06.11.2011 06:27

"Hvar er hjartað þitt .............." ?

Kæru skólasystkin!

Í liðnum mánuði hefur umræða um hjartað sótt mikið að mér. Það hefur hins vegar farið eftir bæði umhverfinu og umræðunni hvaða merkingu það hefur haft í sér. Á spítalanum snýst málið oftast um hjartað sem líffæri sem við þekkjum öll til og er þá að "láta illa" eða það er ekki að starfa eðlilega. Það er hins vegar mjög algengt að hjartað sé notað í annarri merkingu og þá sérstaklega í merkingu sálarinnar eða hugans. Ég segi gjarnan við læknanemana að viðbeinsbrot séu svo sársaukafull því beinið sé svo nálægt sálinni; undantekningalaust horfa þau á mig og þora greinilega ekki að spyrja: "hvar heldurðu eiginlega að sálin sé"?  

Við heilsum fólki og afsökum hvað við séum handköld og staðfestum í leiðinni "en hjartað er hlýtt"! Við samhryggjumst einhverjum og sendum "hlýjar hugsanir frá hjartanu" eða við samgleðjumst og sendum "hjartans eða hjartanlegar kveðjur"!  Ef við látum okkur fátt um finnast, er hjartað okkar "steinrunnið"!, en ef við erum vingjarnleg þá erum við með gott eða notalegt "hjartaþel"! Í Svíþjóð kynntist ég starfsemi fyrir unglinga sem kallaðist 4-H sem stóð Huga, Hjarta, Hönd og Heilsu var talin samofin og nauðsynleg heild í "heilbrigðu" uppeldi.

Í dag er heimurinn gagntekinn af "réttu" mataræði og "réttri" hreyfingu til að geta lifað "heilbrigðu" líferni. Ef 4-H hugmyndafræði Svía var/er rétt, þá þýðir það að við séum í kappseminni um: "drasl inn - drasl út" og "lífrænt inn - lífrænt út" að gleyma eða undanskilja hug okkar og hjarta. Þarna er kannski komin skýringin á því af hverju "mér líður svona illa á þessu lífræna........."! Er mögulegt að GPS-inn á úlnliðnum sé að gefa rangar upplýsingar frá "hjartanu" - eða erum við að mæla "vitlaus gildi" :) !

Í sögunni um galdrakarlinn frá Oz er umræða um nauðsyn hjartans; þar staðfestir tinkarlinn að frekar vilji hann hjarta en heila, því hann vilji aftur fá tilfinninguna að verða ástfanginn ..............
Í þessari barnasögu er aftur komið inn á samspil hjartans og tilfinninga sem eru af ýmsum ástæðum að gleymast okkur í dag; hugsanir okkar og markmið eru komin of langt frá hjartanu og (því hlutverki)/ þeim tilgangi sem það hefur "í raun". Með þá mynd í huga skiljum við betur hvað hjartapílan hefur í raun "djúpstæða" merkingu um gleði og góða tilfinningu og ekki dauða, eins og hún gæti táknað í dag. Það er því ekki skrítið að hjartapílan var teiknuð og rist á áberandi staði til að gefa eitthvað elskulegt eða hugnæmt til kynna og skáldin "léttu á hjartanu" með því að setja tilfinningar sínar í bundið mál. En af hverju þurfti þetta að vera/ verða svona áberandi - af hverju var ekki hægt að bera þessar tilfinningar í hljóði, þe þegja. Jú; þeir sem sáu myndirnar eða lásu ljóðin brostu eða grétu af gleði og þá var kannski tilganginum náð - það að gleðja aðra, fá þá til að hrífast með, uppörfa.

Ég ætla að að vitna í hugleiðingar Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi, en þar vill hann vekja okkur til umhgusunar um hvað auðvelt er að dragast inn í heim vonskunnar og segir: Varaðu þig - 

Ég brá mér út í skóginn einn bjartan sumardag.
blærinn söng í trjánum sitt margraddaða lag.
Ég stóð þar undir björkinni, sem hæst við himinn ber,
og heyrði líkt og hvíslað í eyrun á mér:
Varaðu þig á skessunni, sem í skóginum er.

Ég sinnti þessu lítið og lék mér þar og hló,
og lengra inn í þykknið mig hulinn máttur dró.
Af vegi mínum hrukku hin hræddu skógardýr.
Þá heyrði ég kallað, og nú var röddin skýr:
Varaðu þig á skessunni, sem í skóginum býr.

Og lengra inn í skóginn og skuggana ég braust.
Ég skil það varla sjálfur, hvað af þeim sporum hlaust.
En stundum finnst mér allt vera illt, sem fyrir ber,
og ekkert hjarta lengur í brjóstinu á mér .........
Svona er að hitta skessuna, sem í skóginum er.

Kæru skólasystkin - ég vil með þessum orðum biðja ykkur að hugleiða betur "tilgang" hjartans; það er ekki bara til þess að dæla blóði og hitatilfinningu um okkur sjálf heldur einnig til að hugsa skýrt og rétt og vel til annarra - hvar er þitt hjarta?
Flettingar í dag: 298
Gestir í dag: 109
Flettingar í gær: 362
Gestir í gær: 67
Samtals flettingar: 203756
Samtals gestir: 37356
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 11:35:56
clockhere