnuð mösurblöðin, er fjúka um laut og hól.
Ég leitast við að ráða þær rúnir fyrir þig,
- en raunar ert það þú, sem fræðir mig.

Nú þreytast smáir fætur, svo faðminn þér ég býð.
Ég fel þig ljúft að hjarta, og stundin sú er blíð.
Þú andar hægt og rótt og þín rósemd grípur mig,
- svo raunar ert það þú, sem hvílir mig. 

Næst fáum við vonandi að heyra úr skáldsögunni hennar Lilju :))

  • 1
Flettingar í dag: 99
Gestir í dag: 52
Flettingar í gær: 244
Gestir í gær: 164
Samtals flettingar: 122460
Samtals gestir: 25867
Tölur uppfærðar: 22.5.2024 04:48:41
clockhere