05.11.2010 23:05

Væntumþykja ..........

Kæru vinir!

Nú er kominn nóvember, minni hiti, minni birta ........., þ.e. allt er að styttast, meira að segja við sjálf. Þegar umverfið er hagstætt og aðstæður þægilegar, líður okkur betur bæði líkamlega og andlega. Þrátt fyrir frábært veðurfar höfum við þó ekki farið varhuga af ríkjandi þjófélagsaðstæðum sem hafa valdið miklum óróleika og áhyggjum. Það er á slíkum stundum sem gott er og nauðsynlegt að eiga öruggt "skjól", hvort sem það er í ytri kringumstæðum eða huganum. 

Upphaflega hugmyndin með heimasíðunni okkar var einmitt sú að við gætum dregist aftur nær hvert öðru og þannig endurheimt og endurnýjað styrk okkar frá fyrri tíð. Þeir sem hafa einhvern tíma lesið þessar hugleiðingar hafa ekki farið varhuga af sveiflum í tilverunni sem hefur verið beint inn á jákvæðar og uppbyggilegar brautir byggðar á tilveru okkar og þeim krafti sem býr ekki aðeins í sérhverju okkar heldur líka heildinni. 

Það má spyrja sig hvað sameini okkur annað en að vera fædd á því Herrans ári 1954 og kallast Bæjarpúkar? Það sem mér finnst alltaf hafa einkennt okkur, þ.e. verið sérkenni okkar er væntumþykja. Það má vera að við hugsum ekki svo mikið til hennar dags daglega og sérstaklega ekki þegar dagur er langur, hlýr og bjartur, en um þetta leiti ársins og sérstaklega þegar daglegir og sjálfsagðir hlutir ganga ekki upp, er í alvöru gott að vita að okkur þyki vænt um hvort annað og sendum hlýjar hugsanir. Hvorutveggja eru andlegir atburðir sem við getum bara ímyndað okkur að séu raunverulegir - því yrði vitneskja væntumþykjunnar til hvers annars miklu raunverulegri á formi einfaldrar heimsóknar, bréfs eða örstuttrar símhringingar ..................

Ég ætla að myndgera þessar hugleiðingar til okkar í eftirfarandi "Vögguljóði" eftir Jakobínu Johnson:

Ég held um smáa hendi, því gatan hér er grýtt,
þá get ég líka fundið, hvort þér er nógu hlýtt.
Ég veit mér skylt að ráða og rata fyrir þig,
 - en raunar ert það þú, sem leiðir mig.

Æ, snertir þú við þyrni? - hann fól hin fríða rós,
og fögur tárin myrkva þitt skæra hvarmaljós.
Mér rennur það til hjarta og reyni að gleðja þig,
 - en raunar ert það þú, sem huggar mig.

Þú spyrð um svarta skýið, sem skygggir fyrir sól,
og skrælnuð mösurblöðin, er fjúka um laut og hól.
Ég leitast við að ráða þær rúnir fyrir þig,
 - en raunar er það þú, sem fræðir mig.

Nú þreytast smáir fætur, svo faðminn þér ég býð.
Ég fel þig ljúft að hjarta, og stundin sú er blíð.
Þú andar hægt ogr rótt og þín rósemd grípur mig,
 - svo raunar er það þú, sem hvílir mig. 

Ég vil hvetja okkur til að raula gegnum þetta "móðurlega" ljóð til að viðhalda með því væntumþykjunni til hvers annars! 
Flettingar í dag: 268
Gestir í dag: 79
Flettingar í gær: 87
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 215072
Samtals gestir: 38917
Tölur uppfærðar: 24.12.2024 18:54:44
clockhere