06.03.2016 10:22

"Eins og þú sáir ...... "

Kæru skólasystkin!

Takk fyrir að taka ekki undir volæðistextann sem birtist hér síðast. Ástæðan er líklegust sú að mér var brugðið við að uppgötva kynslóðaskiptin á Sólarkaffinu. En tíminn tifaði áfram og er búinn að lækna svona smáskeinur. Ég hef samt verið smá hugsi yfir þessum formlegu samankomum sem við höfum kallað "hitting", hvort þær eins og annað sé að breytast með þeirri samskiptatækni sem okkur býðst í dag og var hreinlega ekki til hér áður fyrr.

Þið munið kannski (ekki) þegar við byrjuðum með heimasíðuna, hvað þetta þótti djarft að fara að tjá sig fyrir veröldinni í texta og myndum. Ég er viss um að bara sá verknaður náði að safna okkur saman undir einn hatt, þó svo okkur sé misjafnlega ljúft að setja þar orð og texta á blað. Með tilkomu fésbókarinnar urðu hreinlega kaflaskil ekki bara hjá okkur heldur um heim allan og það leið ekki á löngu þar til Twitter og Instagram skelltu sér með í lífsins leik. Í dag eru þetta orðin aðal samskiptaformin í heiminum, því hægt er að miðla upplýsingum, stundarupplifun og gjörning líðandi stundar án þess að stoppa og staldra við og gera þannig samtöl og samkomur að tímaspilli. Já, kannski ættum við að hætta að stressa okkur á þessum "úrelta"? hittingi og sjá hvort annað meira eins og nútíminn gerir með rafrænum hætti ........!

En hvað sem þessu líður, er ekkert sem breytir því að páskarnir nálgast óðfluga. Ég ætla rétt að vona að við förum ekki að senda hvort öðru rafræn páskaegg, heldur nota þann lausa tíma frekar til að minnast þess hvað var gaman þegar sólin reis hærra og hærra í bænum, snjórinn fór að bráðna af húsþökum með tilheyrandi grýlukertum og vatnsleka og lífið fór hreinlega að glaðna í bænum okkar. Það er þó ekki laust við að tilhlökkunin eftir páskunum sé skemmd með nammibanni og sykurskertu fæði sem gerir páskaeggin ósnertanleg úr hyllum og af brettunum í Bónus. Engu að síður er þetta sa tími þegar myrkrið og kuldinn víkur fyrir birtu og yl og gefur til kynna að nú sé vorið á næsta leiti; allavega hefur Lilja staðfest það tímatal með trönudansinum í Svíþjóð.

Svona til að lenda þessari rafrænu hittings pælingu, væri ekki úr vegi að við létum hvert annað vita af ferðum okkar hér og þar, þeas að þegar Sunnlendingar hyggja á ferð vestur og Ísfirðingar á ferð suður, að láta þess getið á heimasíðunni okkar á FB, þar sem hún er lokuð. Ég geri ráð fyrir að einhver okkar fari vestur á "Aldrei fór ég suður" - þá væri kjörið að láta á þetta reyna og kætast saman af minna tilefni.

Kæru skólasystkin. Nú hef ég tuðast nægilega yfir kynslóðaskiptum og breyttu samskiptaformi nútímans. Það má segja að tíminn tifar áfram óháð okkar áliti og þannig breytist líka tilveran. Okkar er valið að fylgja(st) með þeim breytingum sem viðhalda lífi okkar "lifandi" eins og segir í máltækinu: "Sveltur sitjandi kráka en fljúgandi fær". Þannig ætla ég að hvetja hvert og eitt okkar áfram til að vita og vitja hvers annars með öllum þeim ráðum og dáðum sem gefast hverju sinni. Orðum mínum til stuðnings vitna ég í dag íkvæði Þorgeirs Sveinbjarnarsonar: Eins og þú sáir. 

Jörð þín liggur
í landi tímans.

Í sama reitnum lifir
ljós og myrkur.
Í sömu moldu sprettur
sumar og vetur.

Sáir þú ljósi?

Syngur jörð þín
birtuskær vorljóð
eða haustsöngva
skuggahljótt?

Hjarta,
þú sáir rökkri,

uppsker nótt.
Flettingar í dag: 268
Gestir í dag: 79
Flettingar í gær: 87
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 215072
Samtals gestir: 38917
Tölur uppfærðar: 24.12.2024 18:54:44
clockhere