Færslur: 2009 Október

23.10.2009 22:54

Fegursti dagurinn .........

Ljóð dagsins 23. október er eftir Jóhann Hjálmarsson. Það passar vel inn í þennan mánuð þar sem nú eru öll október börnin fædd. Maður hugsar til þess hvernig foreldrum okkar hafi liðið eða fundist þessi dagur þegar við fæddumst. Þá voru tímarnir að vísu öðru vísi en nú eða hvað? Kannski ekki; allavega eru tuskubleyjur aftur komnar í tísku. Og ennþá er verið að rökræða um gagnsemi brjóstagjafar; þá var kannski frekar litið á hana sem búbót frekar eitthvað heilsubætandi eða spillandi fyrir börnin. Hins vegar eru barnavagnarnir alveg horfnir og í staðinn fá krakkagreyin að dúsa eða kúldrast í svaka tæknilegum bílstólum, en það hefur vízt með öryggið að gera. En sprauturnar lifa góðu lífi, en nú þora foreldrarnir að neita! Ekki hefði nokkur maður þorað slíku hér áður fyrr, öll fengum við rass og handlegg stútfull ef ógeðslega sáru dóti. Í dag er talið að sprautuefnið geti orsakað margvísleg vandamál í taugakerfinu sem kemur svo mismikið og missnemma fram á þroskaskeiðinu. Og allt þetta ofnæmi og eyrnabólgur ..........! Þessi vandamál voru bara ekki til á okkar tíma eða hét það bara eitthvað annað ?????

Dagurinn sem hann fædddist
var fegursti dagur ársins.
Heiður himinn og stigi frá sólinni
niður á göturnar.

Frost, en heitt brjóstið
og fljúgandi hugurinn
fundu það ekki
í rauðu skini dagsins.

Það var daginn sem hann fæddist,
sonurinn, fyrsta barnið.
Á þessari stundu voru tvær litla hendur
að þreifa sig áfram í birtunni fyrir utan.

Fegursti dagur ársins
engum öðrum líkur
gekk upp og niður stigann
milli sólarinnar og strætanna.

10.10.2009 18:36

Haustið og vináttan ...............

Haustið er skollið á með fullu afli. Það byrjaði eiginlega kvöldið sem við komum saman hjá Katý, smá rigning sem bara jókst og undir miðnætti var einnig orðið mjög hvasst. Nokkrum dögum seinna einnig snjókoma og ríkisstjórnin að reyna að halda velli .........
Ég tók fram bók herra Sigurbjörns Einarssonar, "Ljóð dagsins" og þar ber upp Bjarkir, Einars Benediktssonar, sem hann hefur líklega ort undir öðrum kringumstæðum en sem nú eru:

Þær hlífðu sér nokkrar við hamraskjól
og horfðu mót rísandi sól,
á stofninum aldna með unglimið nýtt
hjá alfara stiginum mjóa.
Þar vöfðust þær örmum og hlúðu sér hlýtt,
hin harðgerðu tré, gegnum blítt og strítt,
og Guð, hann lét bjarkirnar gróa.

Um langar styrjaldir hyrjar og höggs
bar höndin ráns hina blikandi öx,
og stofnar og kvistir af iðinni önn
í eldanna kesti hlóðust.
En herjandi logann og hjarnsoltna tönn,
með höfuðin beygð undir þyngjandi fönn,
samt blessaðar bjarkirnar stóðust.


Það var auðséð eftir hittinginn hjá Katý að öllum þótti kvöldstundin notaleg og ég er viss um að fleiri en ég erum að orna okkur aftur og aftur við að skoða myndirnar frá kvöldinu. Ég vil því minna okkur öll á orð úr bóka Gunnars Hersveins sem ég skrifaði hér áður og eru svohljóðandi:

......Vinátta er oftast lengi að verða til. Hún er ekki hrifning því fólk getur hrifist hvert af öðru án þess að mynda persónulegt samband. Vinátta felst í því að gera eitthvað saman, vinna, skemmta sér og leysa vandamál. Það vekur vonir um framtíðina að gera eitthvað ánægjulegt saman og skapa góðar minningar. Vinátta er því lifandi samband sem þróast og styrkist með árunum og segja má að góðir vinir bæti hver annan!

Ég vil því hvetja okkur til að vera áfram dugleg að láta í okkur heyra og sjást með orði og myndum og hvatningu til hvers annars :)))
  • 1
Flettingar í dag: 13
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 87
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 214817
Samtals gestir: 38843
Tölur uppfærðar: 24.12.2024 04:26:32
clockhere