Færslur: 2012 Mars

04.03.2012 11:06

Hvaðan komu fuglarnir ..........?

Kæru skólasystkin!

Við þekkjum öll til þess að segja af undrun: "hvaðan kom þetta"?, þegar eitthvað kemur óvænt eða skyndilega til okkar. Ég man svo ótrúlega vel eftir þessu hugtaki frá því í barnaskólanum, þegar tyggjó lenti óvart hjá kennaraborðinu í stað ruslafötunnar. Spurningu kennarans um: "hvaðan kom þetta"? var svarað eldsnöggt af tveimur stúlkum sem sátu saman á borðinu sem tyggjóið lenti "óvart" á, með fingurbendinu á aftasta bekk við gluggann. Viðbrögð kennarans urðu brottvísun í stað aðdáunar. Ég veit ekki af hverju þessi atburður kemur aftur og aftur upp í huga mér: "þetta var bara tyggjó sem átti að fara í ruslið"!, "hvernig gátu þessar tvær stelpur vitað hvaðan tyggjóið kom"?, "var einhver samningur milli kennarans og stelpnanna um að láta vita ef eitthvað væri í gangi út í bekknum"?, "af hverju urðu viðbrögð kennarans svona harkaleg"?.

Þetta er bara ein af mörgum sögum sem við munum misjafnlega vel og höfum í dag gaman af að rifja upp. Svar við ofangreindum spurningum og hugleiðingum fáum við líklega og vonandi aldrei, því þá hættu þær að verða okkur umhugsanarefni. Ástæða þess að einmitt þessi saga kemur svo sterkt upp í huga minn í dag er að þessar tvær samsætu skólasystur okkar hafa greinilega hvergi látið deigan síga, ef dæma má af þeim fréttum sem nú eru efst á baugi úr heimahögunum. Þetta eru þær Margrét Gunnars sem var að verða Bæjarlistamaður og sr. Agnes Sigurðar sem er að bjóða sig fram til biskupskjörs.

Ég er hér enn og aftur að vekja athygli á því hvað árgangur okkar er einstakur og dýrmætur. Það er á svona tímum sem við fylkjumst um okkar fólk og sínum samstöðu í hugsun og verkum. Við látum berast frá okkur jákvæð orð og yfirlýsingar sem hampa ágæti okkar og þá sérstaklega stelpnanna; við látum það heyrast svo hátt og hvellt að fólk spyr: "hvaðan kom þetta"? 

Orðum mínum til stuðnings stelpunum vil ég vitna í ljóð Davíðs Stefánssonar: "Hvaðan komu fuglarnir ........"?

Hvaðan komu fuglarnir,
sem flugu hjá í gær?
Á öllum þeirra tónum
var annarlegur blær.

Það var eitthvað fjarlægt
í flugi þeirra og hreim,
eitthvað mjúkt og mikið,
sem minnti á annan heim,
og ég get ekki sofið
fyrir söngvunum þeim.

Af vængjaþytnum einum
ég vor í lofti finn.
Einhver hefur sent þá,
sem elskar fjörðinn minn.
Þeir komu út úr heiðríkjunni
og hurfu þangað inn.

Það var eins og himnarnir
hefðu fært sig nær.
Hvaðan komu fuglarnir,
sem flugu hjá í gær.

Kæru skólasystkin. Ég vil hvetja okkur til að fagna slíkum áföngum. Við fögnum hvert í öðru og við fögnum með öðrum, með því að segja frá og tala um svona góða og merka hluti. Ég bið okkur nú að flykkjast saman, sérstaklega til stuðnings Agnesi í undirbúningi og síðan kosningu hennar til biskups Íslands.
  • 1
Flettingar í dag: 13
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 87
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 214817
Samtals gestir: 38843
Tölur uppfærðar: 24.12.2024 04:26:32
clockhere