Færslur: 2010 Janúar

30.01.2010 23:24

Vonin .........!

Kæru skólasystkin!
Nú er janúar senn á enda, dag tekið að lengja eða lengur bjart yfir daginn og Sólarkaffi yfirstaðið. Blóma-Siggi ku hafa flutt þvílíka snilldar ræðu á Kaffinu að annað eins hefur ekki heyrst síðan síðast. Þakkir til þeirra sem mættu fyrir okkar hönd; þeir skemmtu sér alla vega vel samkvæmt Maju K. Þrátt fyrir einmuna tíð með snjóleysi og hlýindum eru páskarnir framundan. Vonandi geta sem flestir kíkt í heimahagana og náð þar að stilla sameiginlega strengi. Það hefur lítið borið á myndum frá afmælisbörnum janúarmánaðar, en ennþá er von!


Því um "Vonina", segir Gunnar Hersveinn:

Von  er tilgáta hugans um betri tíð. Hún lætur lítið yfir sér og stundum tekur enginn eftir henni, en hún hefur undramátt því hún er driffjöður verka. Von er byggð á hugmynd um hvernig hlutirnir gætu verið eða ættu að vera. Vonin miðar á framtíðina því enginn ber von í brjósti um að fortíðin breytist til betri vegar. Vonin snýst um hið nýja og sterk von dregur jafnan kraft sinn frá einhverju sem getur hugsanlega orðið að veruleika. "Von er vakandi manns draumur", segir málshátturinn! 


Kveðjur til ykkar með yndislegu "Ljóði dagsins" eftir Steingerði Guðmundsdóttir, "Ljósaskipti":

Í brennandi glóð
        bjarma sólarlags
blikar stjarna
        silfurskær.
Geislafingur
        gagnsær
grípur streng
        og slær
fölbláan tón
        á hörpu deyjandi dags.

Hljóðlát - dul
        í djúpi sálar
dvelur nótt - 
        kolblá.
Mánagull
        á mar sjá
munablómin
        smá
er hún í svefni
minning sína málar.
  • 1
Flettingar í dag: 13
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 87
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 214817
Samtals gestir: 38843
Tölur uppfærðar: 24.12.2024 04:26:32
clockhere