01.02.2015 14:31

"Að morgni ............."

Kæru skólasystkin!

Ég byrjaði fyrsta pistil minn þessa árs með spurningunni: "Hvað boðar nýárs blessuð sól" og kom þá við bæði í erlendum sem hérlendum fréttum um vonsku mannsins sem virðist ekki taka neinn enda. Við erum daglega upplýst um "afrek" einna eða fleiri aðila sem eru að aflífa einstaklinga og hópa fólks með grimmilegum hætti án þess að við fáum rönd við reist. Börn okkar voru látin læra nöfn þeirra "merku" manna sem hófu og stóðu að heimsstyrjöldunum. Ég ætla rétt að vona að barnabörnin okkar verði ekki upplýst og látin læra um þann sora sem er í gangi í dag - ekki ef við látum okkur það skipta. Þá kemur náttúrulega upp sú spurning: "af hverju á ég að vera að skipta mér af þessu"? Hér finnst mér nýja auglýsingaslagorðið "ekki gera ekki neitt" passa vel inn í. Þó svo að við í smæð okkar náum ekki framgangi í heimsbyggðinni, þá getum við alltaf og eigum að taka afstöðu heima hjá okkur, inn á vinnustað okkar og í nánasta umhverfi.

Ég höfðaði líka til sólarinnar í upphafi því við þekkjum hana af birtu og yl sem hún veitir; ekki aðeins í verki, heldur einnig þegar við hugsum til hennar. Þess vegna er hún notuð sem árlegt slagorð þegar við komum saman til að kætast og rifja upp gömul kynni og minningar frá fyrri tíð. Þegar betur er að gáð, þá er hún sem slík hvergi á dagskrá samkomunnar, heldur eigum við að minnast hennar með lotningu þegar við stingum upp í okkur rjómapönnukökunni. Ég held að enginn okkar hafi hugleitt hvað ást okkar til sólarinnar á Ísafirði er í raun sterk, því ekki eru allir eru sammála um að ísköld rjómapönnukaka með ískaldri sultu geti framkallað hlýju. Ég held að galdurinn með pönnukökunnni liggi í því að framkalla í okkur kuldahroll sem næst ekki úr fyrr en eftir við erum búin að knúsa hvert annað margsinnis og þá má segja að markmiðinu sé náð.

Allavega markar sólin tímamót með birtu og yl bæði inn í huga okkar og hjörtu sérstaklega þegar veðrið er búið að vera þannig að við "erum að gefast upp" á því. Þetta er í raun stórmerkilegt hvað sumir hlutir gera snúist "á móti okkur"; fréttirnar inni og veðrið úti. En fyrir þá sem ekki hafa áttað sig á því, þá er hægt að slökkva á hvoru tveggja og hreinlega "kósa sig" í hlutum eða umhverfi sem framkallar betri líðan. Við setjum fjölskylduna í fyrsta sæti og síðan ýmis efni sem dreifa huganum frá ytri kringumstæðum. Allavega þarf að ljúka Þorrablótunum áður en kemur að því að ná líkamanum í rétt eða betra ástand fyrir páska og vorverk. Í stað þess að hlaupa í ræktina í gamla daga, þá náðum við okkur á strik með reglulegri skíðaiðkun. Í dag er einhvern veginn aldrei nógu gott veður eða aðstæður til að stunda slíkt ekki til staðar, heldur þarf undirbúningurinn að gerast með ákveðnum hætti og á réttum tíma í ræktinni. Ef árangurinn verður ekki sem skildi, þá hefur próteinblandan verið röng, þannig að þegar veðrið kemur til móts við okkur, þá snýst hugurinn á móti svo ekkert verður af skíðaferðinni.

Er þetta aldurinn eða er þetta hugurinn sem getur leikið okkur svona grátt. Þetta er örugglega sitt lítið af hverju. "Við að vestan" höfum nú ekki verið þekkt fyrir að "sitja á rassinum". Við höfum orðið að hreyfa okkur til að lifa af. En öllu má ofgera eins og við eigum vanda til bæði í svokölluðu ofáti og ofhreyfingu. Ég man þann tíma þegar enginn mátti missa af graut eftir aðalmatinn sem og morgunkaffi, síðdegiskaffi og kvöldkaffi. Ég spyr mig ennþá hvernig þetta var hægt, bæði tímanlega séð og orkulega. Kannski hefur vinnan okkar breyst frá því að við brenndum öllu sem uppí okkur fór til þess að það hleðst bara utan á okkur í dag. Þetta hlítur að vera líkamleg "umbreyting" og ekki bara breytt vinnubrögð. Til að bregðast við aukakílóunum flúðum við af fjöllum eins og rollur í rétt og fórum að leggja stund á tæknivædda líkamsrækt. Niðurstaðan er nú að skila sé hægt og bítandi með ótímabærri slitgigt.

Kæru skólasystkin! Er nú ekki komið að stund endurskoðunar á lífsins gangi og nauðsynjum. Eitt er víst - það verður ekki aftur snúið! Hvernig ætlum við þá frá og með núna að forgangsraða tímanum okkar og fara með líkamann okkar? Orðum mínum til stuðnings ætla ég að vitna í kvæði Jóns Helgasonar, "Að morgni"!

Við hliðið mitt ég heimabúinn stend,
á himni ljómar dagsins gullna rönd;
sú gjöf mér væri gleðilegust send
að góður vinnudagur færi í hönd.

Ég aftanskinið óttasleginn lít
ef ekki dagsins próf ég staðizt get,
að mjakazt hafi ennþá út um fet
þess akurlendis jaðar sem ég brýt.

Með straumsins hraða nálgast æ sinn ós
hið eina líf sem mér er tryggt og víst,
ég aldrei veit er áfram hnöttur snýst
hvort oftar skal ég sjá hið glaða ljós.

Og þegar liggja laus við festarklett
þau landtog sem mér héldu fyrr við strönd,
en sortinn hinzti sígur yfir lönd,
þá sveimar hugur um minn gamla blett.

Þá sé ég hann er hryggilega smár,
því hörku brast mig oft að starfa nóg.
Of seint! Of seint! Um heimsins eilíf ár
ég aldrei framar legg þar hönd á plóg.

Flettingar í dag: 234
Gestir í dag: 68
Flettingar í gær: 87
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 215038
Samtals gestir: 38906
Tölur uppfærðar: 24.12.2024 18:33:22
clockhere