Færslur: 2009 Desember

15.12.2009 23:03

Jólatréð .................

Jólatréð eins og við þekkjum það er ekki mjög gamalt í  heiminum.  Elstu heimildir um skreytt tré í heimahúsum á jólum er frá Suður Þýskalandi á 16. öld en ekki eru nema tvö hundruð ár síðan síðan farið var að festa kerti á þessi grenitré. Allra fyrstu jólatré munu hafa sést á Íslandi í kringum 1850, en þó helst hjá dönskum eða danskmenntuðum fjölskyldum. Algeng urðu þau ekki , fyrr en komið var fram yfir síðustu aldamót. Það er mjög skiljanlegt, af hverju siðurinn festi ekki fyrr rætur á Íslandi. Hér var víðast hvar engin grenitré að hafa, og flestar aðrar vörutegundir hefur þótt nauðsynlegra að flytja inn. Auk þess tók sigling  oft svo langan tíma, að örðugt hefði  reynst að halda þeim lifandi. Þetta gerðu þó sum félög til þess að halda jóltrésskemmtanir fyrir börn, og milli 1890 - 1900 má sjá auglýst bæði jólatré og jólatrésskraut. Fyrir meira en hundrað árum hafa menn sumsstaðar byrjað á því að búa til gervijólatré. Var þá tekinn mjór staur, sívalur eða strendur og festur á stöðugan fót. Á staurinn voru negldar  álmur eða boraðar holur í hann og álmunum stungið í. Þær voru lengstar neðst, en styttust upp eftir og stóðu á misvíxl. Þær voru hafðar flatar í endann, og á honum stóðu kertin. Venjulega var staurinn málaður grænn eða hvítur og vafið um hann sígrænu lyngi. Síðan voru mislitir pokar hengdir á álmurnar og eitthvert sælgæti sett í þá. Þessi heimatilbúnu jólatré voru mest notuð , þar til fyrir nokkrum áratugum, þegar farið var að flytja grenitré inn í stórum stíl. Á síðustu árum hafa svo íslensk  jólatré komið á markaðinn í æ ríkari mæli.                                                                               (Úr Jólaskapi, Árni Björnsson. Bjallan 1983)


Hvers vegna er grenitréð notað sem jólatré?

Þegar halda átti jól í fyrsta sinn sagði Guð þremur englum sínum að fljúga út í heiminn til þess að finna jólatré. Það voru englarnir þrír sem honum þótti vænst um af öllum:

Engill trúarinnar
Engill vonarinnar,
Engill kærleikans.

Englarnir flugu út yfir akra og engi í áttina til skógarins mikla. Það var nístingskalt í veðri. Englarnir þrír voru að tala saman. Engill trúarinnar er yndislegur hvítur engill með blá augu sem ávallt horfa upp í himininn til Guðs. Hann tók fyrst til máls og sagði: "Eigi ég að vera jólatré, þá verður það að hafa krossmarkið á greinunum, en samt að vera beinvaxið og teygja sig upp til himins."
Engill vonarinnar sagði: "Það tré sem ég kýs má ekki visna heldur verður það að vera grænt og kraftmikið allan veturinn eins og lífið sem sigrar dauðann."
Engill kærleikans er yndislegastur þeirra allra. Það er hann sem elskar öll lítil börn og ber alltaf lítinn dreng á hægri handlegg sér og litla stúlku á þeim vinstri.
Hann mælti: "Það tré sem mér á að geðjast að verður að vera skjólsælt tré sem breiðir greinar sínar vinalega út til að skýla öllu litlu fuglunum."
Hvaða tré ætli þeir hafi svo fundið?

Blessað grenitréð!

Það hefur kross á öllum greinunum og er grænt í vetrarsnjónum og veitir öllum litlum fuglum skjól. Þegar þeir höfðu fundið það vildu þeir líka hver fyrir sig gefa því gjöf.
Engill trúarinnar gaf því yndislegu jólakertin til þess að staðið gæti af því himneskur ljómi eins og fyrstu jólanóttina.
Engill vonarinnar setti stóra tindrandi stjörnu á toppinn.
Engill kærleikans hengdi gjafir á allt fallega græna grenitréð.

Og Guð gladdist yfir góðu englunum sínum.

                                                            (Úr blaðinu Jólakveðja frá dönskum sunnudagaskólabörnum 1930)

  • 1
Flettingar í dag: 194
Gestir í dag: 74
Flettingar í gær: 362
Gestir í gær: 67
Samtals flettingar: 203652
Samtals gestir: 37321
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 09:51:04
clockhere