Færslur: 2015 Maí

03.05.2015 04:37

Senn kemur sumarið .............

Kæru skólasystkin!

Gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn. Já - í desember sögðum við gleðileg jól og strax eftir áramótin byrjuðum við á pælingunni "hvað boðar nýárs blessuð sól"; Matthías Jochumsson sagði að hún boðaði náttúrunnar jól eða allt sem væri hlýtt og notalegt og færi vel í skapið á okkur. Mér finnst ég ekki þurfa að hugsa mig mikið um til að sjá að á Íslandinu okkar já og í heiminum öllum hefur nánast allt verið á hvolfi, hvort sem það er veður, líf eða pólitík. Lítum því okkur bara nær .....

Á íslenska sumardaginn fyrsta, þá var ennþá vetur á Íslandi. Það er hreint ótrúlegt hvað það er auðvelt að láta þetta veður fara í pirrurnar á sér, þó það sé algjörlega utandyra. Ég fór þó út á tröppur snemma morguns til að lykta af því, en vá - það var sko ekki hundi út sigandi, nema fyrir þá sem verða að pissa þeim megin dyranna. En dagatalið er örugglega rétt og við ætlum ekki að breyta klukkunni þó allir aðrir geri það, þannig að það er í raun ekkert annað í stöðunni en að fara í Max eða 99°Norður gallann og láta sig hafa það - við erum jú algjörir 1954 stálbítar.

Það vantaði þó slatta í hópinn þegar kom að síðasta Sólarkaffi sem er einn af aðal hittingarmöguleikum okkar. Ég geri mér fyllilega grein fyrir að mörgum okkar finnst of snemmt að hitta aldraða einstaklinga að vestan, en það kemur nú hægt og sígandi að því að við komumst á þeirra tímaskeið. Þá má segja það galla á samkomunni að hún sé alltaf á suðvestur horninu, en síðast þegar ég fór landleiðina tók ég eftir því að vegurinn er mjög svipaður í báðar áttirnar; alltaf þó þrengri fjallmegin, því þeir sem aka sjávarmegin (útlendingar) eru alltaf innar á veginum þannig að hinu megin (suður) verður þrengra. Við verðum því að halda áfram að hvetja okkur til hittings, því þeir sem ná því eða geta í hvert sinn, geta happað hrósi í tíma og ótíma.

Myndir (gamlar sem nýjar) og myndatökurnar okkar verðum við líka að að huga að. Ég er sannfærður um að nóg er til af myndunum; vandamálið virðist vera að ná þeim út úr símunum. Ég er líka nokkuð viss um að flestir símanna okkar í dag eru með innbyggðan tölvupóst, þannig að með einu tölvupóstfangi og mynd í viðhengi er málinu reddað og vandamálið dautt. Eins og þið hafið séð fór ég hjáleið til að fá myndir af Sólarkaffinu og leitaði á náðir Spessa. Þannig verður það líklegast í auknum mæli að við notum "rafrænar leitarvélar" til að finna hvert annað og vera þannig í návist á svokölluðum nútíma samfélagsmiðlum - það hlítur að heita rafmagnaður hittingur.

Kæru skólasystkin. Að öllu gamni slepptu, þá er sumarið komið á Íslandi. Því fylgir hærra hitastig, meiri útivera og garðvinna, meiri ferðalög og samvera fjölskyldna og ættingja. Ég vil brýna okkur á að nota tímann - hann líður svo ótrúlega hratt; njótið hverrar mínútu og augnabliks í bæði samveru og til jákvæðra hugleiðinga. Það er ótrúlega auðvelt að senda smá skilaboð á SMS eða með tölvupósti eða Twitter eða hvað sem þið notið með svokallaðri "augnabliksmynd" sem gæti glatt eða kætt aðra en okkur sjálf á þessari einstöku stund sem okkur finnst ástæða til að taka mynd af fyrir "okkur sjálf"! Orðum mínum til stuðnings ætla ég að vitna í kvæði Hannesar Péturssonar, "Bezt eru vorin".

Bezt eru vorin, ekkert elska ég heitar.
Úr útlegð þyrpast syngjandi vötn
og litir sem mora í holtum og hlýjum drögum

Þá verða dýrin að lifandi hluta landsins;
lambféð á gljúpu túni, ernir á heiðum
svanir á engi, hrafnar í blautum högum
hneggjandi stóð sem öslar mýrarsund
tekur á rás og þýtur, bylgjast í breiðum .....

Bezt eru vorin. Þau tylla sér niður um stund
í líki bjartrar stúlku á skínandi ský
með skæri og nál og byrja hljóðlát að sauma
í hvíta dali ást sína og alla drauma.
Ofan af glampandi sólinni vinda þau bandið!
Og skorti liti, hengja þau beint frá himnum
hvelfingar regnbogannna
rekja þar sundur rautt og blátt og grænt
raða því upp á nýtt og sauma í landið.
  • 1
Flettingar í dag: 51
Gestir í dag: 28
Flettingar í gær: 244
Gestir í gær: 164
Samtals flettingar: 122412
Samtals gestir: 25843
Tölur uppfærðar: 22.5.2024 02:23:51
clockhere