08.03.2014 10:05

"Sál þín er sól ............."

Kæru skólasystkin!

Í kjölfar mikils húllum hæ og sigra í nafni 1954 á Sólarkaffinu, hefur hver lægðin á fætur annarri dunið á Eyjunni okkar með annað hvort grenjandi rigningu eða snjókomu. Já - hver þekkir ekki til þess að stórsigur sé ekki samningur upp á eilífa sælu .... Ef ræða Bjarndísar er grannt lesin og orð hennar hugleidd, þá kemur í ljós að inn á milli hlátraskalla eru raunir sem tekið var á og (vanda)málin löguð eða leyst eða samið um og sæst ....... og gleðin tók við (tók völdin) á ný?
    Gleðin tók völdin á ný - gerði hún það virkilega eða var þetta ákvörðun að taka gleðinni á ný, þar sem ekkert annað var í boði. Hver er svo sem að bjóða upp á marga valkosti við erfiðar kringumstæður aðrir en við sjálf. Það er örugglega stundum auðveldara "að dvelja í fortíðinni", en það leysir aldrei orðinn hlut, gefur okkur aðeins möguleika á að hugleiða hann á jákvæðan eða neikvæðan hátt. Í raun var Bjarndís að segja okkur: "stormar hafa stælt mig", en ég tók þá ákvörðun að "sál mín væri sól" ......

Kær frændi minn datt af stillans um daginn og hlaut alvarlega áverka á hálshrygginn. Eftir aðgerð og í endurhæfingunni var hann svo endalaust glaður og jákvæður að umhverfið hans breyttist úr drungalegum vinnustað í Gleðispítala. Þegar ég hafði gengið úr skugga um að þetta væri ekki vegna lyfja, þá spurði ég hann hreint út hvernig á þessu stæði. "Jú, sérðu frændi, ég fer aldrei að sofa nema fyrirgefa öllum sem mér finnst að ekki hafi gert rétt og hreinsað hugann af öllu sem er að angra mig - þá sef ég án svefnpillu og er fullur af orku til að takast á við nýjan dag og verkefni".
"Vá" - sagði ég, "en ferðu þá ekki með neinar bænir"?. "Jú, jú - það geri ég líka"!
     Að svo mæltu, spratt hann út úr rúminu, fram á gang og inn í setustofu. Þar tók hann í hendina á manni í hjólastól og brosti til hans, kom svo tilbaka og settist á rúmstokkinn. Ég vissi ekki hvað var í gangi annað en að hann væri að æfa stuttar gönguferðir og svo hvíla sig. "Sérðu frændi, þessi maður getur ekki hreyft sig sjáflur eða tjáð sig, en eftir að ég fór að taka í hendina á honum og brosa til hans, þá er hann farinn að brosa þegar ég kem - það gleður mig mikið". Þrátt fyrir að frændi ætti nóg með sjálfan, þá var "sál hans orðin sól" inn þær kringustæður sem óhappið hafði valdið honum og leitt hann til!

Já, kæru skólasystkin framundan eru páskar og margir eflaust farnir að hugleiða hvað gera skuli um þá hátíð. Með framansögðu vil ég blása okkur sól í brjóst og ítreka að hugur okkar og afstaða hverju sinni ræðst að miklu leyti af þeirri ákvörðun hvernig við ætlum að taka deginum og tímanum framundan. Látum því umhverfi okkar endalaust sjá og finna til tryggðar og uppörvunar í návist okkar sem tilheyrum árgangi 1954. Orðum mínum til staðfestingar vitna ég að þessu sinni í ljóð Guðmundar Guðmundssonar, "Sál þín er sól".  

Sál þín er sól. - Ef hrösun bróðir hendir,
lát hennar yl og blíðu til hans ná.
Hún geislastrauma´ í allar átti sendir,
ef átt þú kærleiksvilja´ og himinþrá.

Sál þín er sól. - Sá góði guðdómsmáttur,
er geislum hennar stýrir, býr í þér.
Í samúð vakinn hver þinn hjartasláttur
til hjálpar öðrum styrk og gleði ber.

Sál þín er sól - Þú átt að láta ljóma
þitt ljós í samhug fyllsta´ á vegum hans,
sem berst við skilningsskort og hleypidóma,
er skyggja´ á sannleiksfána meistarans.

Sál þín er sól. - En hvort hún skín í heiði
Guðs himinljóma, valdi þínu´ er á.
Lát mildi´ og ástúð rýma´ úr hug þér reiði
og raupi´ og hatri, - fegurst skín hún þá. 
Flettingar í dag: 349
Gestir í dag: 128
Flettingar í gær: 362
Gestir í gær: 67
Samtals flettingar: 203807
Samtals gestir: 37375
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 12:18:22
clockhere