Færslur: 2012 Apríl

06.04.2012 09:01

" ...... þú getur treyst mér!"

Kæru skólasystkin!

Í dag stöndum við frammi fyrir biskupskjöri og forsetakjöri. Í aðdraganda slíkra atburða koma frambjóðendur fram fyrir þjóð sína í fjölmiðlum og gera grein fyrir málefnum sínum og áherslum í endurbótum á þessum embættum. Þar skiptir líka miklu máli þegar kemur að lokaatriðinu: "...... þú getur treyst mér!" Vá, hvað þetta hljómar kunnuglega og samtímis hrollvekjandi. Það var einmitt það sem við gerðum fyrir Hrunið - við treystum öllum alveg tvist og bast. Er þessi setning kannski búin að stökkbreytast frá þeim tíma að menn tókust í hendur og gerðu með sér svokallað: "gentlemans agreement", en það þýddi gagnkvæmt traust sem ekki þurfti að setja á pappír. Má vera að þessi rafrænu samskipti hafi gert að tilfinningin fyrir loforðinu hafi tapast - þetta er jú svo einfalt og "laust í reipunum" - bara ýta á "send" og málið er leyst eða þannig :))
Gunnar Hersveinn segir í bók sinni Gæfusporum: "Traust er trúnaður milli manna, það er hollusta sem gerir lífið öruggt og einlægt. Traust veitir styrk og sjálfsöryggi. Menn sem bera traust hver til annars finna til öryggiskenndar. Þeir geta reitt sig á hjálp og liðveislu. Traustið er því eins konar samningur um samheldni í stað svika og pretta.Traust er þannig frumskilyrði mannlegra samskipta, það heldur samfélagi manna saman. Traustið milli manna er huggunin sem tengir þá saman og um leið og það dvínar hallar undan fæti, EN men verða að byrja á sjálfum sér!".

Í dag er páskahátíð. Fólk fer út og suður; margir fara vestur til að vitja heimahaganna og taka þar þátt í "Aldrei fór ég suður", sem er orðinn einn mesti menningarviðburður Íslands á þessum tíma. Á yfiborði menningarinnar eiga hlutirnir að líta vel út, en undir niðri eru margir ennþá í "afleiðingum" Hrunsins. Fólk er að vinna sú út úr margvíslegum vandamálum, bæði í fjárhagslega og ekki síður að endurheimta traust. Það er ekki hægt að segja að umræður manna á alþingi séu traustvekjandi. Hins vegar hafa þau fyrirheit sem komið hafa fram hjá frambjóðendum til biskups og forseta endurvakið vonir í brjóstum okkar um, að einhverjum sé ennþá treystandi. Við sem þekkjum séra Agnesi vitum fyrirfram, að hér fer manneskja sem við höfum alltaf getað reitt okkur á og þannig verið treystandi. Ég er því sannfærður um að traust hennar mun gefa kirkju okkar og þjóð nýjan byr og leiða okkur fram í styrk og sjálfsöryggi. Ég vil að hún viti það að þó svo við höfum ekkert með kosningar að gera, þá stendur árgangur 1954 sem klettur á bak við hana og sendir góðar hugsanir til þeirra sem merkja á kjörseðlana: "...... ég treysti þér!"

Kæru skólasystkin. Ég vil hvetja hvert og eitt okkar til að skoða og endurmeta traustið á tilveru okkar og kringumstæðum og ekki gleyma því að byrja vinnuna á heimaslóðum. Á þann hátt getum við verið öðrum til fyrirmyndar og styrkur í framgöngu séra Agnesar. Orðum mínum til staðfestingar og okkur til uppörvunar, vil ég vitna um traust okkar í kvæðið "Íslands börn" eftir Jóhannes úr Kötlum:

Nú koma þau með eld í æðum
á allavega litum klæðum
- og mörgum hleypur kapp í kinn,
er upp mót blámans heiðu hæðum
þau hefja fánann sinn.

Og aldrei hefur hópur fegri
né hugumstærri og yndislegri
sér fylgt í íslenzkt ævintýr.
Og aldrei storkað elli tregri
jafn ungur tónn og frjáls og nýr.

- - - - -

Á norðurhjarans sögusviði
- í sveit og bæ, á fiskimiði -
mun lífið verða af kvíða kvitt,
ef svona verur fá í friði
að fegra og elska landið sitt.

- - - - -

En vér, sem þykjumst menn, þá megum
ei máttinn draga úr vonum fleygum
né marka efans myrku spor
í svip þess bezta, sem vér eigum
og sem er líf og framtíð vor.

Að frelsið aldrei frá oss víki,
sem fæddi af sér hið nýja ríki,
er komið undir kosti þeim,
að enginn barnsins eðli svíki,
sem eitt fær skapað betri heim.
  • 1
Flettingar í dag: 13
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 87
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 214817
Samtals gestir: 38843
Tölur uppfærðar: 24.12.2024 04:26:32
clockhere