17.04.2011 09:43

Páskar og Sumardagurinn fyrsti ..........

Skrítið "hvernig uppeldið mótar okkur" ........ eru það bara umhverfisáhrif sem verka í lífi okkar og athöfnum eða spilar erfðamengið þar einnig sinn þátt. Í læknisfræðinni er það hvoru tveggja; "sitt lítið af hvoru" eins og sagt er. Hvað þá með "páskana fyrir vestan"! Er það ekki bara eða frekar uppeldið og mögulega umhverfisáhrifin .........? Af hverju sækja þá afkomendur okkar og ættingjar fæddir víðs fjarri Ísafirði eftir því að komast vestur og þá sérstaklega á páskunum?  .... umtalið eða endurupplifun á hegðun okkar, umræðu um þennan tíma og kannski hvernig við segjum frá þeim minningum sem við eigum í hjartanu frá þeim tíma þegar "við vorum á páskunum á Ísafirði"!

Í raun er páskahátíðin gleðihátið kristinna manna sem hefst á pálmasunnudegi en þá reið Jesú á asna inn í Jerúsalem til að halda páska gyðinga og fólkið fagnaði honum með því að veifa pálmagreinum. Á fimmtudeginum borðaði Jesús með lærisveinum sínum síðustu kvöldmáltíðina; dagurinn er nefndur skírdagur vegna þess að Jesús þvoði fætur lærisveina sina fyrir máltíðina, en skír í þessu samhengi þýðir hreinn. Föstudagurinn langi snýst allur um sakfellingu Jesú,krossfestingu og dauða. Páskahátíð gyðinga Pesach, var haldin á laugardeginum á sabbatinu. Þennan dag lá öll starfsemi niðri en daginn eftir, á sunnudeginum, var venjulegur virkur dagur. Það var þá sem María Magdalena og María móðir Jakobs sáu að Jesús var ekki lengur í gröfinni því að hann hafði risið upp frá dauðum. Kristnir menn halda því páskadaginn sem gleði og fagnaðardag. Jesús lifði þrátt fyrir að hafa verið tekinn af lífi á krossinum og það gerir páskana að mestu hátíð kristinna manna og forsendu kristinnar trúar.

Við höfðum ekki mikla hugmynd um þessa hluti hér áður; það snerist allt um að komast á skíði frá morgni til kvölds - allavega þegar nóg var til af snjó. Það má segja að Ísfirðingar hafi brugðist bæði við snjóleysinu og breyttum tíðaranda á rétta augnablikinu með því að innleiða hátíðina "Aldrei fór ég suður", sannkallað gleðihátið tónlistarfólks. Ótrúlegt hvað Ísfirðingar erum nú þrautsegir - á augabragði urðum við heimsfrægir fyrir hugmynd sem var í raun mjög einföld - en virkaði! Ég vil hins vegar leyfa mér að taka svo djúpt með árinni og staðhæfa að sú upplifun sem þessi gleðihátíð veldur hjá fólki er ekki bara tónlistin, heldur er það samspil tónlistarinnar, umhverfisins og alls þessa fólks sem er samankomið og fagnar því að vera komið vestur á eyrina, milli fjallanna og til kærkominna ættingja og vina.

Í ár stingur svo sumardagurinn fyrsti sér inn í hátíðina með því að bera upp á skírdag. Þetta er dagurinn sem annars á að gefa til kynna lok vetrar og upphaf hlýrri og sólarlengri daga. Í minningunni er hann skátamessudagur og skrúðganga í kulda og byl. Þrátt fyrir þessa miklu uppákomur nú um miðjan apríl, ætlum við 1954-ingar hvergi að láta deigan síga og stefnum ótrauð að okkar gleðihátið um komandi sjómannadagshelgi. Ég vil enn og aftur minna okkur á að taka tímann frá og byrja að rifja upp skemmtileg atvik sem þurfa að koma fram í dagsljósið, ekki seinna en nú, 50 árum eftir að við hófum skólagönguna okkar. Við þurfum einnig að vera dugleg að fylkja okkur bak við nefndina svo hún sjái einnig gleðina við hittinginn og ekki bara erfiðið :)))

Með tilhlökkun í huga eftir því að hittast fyrir vestan, vil ég enda þessa hugrenninga með tilvitnun í ljóð Friðriks Friðrikssonar, "Dýrlegt kemur sumar"

Dýrlegt kemur sumar með sól og blóm,
senn fer allt að vakna með lofsöngsróm,
vængjaþytur heyrist í himingeim,
hýrnar yfir landi´ af þeim fuglasveim.

Hærra´ og hærra stígur á himinból
hetja lífsins sterka - hin mikla sól,
geislastraumum hellir á höf og fjöll,
hlær, svo roðna vellir og bráðnar mjöll.

Gróðurmagnað lífsaflið leysist skjótt,
læsir sig um fræin, er sváfu rótt,
vakna þau af blundi´ og sér bylta´ í mold,
blessa Guð um leið og þau rísa´ úr fold.

Guði´ sé lof, er sumarið gefur blítt,
gefur líka´ í hjörtunum sumar nýtt,
taka´ að vaxa ávextir andans brátt,
eilíf þar sem náðin fær vöxt og mátt.

Blessuð sumardýrðin um láð og lá
lífsins færi boðskap oss himnum frá:
"Vakna þú, sem sefur, því sumar skjótt
sigrað kuldann hefur og vetrarnótt".

Ég vil fyrir hönd 1954-inga óska öllum gleðilegrar páskahátíðar. Einnig:
GLEÐILEGT SUMAR OG TAKK FYRIR VETURINN!

Flettingar í dag: 268
Gestir í dag: 79
Flettingar í gær: 87
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 215072
Samtals gestir: 38917
Tölur uppfærðar: 24.12.2024 18:54:44
clockhere