11.08.2012 10:46

Vaknaðu, vaknaðu - hvar hefur þú verið .....?

Kæru skólasystkin!

Vaknaðu, vaknaðu - hvar hefur þú verið? Hafa ekki allir verið í einhvers konar "sumarfríi". Já, það er misjafnt hvernig þessi tími er skipulagður eða "tekinn" og svo hvernig hann er bara allt í einu er búinn :)) Í fyrrasumar fór mikill tími í viðhald heimafyrir sem flestir þurfa að gera. Í sumar fórum við til Västerås og Uppsala til að "taka út" spítalana sem við unnum við; ég þurfti líka að ræða við nemendur sem fara frá mér til framhaldsnáms í sérgreininni. Báðir staðirnir taka stöðugt breytingum, mest þó Västerås, en þar má sjá afrakstur góðæris eins og á Íslandi með uppbyggingu við sjávarsíðuna með skýjakljúfum og veitngastöðum. Það sem okkur brá þó mest við að uppgötva að það voru 30 ár síðan við mættum á staðinn eða 7. maí 1982. Við klipum svo sannanlega í handlegginn á hvort öðru og sögðum: "vaknaðu, vaknaðu - hvar hefur þú verið"? Við uppgötvuðum þá líka að nú voru liðin 20 ár frá því við fluttum aftur heim frá Uppsala eða 10. september 1992. En hvað er það sem bindur okkur svona sterkum böndum við slíka staði að þeir draga mann stöðugt til sín bæði í huga og í verki. Að hluta til eru það "æsku" minningar sem eru það góðar og ljúfar að þær rifjast stöðuglega upp - hitt er fólkið sem við kynntumst, Svíarnir - nágrannarnir ("grannarna") sem við erum í sambandi við amk mánaðarlega á báðum stöðunum. Þetta minnir mig stöugt á málsháttinn: "Að eignast vin tekur andartak; að vera vinur tekur alla ævi"! Við gerum okkur í raun ekki grein fyrir hvað tíminn okkar líður hratt, 20 ár - 30 ár og það var eins og í gær. Fyrr en seinna þurfum við að láta staðar numið í hringiðu tilverunnar og hlúa að þeim gersemum sem við eigum í fjölskyldunni, vinum og vandamönnum. Staðan er eðlilega misjöfn, en byrjunin er aldrei of sein. Það fyrsta og helsta sem laðar einstaklinga til eða að hverju öðru og gerir vinskapinn eftirsóknarverðan er kærleikur til hvors annars eða "kærleikur til náungans" (eða nágrannans)! Það fór hrollur - unaðshrollur um mig þegar ég stóð þarna á höfninni með "grannanum" okkar sem var ennþá hjartans vinur okkar eftir allan þennan (svo stuttan?) tíma.

Kæru skólasystkin - vaknið, vaknið, hvar hafið þið verið? Tökum stöðu okkar og skipuleggjum okkur, því hver mínúta er öllum dýrmæt. Sumar (frí) ið er á enda og haustið að hefja innreið sína; skipuleggjum okkur og höfum fjölskyldu, vini og vandamenn í fyrirrúmi áætlunar um kærleika til þeirra sem í kringum okkur eru hverju sinni  ...........
Orðum mínum til staðfestingar vil ég vitna í ljóð Snorra Hjartarsonar, "Vaknaðu"!

Vaknaðu sungu vængir dagsins inn
í vökudraum minn, sjáðu! heiminn þinn
sem liðin veröld lét í hendur þér
og líf þitt, sál þín skóp, er brot af mér,
því ég er er allt; í andartaki því
sem er að líða fæðist þú á ný
í nýjum heimi, gríptu mína gjöf
með glöðum huga. ég á stutta töf;
já vaktu! því að allt er aðeins nú
og allt er hér, í mér; og ég er þú!   
Flettingar í dag: 298
Gestir í dag: 109
Flettingar í gær: 362
Gestir í gær: 67
Samtals flettingar: 203756
Samtals gestir: 37356
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 11:35:56
clockhere