30.08.2015 17:59

"Hver dagur á nýjan söng ......"

Kæru skólasystkin!

Af bæði dagatalinu og veðrinu að dæma er sumarið senn á enda og haustið stutt undan. Hvorutveggja eru orðin úrelt fyrirbrigði til viðmiðunar því allt kemur þetta fram á facebookinni okkar með margvíslegum hætti. Hjá mér hrönnuðust inn myndir af barnabörnunum að verzla í skólabúðinni og síðan á tröppunum heima hjá sér - ofurstolt með skólatöskuna á bakinu (kannski mynd af Andrési önd ??). 

Já - við ætluðum nú líka að láta til okkar taka með þessum samskiptamiðli og halda úti fréttaveitu um okkur (í sumar). Af því er helzt að segja og sjá að júní, júlí og ágúst börnin áttu öll afmæli næstum því á réttum tíma, þe. á fæðingardegi sínum - nokkrir þó aðeins seinna. Þá hafa mjög skemmtilegar myndir komið upp úr vindla- og konfektkössum og fengið að líta dagsins ljós - meiriháttar gaman og eftirminnilegt.

Ég get vel skilið að allir vilja fara í sitt sumarfrí - það gerði ég líka og hélt aftur af pistlaskrifum í júlí og ágúst. Nú held ég að við séum flest komin aftur heim og byrjuð að undirbúa haustið og veturinn fyrir það sem gera þarf. Ég hlakka mikið til að sjá hvernig við hægt og bítandi náum betur og meira saman með því að kasta inn kveðjum og myndum í vetur. Ég þarf áframhaldandi hjálp allra til þess að benda á þá sem ekki eru að fylgjast með eða hvernig hægt er að ná til þeirra sem hafa ekki svarað með tölvupósti, á síðunni okkar eða með þessum nýjasta samskiptahætti.

Þó svo að afmælisdagurinn okkar sé af mörgum tekinn sem sjálfsagt fyrirbæri og sumum finnist hann mega alveg líða hjá án athygli, þá held ég að það væri mjög skritið ef enginn segði: "til hamingju með daginn"! Þess vegna finnst mér það orðið miður þegar ég næ ekki vegna fjarskiptaleysis að óska okkur til hamingu og verð því rosalega glaður þegar einhver annar gerir það í minn stað; fleiri en ein kveðja hefur heldur ekki skaðað neinn hingað til. Ég sé líka að "like" takkinn kemur sér vel fyrir þá sem kíkja inn og vilja vera "memm"!

Ég mun líka seint þreytast á því að hæla myndavélum Snerpu, en eftir síðast pistil minn um þær, þá fjölgaði þeim margfalt, þannig að nú er hægt að horfa á bæinn okkar nánast frá öllum sjónarhornum. Ég vil samtímis hvetja okkur til að "lika" á Senrpu síðuna til að staðfesta þakklæti okkar til þeirra. Þá vil ég einnig þakka fyrir ábendingar um atburði sem snerta okkur beint eða óbeint - þær eiga gjarnan að komast inn á síðuna okkar til að halda okkur öllum vakandi um lífið og tilveruna í bænum okkar.

Kæru skólasystkin. Af framansögðu tel ég að stofnun og innlegg okkar í facebook hafi sannað sig á reynslutímanum og sé komin til að vera áfram. Ég vil ítreka þakklæti mitt til þeirra sem ýta á "like" takkann og einnig þá sem setja texta í "comments" eða athugasemdir, Mér finnst það samband sem ríkir í hópnum okkar vera gífurlega dýrmætt og það verður veðrmætara með hverju innleggi. Orðum mínum til stuðnings þessum fyrsta haustpistli er í kvæðinu "Hver dagur á nýjan söng" eftir Þóru Jónsdóttir.

Hver dagur á nýjan söng
um ljós og skugga dægranna,
ris öldunnar
flug skýjanna,
slóðir mannanna um óljósan veg.

Ég hlusta gegnum veðrin
á stefin,
stilli minn róm
að strengleik hvers dags.

Megi rödd mín hljóma
í lofsöngnum.
Flettingar í dag: 268
Gestir í dag: 79
Flettingar í gær: 87
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 215072
Samtals gestir: 38917
Tölur uppfærðar: 24.12.2024 18:54:44
clockhere