03.10.2010 09:37

Hughreysting og samheldni ...........

Kæru skólasystkin!

Í dag 3. október, er afmælisdagur Margrétar heitinnar Oddsdóttur; já heitinnar, því illvígur sjúkdómur lagði hana að velli í blóma lífs síns. En minningin um hana lifir á margvíslegan hátt. Það sem ég vil sérstaklega draga fram var hressileikinn og hvatningin sem streymdi frá henni og gerði að umhverfið iðaði af lífi og léttleika og kringustæðurn sem virtust óárennilegar urðu mögulegar. Ein af venjum hennar var að "viðra hugann" með göngu og skokki í Fossvoginum. Svo mikill var hrifkraftur hennar að við ætlum að ganga í Fossvoginum í dag "eins og hún gerði". Í dag er einnig stofnaður minningarsjóður um hana til stuðnings baráttunni við þann sjúkdóm sem lagði hana standandi, með hvatningu á vörum um að sýna hvorki vol né víl, heldur hughreysti og samheldni. 

Í ljóði dagsins, "Til haustsins", eftir Jakob Jóh. Smára segir:

Ég ann þér, haust, með hreinleikssvipinn bjarta
og heiðan kulda yfir þinni brá,
með alvörunnar þrek í þínu hjarta
og þýðan bjarma fölum vöngum á.

Við sjálfar dauðans dyr þú kannt að skarta
og djörfum augum horfir sumri frá.
Þú kennir það, að oss ber ei að kvarta,
þótt einhvers sé að missa, sakna og þrá.

Lát karlmennskunnar djörfung hug minn hita
og hjartað veika finna það og vita,
að eftir vetri alltaf kemur vor.

Að baki lífsins bíður dauðans vetur, -
á bak við hann er annað vor, sem getur
látið oss ganga aftur æskuspor.


Ég þakka ykkur stuðning við stofnun minningarsjóðsins og bið þess að stöðuglegur hressileiki og hvatning Margrétar og hugleiðingar Jakobs Smára megi einnig verða hughreysting inn í fallvaltar kringumstæður okkar í dag.
Flettingar í dag: 234
Gestir í dag: 68
Flettingar í gær: 87
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 215038
Samtals gestir: 38906
Tölur uppfærðar: 24.12.2024 18:33:22
clockhere