Færslur: 2012 Janúar

07.01.2012 12:04

"Klíf í brattann"!

Kæru skólasystkin!

Nú er gamla árið liðið og nýtt að byrja. Atburðir og minningar þess liðna rifjaðir upp bæði til að kalla fram ánægju tilfinningu þess sem gekk vel og einnig til að læra af því sem betur mátti fara. Heit eru gefin og heit eru strengd um að gera ákveðna hluti og ekki síður að gera betur og reynast betur en áður. Sumir eru einir og aðrir eru saman; sumir ákveða þetta í tilefni tímamóta og aðrir af því þeir meina það sem þeir segja.
Þegar ég lít tilbaka og hugsa til árgangsins okkar, þá þakka ég fyrir að tilheyra honum. Þetta er stór árgangur eins og sjá má á forsíðunni með 80 afmælisdaga. Ég spyr mig hvað það sé sem heldur svona stórum hópi saman. Í umhverfi mínu á spítalanum snýst slík umræða um genin eða erfðaefnið. Við erum þó lítið skyld innbyrðis, en erfðaefnið í hópnum okkar kemur örugglega frá vestfirska bænum okkar og hafinu á milli fjallanna sem heitir á fræðimálinu "1954 bæjarpúkagen".
Þó ég og örugglega fleiri finni fyrir nærveru við hópinn gegnum síðuna okkar, þá er ekkert eins dásamlegt eins og svo kallaður "hittingur". Stundirnar sem við áttum saman í haust voru örugglega flestum mjög dýrmætar. Þrátt fyrir hverja veðurlægðina á fætur annarri, mikið hvassviðri og grenjandi rigningu, var fátt sem skyggði á gleðistundirnar sem við áttum saman. Ég hef áður minnst á að sumum finnst slíkir endurfundir og samvera ekkert endilega til gleði og spilar þar margt inn í.

Ég man sjálfur eftir miklum spenningi þegar ég hitti hópinn í fyrsta sinn eftir margra ára fjarveru. Eftir á að hyggja var spenningurinn mjög góður og eðlilegur. Ég hlakkaði annars vegar rosalega til þess að hitta sem flesta og suma sérstaklega og auðvitað að rifja upp gamlar minninar. Það voru hins vegar tvö atriði í þessum gömlu minningum sem ég var mest spenntur yfir hvort bæru á góma og hvernig umræðan um það myndi enda. Viti menn, þegar upp var staðið - þá bólaði ekkert á þessum atriðum sem voru mér svo ofarlega í huga og í minningunni mjög skýr eftir 41 ár, þar sem viðkomandi var annað hvort búinn að gleyma eða grafa "stríðsöxina". Þar sem lærdómur minn og vinna gegnum árin hefur gengið mikið út á að leysa mál á sem farsælastan hátt, þá tók ég þarna þá ákvörðun að "klífa á brattan". Ég gekk til ákveðins einstaklings, rifjaði upp og útskýrði ákveðinn atburð og baðst innilega afsökunar á hvernig fór á þessum tíma. Viti menn - afsökun mín var meðtekin og staðfestir þannig að atburðurinn var ekki ofarlega bara í mínum huga og alls ekki grafinn dýpra en svo að honum var kippt snarlega upp á yfirborðið og svo grafinn að eilífu ........... eftir þetta finnst mér og að ég held fleirum minningarnar miklu ljúfari :))

Eins og þið eflaust hafið skynjað, þá fann ég í upphafi til mikilla vonbrigða með hvað fáir létu í sér heyra eða gáfu frá sér álit eða innlegg á síðuna okkar; mér fannst við hafa klifið brattann til einskis með allri þeirri vinnu sem fór í að gera hana og síðan viðhalda. Eftir hittinginn okkar í haust sá ég hins vegar hvað við erum hvert öðru dýrmæt, þó við kannski náum ekki að sýna það í raun gegnum "apparat" eins og heimasíðu. Í dag hef ég heitið því að klífa í brattann áfram og láta síðuna vera akkerið í hópnum okkar til að sameina og viðhalda 1954 bæjarpúkageninu. Ég vil hvetja hvert og eitt okkar til að varðeita þennan einstaka gimstein sem við eigum í okkur og láta hann verða öðrum til fyrirmyndar.

Orðum mínum til staðfestingar ætla ég að vitna í kvæði Hannesar Hafstein, "Klíf í brattann"!

Brekkur eru oftast lægri
upp að fara, en til að sjá.
Einstig reynast einatt hærri
en þau sýnast neðan frá.

Himinglæfur brattar, breiðar
bátnum skila´, ef lags er gætt.
Flestar elfur reynast reiðar
rétt og djarft ef brot er þrætt.

T'iðum eyðir allri samræmd
afls og þols; að hika sér.
Kvíðinn heftir hálfa framkvæmd.
Hálfur sigur þorið er.

Klíf í brattann! Beit í vindinn,
brotið þræð og hika ei!
Hik er aðal-erfðasyndin.
Út í stríðið, sveinn og mey!

Kæru skólasystkin. Ég vil hvetja ykkur til að klífa í brattann til góðra verka og hugsana á þessu ári og ævinlega, verandi með þennan dýrmæta og einstaka gimstein í brjósti ykkar. Ég hlakka til að sjá sem flesta á næsta hittingi, Sólarkaffi Ísfirðingafélagsins, eins og nánar er um getið á forsíðu.
  • 1
Flettingar í dag: 82
Gestir í dag: 25
Flettingar í gær: 362
Gestir í gær: 67
Samtals flettingar: 203540
Samtals gestir: 37272
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 09:29:49
clockhere