17.04.2016 08:24
"Bjössi litli á Bergi ............"
Kæru skólasystkin!
Vorum við ekki vön að hvíla skíðin að loknum páskum? Allavega fækkaði ferðurðunum upp á Dal og upp í Stórurð nema veðrið væri "æðislegt", því nú tók alvaran við. Þannig að þetta "dýrlega" við sumarið byrjaði aldrei neitt auðveldlega. Ég man séstaklega eftir hvað það var leiðinlegt að vera "innilokaður" í próflestri og æfingum fyrir tónleika, en mesta kvíðaefnið var samt að þurfa stinga upp alla kartöflugarðana og síðan setja niður - þá var meiri verkur í bakinu en í verstu tann- og eyrnarpínu.
En svo var þetta nú allt yfirstaðið og blessað sumarið kom eins og fjallkonan hafði lofað okkur í fjallræðu sinni á spítalatúninu. Hvað við vorum auðtrúa, standandi þar, rennblaut og skjálfandi í snjókomu, í skátabúningi, stuttbuxum og pilsi, með trommur og rifið skinn sem þoldi ekki barninginn í bleytunni. Af hverju datt mér nú þetta endilega í hug? Jú, við Lilja vorum í vikunni að kasta á milli okkar dásemdarorðum yfir veðurmyndavélunum á Ísafirði. Þannig var ég kominn í huganum vestur og farinn að hugsa til komandi fimmtudags sem er sumardagurinn fyrsti. Í þessum hugleiðingum fór ég mjög léttklæddur út á tröppur í morgun og átti ekki alveg von á haggléli sem dundi yfir og hefði farið illa ef ég hefði verið með "kaffi og sígó"!
En páska- og vorvenjur hafa nú breyst hjá okkur sem öðrum. Bæði hafa áhugamál og áherslur á hvað gera þarf og hvað má bíða betri tíma bæði okkar og barna (nna) breyst frá því sem áður var - sem betur fer; eða eins og Bjarndís segir: "ég nýt samverunnar við fólk meira en tækninnar"! Það var því meiri háttar gaman að kallað var til "samveru" í Húsinu um daginn. Ég held að einmitt svona skyndiákvarðanir frekar en langtframítímann ákvarðanir sé einmitt það sem við þurfum að vera vakandi fyrir til að betur halda í "skottið" á hvert öðru. Ég er ennþá sannfærður um að "maður sé manns gaman" og þó tæknin geri okkur kleyft að spjalla og skjalla með einföldum hætti, þá er það nándin og núningurinn við hvert annað sem gefur lífinu dýpra gildi.
Að lokum vil ég minna okkur á að næstkomandi tveir fimmtudagar eru ekki neitt venjulegir dagar, því sá fyrri er ekki bara sumardagurinn fyrsti, heldur einnig 21. apríl og sá seinni 28. apríl, en þetta eru fermingardagarnir okkar frá 1968. Ef ekki hefði verið fyrir atbeina Halldórs Ólafssonar og séra Sigurðar, þá væru ekki til þessar margfrægu hópmyndir sem m.a. prýða heimasíðuna okkar. Þarna erum við, meirháttar sæt og fín og hugsið ykkur - við erum ennþá að spjalla saman tæplega hálfri öld seinna! Nú ætla ég að staðhæfa að þetta heitir ást og væntumþykja og erfðist með 1954 genunum. Þess vegna þurfið þið ekkert að óttast þessa tilfinningu og halda að hún sé væmin eða hættuleg; þetta er hreinlega náttúrulegur hluti af okkur. Þetta er gersemi sem við eigum sýnilega og heyranlega að vera stolt yfir og fjársjóður sem við getum ekki nógsamlega þakkað fyrir að eiga. og verður aldrei frá okkur tekinn.
Kæru skólasystkin! Enn og aftur varð mér tíðrætt um heimahagana, lífið þar áður fyrr og nú og þau órjúfanlegu bönd sem tengja okkur saman. Það væri einkennilegt og óeðlilegt ef umherfið og við breyttumst ekki á hálfri öld, en munum að blóðtengingin er sönn og öllu öðru yfirsterkari. Orðum mínum til stuðnings vitna ég í kvæði Jóns Magnússonar: "Bjössi litli á Bergi":
Bjössi litli á Bergi,
bróðurlaus á jörð,
hljóður fram til fjalla
fylgdi sinni hjörð.
- Stundum verða vorin
vonum manna hörð.
Bjössi litli á Bergi
bjó við stopul skjól.
Hálsinn hamrasvartur
huldi vetrarsól.
Inni jaft sem úti
einstæðinginn kól.
Ein með öllu gömlu
unga sálin hans
þoldi þunga vetur
þögn og myrkur lands.
Löng er er litlum þroska
leiðin upp til manns.
Kæmi hann til kirkju
klæðin bar hann rýr.
Hryggð í hvarmalogum
huldu þungar brýr.
Enginn veit, hvað undir
annars stakki býr.
Skrifað af HJjr
Flettingar í dag: 82
Gestir í dag: 25
Flettingar í gær: 362
Gestir í gær: 67
Samtals flettingar: 203540
Samtals gestir: 37272
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 09:29:49
clockhere