18.11.2008 21:02

VIRÐING...........

......Virðing er þýðingarmikil í mannlegum samskiptum, hvort sem er milli einstaklinga, hópa eða þjóða, og er meðal máttarstólpa lýðræðis. Skipta má virðingu í innri og ytri virðingu. Innri virðing fæst þegar einstaklinguinn hefur lært að virða sjálfan sig. Hann hefur sjálfsvirðingu og er ekki sama um andlega og líkamlega líðan sína og hæfileika. Ytri virðing er að bera virðingu fyrir öðrum, að hafa lært að setja sig í spor annarra og finna til með þeim. Að rækta virðinguna er því forsenda góðs samfélags.Lögmál virðingarinnar er að sá sem ber virðingu fyrir öðrum öðlast virðingu annarra. Þekking og djúpur skilningur á þessu gildi er því í raun forsenda velgengni í lífi og starfi. Forsenda þess að ganga vel í lífinu er að læra að meta aðra til jafns við sjálfan sig og heiðra þá. Foreldrar sem virða ekki barn sitt geta ekki heldur vænst virðingar þess. Hið sama á við um annað fólk; börn læra aðeins að virða aðra ef þau eru sjálf virt. Gæfusamt barni á foreldra sem bera virðingu fyrir því, löngunum þess og hæfileikum.

...... Virðing er helsta dyggð mannréttinda. Hún er burðarvirki menningar þar sem lögð er áhersla á frið og stöðugleika en ef hennar nýtur ekki við þá hefst ofbeldið. Að heiðra og virða aðra er forsenda velgengni í sátt og samlyndi. Ástæðan fyrir því að börnunum var öndverðu kennt að bera virðingu fyrir öðrum var sú að reynslan sýndi að þá urðu þau farsæl. Maðurinn þráir öryggi en hann er sjaldan öruggur. Heillavænlegasta leiðin að öryggi er að læra að bera virðingu fyrir náunga sínum, öðrum kynþáttum, menningu. trúarbrögðum, dýrum og lífríkinu í heild, og vona að virðingin verði gangkvæm. Virðingin er skyld kærleikanum og samúðinni og er háð væntumþykju gagnvart lífinu. Hú er ekki aðeins milli manna heldur einnig gagnvart dýrum og náttúru. Dýr marka sér yfirráðasvæði og jafnvel einstakligar innan sömum tegunda virða það. Dýr eiga sé heimkynni og kjörlendi. Þau eru háð ákveðnum svæðum kynslóð eftir kynslóð. Maðurinn þarf að ganga til móts við náttúruna með sátt í huga. Hann þarf að læra að setja sig í spor annarra lífvera og temja sér að bera hag þeirra fyrir brjósti. Hann þarf að virða líf þeirra og heimaslóðir.
 
..... Virðing er að umgangast aðra með tillitssemi, þekkja rétt annarra og kunna að meta hann. Hún er án hroka og felst í því að bera sigurorð af græðginni og skeytingarleysinu, sem er andstæða virðingarinnar. Maðurinn hefur átt í erfiðleikum með að virða rétt minnimáttar; til dæmis dýra og fugla sem eiga jafnvel lengri sögu en hann sjálfur. Hann hefur ekki virt yfirráðarétt þeirrra á tilteknum stöðum og valdið með því útrýmingu teguna. Hins vegar hefur hann viðurkennt að réttur hans og náttúrunnar er ekki allur hans megin, þótt því sé ekki fylgt eftir. En hver er mælikvarðinn? Maðurinn krefst öryggis á öllum sviðum en öðrum dýrategundum og náttúrunni sjálfri virðist hætta búin vegna þess að virðing mannsins er óþarflega birgðul. Réttindi dýra eru oft ekki metin til fulls af hálfu mannins.

...... Virðing snýst um sanngjarnt mat á verðmætum og hagsmunum manna, dýra, gróðurs og annarrar náttúru. Hún felst meðal annars í því að sérhagsmunir tiltekinna dýrategunda í heimkynnum sínum geti í vissum tilfellum vegið jafnþungt og stundum þyngra en sérhagsmunir mannanna sjálfra. Virðing er því grundvallargildi í öllum mannlegum samskiptum og umgengni mannsins við jarðlífið allt, Sá sem ekki nýtur virðingar verður sennilega óhamingjusamur og ekki er víst að honum farnist vel. Jafnvel tilhugsunin um að njóta ekki virðingar annarra veldur flestum kvíða. Virðing er því höfuðatriði í mannlegum samskiptum. (tilv í Gæfuspor eftir Gunnar Hersvein)

              Virðing felst í því að hafa jafnmikinn áhug á velferð annarra og sinni eigin.
                                                                            

Flettingar í dag: 234
Gestir í dag: 68
Flettingar í gær: 87
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 215038
Samtals gestir: 38906
Tölur uppfærðar: 24.12.2024 18:33:22
clockhere