31.01.2016 17:42

"Vonlaust getur það verið .......?"

Kæru skólasystkin!

 
Það var á síðstliðnu ári sem ég var farinn að hlakka til næsta hittings á Sólarkaffinu 2016. Í millitíðinni komu jól og áramót og allir eðlilega uppteknir við þau tímamót. Þá kom auglýsingin með dags- og staðsetningu. Þvílík þögn sem varð í kjölfarið. Þögnin var rofin af Jómba og Maju Kristjáns með orðafrösum sem eiga ekki við fyrr en á elliheimilinu. Í kjölfarið var send út neyðartilkynning með formlegu boði á FB; a.m.k. 2 réttu upp hendi. 
 
Við (ég og María G) komum of seint. Þegar við komum í dyrnar á Gullteig var salurinn eiginlega fullur af fólki, en það var algjör þögn. Við vissum ekki hvort við höfðum farið villur vegar eða hvort allir héldu niðri í sér andanum af spenningi yfir að við birtumst. Við hvesstum augun yfir borðin - hjálp - hvert erum við komin; hverjir eru þetta. Voupps - lengst í fjarska sá ég Konna, svo Maju Kristjáns ......; þetta var allavega réttur staður en rangar dyr - við flýttum okkur gegnum hinar og inn til þekktra andlita. Auk fyrrnefndra voru þar einnig Maja Friðriks og makar ásamt Helgu Bjössa Gísellu. Þá var staðfest að Gummi Stebbi og frú og Ómar Leifs væru einnig mættir, en þeir væru einhvers staðar út í sal.
 
Við misstum af pönnsunum og kaffinu, en náðum samt að stimpla okkur inn í hópinn sem sat við tvö borð, þegar klappað var fyrir ræðumanni kvöldsins, henni Möggu Geirs. Magga fór á kostum - þó hún væri hvorki efri- eða neðri-, heldur miðbæjarpúki. Það voru hreint ótrúlegar sögurnar sem hún dró fram um líf sitt og leik í landi framliðinna og hvernig hún ekki síður en aðrir lenti í smá pústrum við eldri íbúa í nágrenninu. Þá virtist leikvöllur hennar einnig hafa verið mikið upp á bæði þökum og niður í kjöllurum og síðast en ekki sízt út á jökum sem sóttu að henni frá bæði austri og vestri. Þó svo hún hafi sloppið við eða misst af einelti og hverfisbardögum, þá lagði hún það fyrir sig að vera stjórnsöm á daginn og syngja sig inn í hjörtu okkar á kvöldin og um helgar með BG.
 
Að Möggu lokinni stigu á svið tveir fimleikastrákar og sýndu ótrúlega leik- og lofthæfleika eins og þegar við vorum upp á okkar bezta í skólaleikfiminni. Í kjölfar þeirra steig á svið hljómsveitin Húsið á sléttunni og þar eignuðum við okkur bæði Halldór Smárason Agnesarfrænda og Sunnu Karen Einarsdóttir. Dansgólfið var hins vegar ekkert eða bleðill á stærð við jólafrímerki, þannig að aðeins þeir allra hörðustu (sjómennirnir) höfðust þar við.
 
Þegar upp var staðið fór ég ósjálfrátt að raula - ekki af því að mér væri allt, heldur af söknuði: "Hvar er húfan mín, hvar er hetta mín, hvar er 1954 árgangurinn"?? Ég horfði í kringum mig og sá ekki betur það væru fleiri raulandi en ég. Það sagði þó enginn neitt, en það var meira horft til borðsins á bak við okkur sem var algjörlega tómt og þar voru 10 laus sæti. Það var ekki fyrr en út í bíl á leiðinni heim að María þorði að spyrja mig: "Halldór, hverjir voru þarna fyrir utan ykkur "? Ég þurfti aðeins að hugsa mig um - "þetta voru held ég ísfirskir unglingar"! Það rann skyndilega upp fyrir mér að það vantaði ekki aðeins 1954 systkinin heldur það voru orðin kynslóðaskipti!
 
Kannski var afmælishátíðin í fyrra lokapunktur þessarar hátíðar fyrir einhver okkar eða marga. Það má segja að það geti margt verið skemmtilegra en að bíða í klukkutíma eftir kaldri rjómapönnuköku sem á að minna okkur á að þá eiga fyrstu sólargeislar ársins að brjótast yfir Engidalsfjallið og lýsa inn í Sólgötuna hennar Möggu. Það er ekkert ólíklegt að með tímanum (aldrinum) þurfi að breyta um bæði samskiptaform og samveruform, þannig að nú sé komið að því að við hittumst með öðrum hætti og kannski á öðrum og auðveldari tíma. Mér finnst við ættum að taka þá umræðu alvarlega og taka hana til athugunar, til þess að við náum að viðhalda þeim sterku böndum sem ríkja innan árgangsins okkar.
 
Já, kæru skólasystkin. Til þess að halda okkur við efnið að öðru leiti, þá varpaði ég fram þeirri áskorun að ég myndi reyna að finna út við hvern afmælisdag ykkar, hvaða tilfinningu þið hefðuð fyrir uppruna ykkar út frá því hvaðan foreldrar eru fæddir og uppaldir. Eins og þið hafið séð á FB, þá hefur þetta gengið stórlsysalaust fram til þessa - erfiðast er að finna uppruna þeirra sem eru aðfluttir. Orðum mínum til stuðnings ætla að nota kvæði Guðmundar Inga Kristjánssonar: Vonlaust getur það verið!
 
Þú átt að vernda og verja,
þótt virðist það ekki fært,
allt sem er hug þínum heilagt
og hjarta þínu kært.
 
Vonlaust getur það verið
þótt vörn þín sé djörf og traust.
En afrek í ósigrum lífsins
er aldrei tilgangslaust.
Flettingar í dag: 194
Gestir í dag: 74
Flettingar í gær: 362
Gestir í gær: 67
Samtals flettingar: 203652
Samtals gestir: 37321
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 09:51:04
clockhere