Færslur: 2008 Nóvember

29.11.2008 23:34

Heilræði dagsins .........

Temdu þér rósemi í dagsins önn og mundu friðinn, sem getur ríkt í þögninni. Reyndu að lynda við aðra, án þess að láta þinn hlut. Segðu sannleikan af hógværð en festu. Hlustaðu á aðra þótt þeir kunni að hafa lítið til brunns að bera, þeir hafa sína sögu að segja.

 

Forðast háværa og freka, þeir eru æ til ama. Vertu ekki að bera þig saman við aðra, þú verður engu bættari, sumir eru ofjarlar þínir, aðrir mega sín minna. Gakktu ótrauður að hverju verki, láttu ekki sitja við orðin tóm.

 

Legðu alúð við starf þitt, þótt þér finnist það léttvægt. Vinnan er kjölfestan í völtum heimi. Vertu varfærin í viðskiptum, því margir eru viðsjálir. Lokaðu samt ekki augunum fyrir dyggðinni þar sem hana er að finna. Margir stefna að háleitu marki og alls staðar er verið að drýgja dáð.

 

Vertu sannur. Reyndu ekki að sýnast. Ræktaðu ástina, því þrátt fyrir þyrrking og kulda er hún fjölær eins og grasið. Virtu ráð öldungsins, sem víkur fyrir æskunni. Stældu hugann svo hann verði þér vörn í hretviðrum lífsins. Auktu þér ekki áhyggjur af ástæðulausu. Margur óttinn stafar af þreytu og einmannakennd. Agaðu sjálfan þig, en ætlaðu þér af. Þú ert þessa heims barn, rétt eins og trén og stjörnurnar, og þú átt þinn rétt. Þú færð þín tækifæri þótt þú gerir þér það ekki alltaf ljóst.

 

Haltu frið við Guð - hvernig svo sem þú skynjar hann - hver sem iðja þín er og væntingar í erli lífsins. Vertu sáttur við sjálfan þig.

 

Lífið er þess virði að lifa því þrátt fyrir erfiðleika, fals og vonbrigði. Vertu varkár. Leitaðu hamingjunnar.

 

(Fannst í gömlu St.Pálskirkjunni í Baltimore Bandaríkjunum; ársett 1692)

24.11.2008 23:16

"Huggun"

Vertu alltaf hress í huga
hvað sem kann að mæta þér.
Lát ei sorg né böl þig buga,
baggi margra þungur er.

Vertu sanngjarn, vertu mildur,
vægðu þann sem mót þér braut.
Bið þinn Guð um hreinna hjarta,
hjálp í lífsins vanda og þraut.

Treystu því að þér á herðar,
þyngri byrði ei varpað er.
En þú hefur afl að bera,
orka blundar næg í þér.

Þerraðu kinnar þess er grætur,
þvoðu kaun hins særða manns.
Sendu inn í sérhvert hjarta,
sólargeisla kærleikans.
                    (höf. óþekktur) emoticon

18.11.2008 21:02

VIRÐING...........

......Virðing er þýðingarmikil í mannlegum samskiptum, hvort sem er milli einstaklinga, hópa eða þjóða, og er meðal máttarstólpa lýðræðis. Skipta má virðingu í innri og ytri virðingu. Innri virðing fæst þegar einstaklinguinn hefur lært að virða sjálfan sig. Hann hefur sjálfsvirðingu og er ekki sama um andlega og líkamlega líðan sína og hæfileika. Ytri virðing er að bera virðingu fyrir öðrum, að hafa lært að setja sig í spor annarra og finna til með þeim. Að rækta virðinguna er því forsenda góðs samfélags.Lögmál virðingarinnar er að sá sem ber virðingu fyrir öðrum öðlast virðingu annarra. Þekking og djúpur skilningur á þessu gildi er því í raun forsenda velgengni í lífi og starfi. Forsenda þess að ganga vel í lífinu er að læra að meta aðra til jafns við sjálfan sig og heiðra þá. Foreldrar sem virða ekki barn sitt geta ekki heldur vænst virðingar þess. Hið sama á við um annað fólk; börn læra aðeins að virða aðra ef þau eru sjálf virt. Gæfusamt barni á foreldra sem bera virðingu fyrir því, löngunum þess og hæfileikum.

...... Virðing er helsta dyggð mannréttinda. Hún er burðarvirki menningar þar sem lögð er áhersla á frið og stöðugleika en ef hennar nýtur ekki við þá hefst ofbeldið. Að heiðra og virða aðra er forsenda velgengni í sátt og samlyndi. Ástæðan fyrir því að börnunum var öndverðu kennt að bera virðingu fyrir öðrum var sú að reynslan sýndi að þá urðu þau farsæl. Maðurinn þráir öryggi en hann er sjaldan öruggur. Heillavænlegasta leiðin að öryggi er að læra að bera virðingu fyrir náunga sínum, öðrum kynþáttum, menningu. trúarbrögðum, dýrum og lífríkinu í heild, og vona að virðingin verði gangkvæm. Virðingin er skyld kærleikanum og samúðinni og er háð væntumþykju gagnvart lífinu. Hú er ekki aðeins milli manna heldur einnig gagnvart dýrum og náttúru. Dýr marka sér yfirráðasvæði og jafnvel einstakligar innan sömum tegunda virða það. Dýr eiga sé heimkynni og kjörlendi. Þau eru háð ákveðnum svæðum kynslóð eftir kynslóð. Maðurinn þarf að ganga til móts við náttúruna með sátt í huga. Hann þarf að læra að setja sig í spor annarra lífvera og temja sér að bera hag þeirra fyrir brjósti. Hann þarf að virða líf þeirra og heimaslóðir.
 
..... Virðing er að umgangast aðra með tillitssemi, þekkja rétt annarra og kunna að meta hann. Hún er án hroka og felst í því að bera sigurorð af græðginni og skeytingarleysinu, sem er andstæða virðingarinnar. Maðurinn hefur átt í erfiðleikum með að virða rétt minnimáttar; til dæmis dýra og fugla sem eiga jafnvel lengri sögu en hann sjálfur. Hann hefur ekki virt yfirráðarétt þeirrra á tilteknum stöðum og valdið með því útrýmingu teguna. Hins vegar hefur hann viðurkennt að réttur hans og náttúrunnar er ekki allur hans megin, þótt því sé ekki fylgt eftir. En hver er mælikvarðinn? Maðurinn krefst öryggis á öllum sviðum en öðrum dýrategundum og náttúrunni sjálfri virðist hætta búin vegna þess að virðing mannsins er óþarflega birgðul. Réttindi dýra eru oft ekki metin til fulls af hálfu mannins.

...... Virðing snýst um sanngjarnt mat á verðmætum og hagsmunum manna, dýra, gróðurs og annarrar náttúru. Hún felst meðal annars í því að sérhagsmunir tiltekinna dýrategunda í heimkynnum sínum geti í vissum tilfellum vegið jafnþungt og stundum þyngra en sérhagsmunir mannanna sjálfra. Virðing er því grundvallargildi í öllum mannlegum samskiptum og umgengni mannsins við jarðlífið allt, Sá sem ekki nýtur virðingar verður sennilega óhamingjusamur og ekki er víst að honum farnist vel. Jafnvel tilhugsunin um að njóta ekki virðingar annarra veldur flestum kvíða. Virðing er því höfuðatriði í mannlegum samskiptum. (tilv í Gæfuspor eftir Gunnar Hersvein)

              Virðing felst í því að hafa jafnmikinn áhug á velferð annarra og sinni eigin.
                                                                            

15.11.2008 22:41

VINÁTTA..........

......Vinátta er oftast lengi að verða til. Hún er ekki hrifning því fólk getur hrifist hvert af öðru án þess að mynda persónulegt samband. Vinátta felst í því að gera eitthvað saman, vinna, skemmta sér og leysa vandamál. Það vekur vonir um framtíðina að gera eitthvað ánægjulegt saman og skapa góðar minningar. Vinátta er því lifandi samband sem þróast og styrkist með árunum og segja má að góðir vinir bæti hver annan!

...... Vinátta gefur djúpa reynslu af vinum og sjálfum okkur. Vinur er spegill sem sýnir ekki útlit heldur innri mann, hver við erum í raun. Enginn getur þekkt sjálfan sig nema í gegnum náin kynni við aðra manneskju. Við deilum tilfinningum okkar og hugsunum með vinum og treystum þeim fyrir innstu hugðarefnum okkar. Vinur er ekki aðeins félagi heldur kær félagi. Orðið vinur er tengt latneska orðinu Venus sem merkir kærleikur og er heiti yfir gyðju ástar. Ást og traust eru því sterkustu þræðir vináttunnar.

..... Við getum átt nokkrar gerðir af vinum, ef svo má segja, til dæmis ánægjuvini: þá er ánægjan sterkasti þráðurinn í sambandinu. Við skemmtum okkur með þeim og hlæjum mikið. Unglingarnir eiga marga ánægjuvini og beinist athygli þeirra þá meira að hlutum sem veita ánægju heldur en sambandinu sjálfu. Sumir eru nytjavinir: við eigum sameiginlegra hagsmuna að gæta með þeim. Þeir hjálpa okkur og við þeim. Aðrir eru andlegir vinir: Manngerðin, skapgerðin og persónan sjálf vega þá þyngst. Vinir í þessum flokki yfirgefa okkur síðastir þegar á móti blæs. Andlegur vinur hefur lært að treysta okkur, virðir góðu eiginleikana í fari okkar og fyrirgefur annað. Hann hefur gengið í gegnum súrt og sætt með okkur. Hann þekkir okkur og við erum hluti af hans eigin sjálfsmynd. Hann er tryggur þegar við lendum í hremmingum sem verða til þess að margir hætta að umgangast okkur. Andlegur vinur er því vinur í raun. {Þetta síðasta ætti að vera aðalsmerki íso 1954 - tiilaga HJjr}.
 
...... Öllum er nauðsynlegt að eiga vini og enginn vill lifa vinalaus. Markmiðið getur því aldrei verið að eiga sem flesta vini. Einn vinur getur verið nóg því sá sem á einn andlegan vin hefur mikið að þakka. Hann ætti að gefa vini sínum margt af hinu góða  sem hann býr yfir en minna af göllum sínum. Ein á báti getum við ekki öðlast næga andlega fullnægingu, lífiið fullgerist aðeins í samskiptum okkar við aðra. Lífið hlýtur að vera meira virði ef við erum svo lánsöm að gera notið stundanna með öðrum.

......Vinir eru ekki á hverju strái. "Vandfenginn er vinur trúr",  er málsháttur sem minnir á að allir menn eru breyskir. Það er aftur á móti heimska að vanrækja vin. Ástfangin pör sem hefja náin kynni falla þó oft í þá gryfju að sinna ekki gömlum vinum og til eru þeir sem hafa staðið uppi vinalausir þegar ástarsamband þeirra slitnar. Vinasamband á ekki að rjúfa nema í undanteknigartilfellum: Það getur átt við ef vinurinn tekur nýja stefnu í lífinu sem okkur er engin leiða að fylgja eða sætta okkur við, ef vinurinn bregst trausti eða misnotar sambandið eða ef vitsmuna- eða tilfinningaleg gjá myndast á milli vinar. (tilv. í gæfuspor Gunnars Hersveins). 
                    
                                TRAUST OG ÁST ERU MÁTTARSTÓLPAR VINÁTTUNNAR

  • 1
Flettingar í dag: 13
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 87
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 214817
Samtals gestir: 38843
Tölur uppfærðar: 24.12.2024 04:26:32
clockhere