Færslur: 2012 Maí

05.05.2012 10:59

Traust "þitt" og biskupinn "okkar" .........

Kæru skólasystkin!

Hún gerði það með "stæl" eða frekar "af festu og með öryggi", hún séra Agnes - okkar :)) Já; við (fólk) er fljótt að eigna sér góða hluti og sæta sigra, því þeir veita vellíðan. En eins og við vitum öll, þá eru sigrar ekki gefins og ef þeir eiga að vera varanlegir eða gefa meira en tímabundna gleði, þá fylgja þeim áfram mikil vinna. Í blaðaviðtali í fyrradag segir sextugur maður sem er að fagna og gleðjast yfir farsælum tímamótum : "Ævin er bara örstutt leiftur" ........ ! Ég er ekki sammála honum um að 60 ár geti talist leiftur(tími), nema þá að hann meini að hugsuninin yfir þennnan tíma sé eldsnögg. 
    Ekkert okkar hefur farið varhuga af þeim tíma sem undanfarin ár hafa einkennst af; efnahagshruni í heiminum og mismiklum hremmingum fólks því samfara. Á slíkum tímum reynir alltaf á trú okkar á að einhvers staðar hljóti að vera til góðir hlutir sem hægt sé að leiða hugann að, teygja hendi sína í áttina eftir haldreipi eða tala til eins og þegar fólk fer með "Faðir vorið". Í aðdraganda biskupskjörsins og í vðtölum við sr. Agnesi bæði eftir á, þakkar hún "Guð sínum" fyrir þann styrk sem hann gefur henni og þá staðfestingu fyrir tilvist sinni sem hann sýnir með kosningasigri hennar. Ég skil þetta þannig að sr. Agnes eigi sér andlegan Guð föður á himnum sem hún treystir fullkomlega fyrir lífi sínu og starfi og að staðfesting á tilveru hans sé velgengni hennar bæði fyrr og nú!
    Síðasta hugleiðing mín gekk út á að traust og samningar manna í milli hér áður fyrr voru handsalaðir sem "gentlemans agreement"! Við náðum nú ekki öll að taka í hendina á sr. Agnesi til að staðfesta traust okkar á henni fyrir kosningarnar, en ákváðum að senda henni "góðar hugsanir" og "bænir"! Þannig má segja að við höfum einnig fengið staðfestingu þess að ekki bara hún eigi einhvern prívat og persónulegan Guð, heldur eigum við það líka. Það eru aldrei að vita nema að við séum að tala við sama Guðinn og sr. Agnes og það sé þannig skýringin á því af hverju hann heyrði í okkur hinum líka. Allavega höfum við enga ástæðu til annars á þessari stundu en að hlusta meira á það sem bekkjarsystir okkar hefur að segja og ráðleggja okkur og þannig sýna henni áfram traust okkar til hennar og hjálpa henni til að styrkja fólkið í kringum okkur - þjóðina okkar.
    Þessi tími var okkur ekki síður "andlegur" hér áður fyrr, þegar við lágum yfir bókum og glósum til að undirbúa okkur fyrir próf. Þessi tími var okkur hins vegar misskemmtilegur, því ekki voru þetta nú allt uppáhaldsfög. Það sem brást aldrei var hins vegar sólin - hún skein alveg pottþétt og í öllu sínu veldi á fyrsta upplestrardegi og hélt þannig áfram alveg fram til síðasta prófdags - þá komu skýin! En öll okkar áttum við einhvers konar drauma um að sólin kæmi nú aftur, skemmtileg sumarvinna tæki við eða spennandi ferðalag sem búið var að undirbúa; einhverjir ætluðu líka að nota sumarið til að undirbúa framtíðina. Svo leið sumarið "eins og örstutt leiftur" og haustið kom á ný - með ný áform og nýjar eftirvæntingar .......; sumir vissu strax hvað þeir vildu. Þannig tóka Agnes "okkar" snemma ákvörðun; hún setti allt traust sitt á Guð föður sinn og nú er hún Biskup Íslands!

Kæru skólasystkin. Nú er sumarið að bresta á og ekki síður en í gamla daga, þá erum við búin að setja okkur fyrir mismikið til að afkasta eða áorka á þessum tíma. Ég vil samt enn og aftur hvetja okkur til að hugsa vel til bæði fjölskyldunnar og hvers annars, eins og skólasystir okkar hefur brýnt fyrir okkur og þjóðinni. Þannig getum við hjálpast að til að styðja við og styrkja endurreisn þjóðarinnar sem er ég og þú! Í dag ætla ég því að vitna orðum mínum til stuðnings í "Orðskviður Salómons" (3), sem eru þannig:

Treystu Drottni af öllu hjarta,
en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit.
Mundu til hans á öllum þínum vegum.
  • 1
Flettingar í dag: 13
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 87
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 214817
Samtals gestir: 38843
Tölur uppfærðar: 24.12.2024 04:26:32
clockhere