Færslur: 2008 Desember

15.12.2008 22:09

Hvað heita kertin fjögur á aðventukransinum?

Fyrir rúmlega 40 árum orti norski rithöfundurinn Sigurd Muri (1927-1999) ljóð um aðventukertin fjögur sem kallast "Nå tenner vi det første lys" og er það sungið við sænskt lag frá 1898 eftir Emmu Christinu Köhler (1858-1925). Lilja Sólveig Kristjánsdóttir fyrrverandi kennari og safnvörður í Reykjavík þýddi ljóðið sem á íslensku ber heitið "Við kveikjum einu kerti á" og er það á góðri leið með að verða einn þekktasti aðventusálmur Íslendinga fyrr og síðar. Hann er á þessa leið:

Við kveikjum einu kerti á.
Hans koma nálgast fer
sem fyrstu jól í jötu lá
og Jesúbarnið er.

Við kveikjum tveimur kertum á
og komu bíðum hans,
því Drottinn sjálfur soninn þá
mun senda' í líking manns.

Við kveikjum þremur kertum á,
því konungs beðið er,
þótt Jesús sjálfur jötu og strá
á jólum kysi sér.

Við kveikjum fjórum kertum á.
Brátt kemur gesturinn,
og allar þjóðir þurfa að sjá,
að það er frelsarinn.


En um aðventukertin er líka til þýsk saga, er ber heitið "Fjögur kerti". Höfundur hennar er ókunnur en þýðinguna gerði Pétur Björgvin Þorsteinsson. Sagan er á þessa leið:

Það var búið að kveikja á öllum fjórum kertunum á aðventukransinum. Í kringum þau ríkti þögn. Ef einhver hefði verið nálægur þá hefði hann heyrt kertin tala saman:

Fyrsta kertið andvarpaði og sagði: "Ég er friðarkerti. Ljós mitt lýsir en fólkið býr ekki í friði hvert við annað. Fólkinu er alveg sama um mig!" Ljósið á fyrsta kertinu varð minna og minna þangað til það slokknaði alveg.

Annað kertið flökti og sagði: "Ég heiti trú. En ég er alveg óþarfi. Fólkinu er alveg sama um Guð, það vill ekkert af honum vita. Það hefur engan tilgang að það sé ljós á mér." Krafturinn í kertinu sem nefndi sig trú var þrotinn. Lítill trekkur dugði til. Ljósið slokknaði.

Með lágri, dapurri röddu tók þriðja kertið til máls: "Ég heiti kærleikur. En ég hef enga orku til þess að láta ljós mitt skína. Fólkið er búið að ýta mér til hliðar. Það sér bara sig sjálft og ekki náungann sem þarf á kærleikanum að halda." Að þessum orðum mæltum slokknaði á þriðja kertinu.

Lítið barn kom inn í herbergið þar sem aðventukransinn stóð á borðinu. Með tárin í augunum sagði það: "Mér finnst ekki gaman þegar það er slökkt á ykkur."

Þá svaraði fjórða kertið: "Ekki vera hrætt, kæra barn. Meðan ljós er á mér getum við kveikt á hinum kertunum. Ég heiti von." Það var gleðisvipur á andliti barnsins þegar það notaði ljósið af vonarkertinu til þess að kveikja á kærleikskertinu, trúarkertinu og friðarkertinu. Að því loknu sagði barnið eins og við sjálft sig: "Nú geta jólin komið í alvöru."

08.12.2008 22:17

"Logandi kerti", til minningar um Rabba, sem átti fæðingardag í dag

Logandi kerti, aðeins eitt kerti lifir af meiri tign en manneskja.
Logandi kerti gefur öllum af sér.
Það vinnur, svitnar og bræðir eigin líkama,
dropa eftir dropa, þó líf þess sé stutt.
Þó líkami þess muni að lokum hverfa, 
hefur kertið aldrei áhyggjur,

verður aldrei reitt,
kvartar aldrei.
Það heldur bara áfram að lýsa öðrum veginn.
Ó kerti, ég vil vera eins og þú.
Mér líkar hvernig þú lifir.
Mig langar til að vera kerti.

 

Ljóð þetta var samið af þrettán ára dreng með lífshættulegan sjúkdóm. Hann lést þegar hann var fjórtán ára og gat þá ekki lengur stjórnað höndum sínum né fótum. Þrátt fyrir þetta bað hann látlaust fyrir friði á jörð.

07.12.2008 22:46

Söngur Hlíðavegspúkanna ..... (lag: "Undir Bláhimni ...")

Í skjóli fjallanna fögru og bláu

ríkir friður og gleði i sál

i Naustahvilftinni hamrarnir háu

hvísla i golunni seiðandi mál.

Hérna eyddum við æskunni saman

alla daga var skemmtilegt þá

þá var lífið allt glaumur og gaman

með glampandi framtíðarþrá.

Þegar hittum við Hlíðarvegspúka

fara hjörtun strax örar að slá

þá brandara fimlega fjúka

og fortíðin verður svo blá

Oft hlutum við skrámur og skeinur

og skjálfandi hlupum þá heim

þar fengum við kakó og kleinur

og kokhraust sporðrenndum þeim.

Þó að árin þau yfir nú færist

ennþá myndin i hjartanu býr

upp i Stórurð enn blómhnappur bærist

þegar blærinn hann kyssir svo hlýr.

Gleiðarhjallinn af töfrum nú titrar

og tíbráin leggst yfir sjó

í Pollinum kvöldgeislinn glitrar

hér er gleði og friður og ró.

GG.

06.12.2008 13:48

Hvað er Aðventan ....

Aðventa er annað heiti á jólaföstu. Hún hefst fjórða sunnudag fyrir jóladag og stendur því í fjórar vikur. Orðið aðventa hefur verið notað í málinu að minnsta kosti frá því á 14. öld og er tökuorð úr latínu adventus í merkingunni 'tilkoma'. Að baki liggur latneska sögnin advenio 'ég kem til' sem leidd er af latnesku sögninni venio 'ég kem' með forskeytinu ad-.

Framan af virðist orðið jólafasta hafa verið algengara í máli fólks ef marka má dæmi í fornmálsorðabókum og í seðlasafni Orðabókarinnar. Nafnið er dregið af því að í kaþólskum sið var fastað síðustu vikurnar fyrir jól og ekki etið kjöt. Í Grágás, hinni fornu lögbók Íslendinga, stendur til dæmis ,,Jólaföstu skal fasta hvern dag og tvær nætur í viku nema messudagur taki föstu af" (1992:30) og á öðrum stað segir: "Jólaföstu eigum vér að halda. Vér skulum taka til annan dag viku að varna við kjötvi, þann er drottinsdagar eru þrír á millum og jóladags hins fyrsta. Þá skal eigi eta kjöt á þeirri stundu nema drottinsdaga og messudaga lögtekna". (1992:31)

  • 1
Flettingar í dag: 13
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 87
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 214817
Samtals gestir: 38843
Tölur uppfærðar: 24.12.2024 04:26:32
clockhere