Færslur: 2012 Júní

17.06.2012 09:08

"Mig langar til að spyrja þig, löngu horfna kona ........ "

Kæru skólasystkin!

Í dag er 17. júní, þjóðhátíðardagur Íslendinga (okkar). Ég ætti því að hlaupa út til að fagna .......... :) Ég tek bakföll í dyrunum, því úti er kallt, hvasst og rigning; ég er líka annars hugar eftir ferð til Ísafjarðar um Sjómannadagshelgina sem er notalegri í upprifjun innandyra. Ferðalagið var hefðbundin akstursleið um Dalina, Strandir og Djúpið, en þar sem með í för var barnabarn, litast umræðan í bílnum af minningum liðins tíma. Frásagan byrjar um leið og Djúpið blasir við frá Steingrími, en þungalesturin hefst í Ögurnesinu og við Litla-Bæ í Skötufirði og linnir ekki fyrr en barnið nær að forða sér út úr bílnum þegar hann stöðvast upp á Engjavegi. 
    Næsta dag, sem er laugardagur, berst mikill hávaði frá höfninni og Pollinum. Þar eru sjómenn að skemmta sér og yngri kynslóðinni því á morgun er Sjómannadagurinn og "hann höldum við hátíðlegan"! Mér fannst þetta mjög merkileg yfirlýsing og var að velta fyrir mér hvað þetta þýddi í dag á þeirra máli. Barnabarnið vildi nú ólm komast niður í bæ. Þegar við stormuðum út í "góða veðrið" og út Engjaveginn kom ískaldur strengur beint ofan í hálsmálið svo ég stoppaði og greip báðum höndum til að renna betur upp. Eitthvað hægði ég of mikið á göngunni við þetta á meðan ég skimaði í kringum mig og sá snjó í fjöllum allt í kring og beljandi læki í hlíðunum, því barnabarnið togaði mig áfram til að komast á þangað sem hún ætlaði sér. Ég var svo upptekinn af höfninni að ég var ekki með á nótunum hvert hún var að toga mig fyrr en hún benti mér á leikvöllin á gamla bílastæðinu við Kaupfélagið. Það vildi til að leiktækin voru hvert öðru skemmtilegra því þarna stóð afinn álengdar í pössunarhlutverkinu, á meðan að hugur hans fór á vit minninganna frá þessu leiksvæði skólaáranna.
    Sjómannadagurinn rann upp "ægifagur" - logn, heiðskýrt, sól og hlýrra en í gær. Við fórum til Sjómannadagsmessu í kapellunni í Hnífsdal, til að vera viðstödd fermingu bróðurdóttur minnar. Það var ekki fyrr en við þrumandi ræðu sr. Magnúsar að ég vaknaði til vitundar um mikilvægi stundarinnar og minninganna. Hann talaði eins og innfæddur um tilurð kapellunnar og tengsl hennar við skólann og uppbyggingu byggðarlagsins og sjómennskunnar þaðan. Hann kom eðlilega inn á þá báta og sjómenn sem höfðu farist og að við ætluðum að heiðra minningu þeirra í dag með helgihaldi og söng og að lokum ganga í kirkjugarðinn og leggja blómsveig að leiðum þeirra og minnismerkjum. Nú fór ég að skilja betur hvað sjómenn meintu með að halda daginn hátíðlegan.   
    Kirkjugarðurinn er einstaklega fallegur á að líta. Standandi á þessum minningareit í blankalogni og með útsýni yfir rennislétt Djúpið og með snæviþökkt fjöllin allt í kring, er erfitt að trúa því hvað átt hefur sér stað þarna úti fyrir, nema að líta á nafnspjöld og heyra aftur minningarorð prestsins. Það er á slíkri stundu sem hugurinn reikar enn og aftur á vit minninganna og í þetta sinn til horfinna ástvina. Það vildi því enn og aftur vel til að hér voru einnig "skemmtileg leiktæki", því barnabarnið var fljót að uppgötva vatnskönnuna ........."til að gefa blómunum (á leiðunum) sem voru svo þyrst"! Á leiðinni heim fékk barnabarnið að hringja í mömmu sína til að segja henni hvað það hafi verið gaman út í Hnífsdal. Þá fékk hún að heyra að mamma hennar hafi í einn vetur verið keyrð daglega þessa leið á leikskólann rétt hjá kapellunni (þar sem Maja Kristjáns var þá forstöðukona) og hún hafi þá verið mest hrædd við hafið við veginn - sú litla horfði nú út um bílgluggan og sagði hughreystandi: "já en mamma, það er allt í lagi"!
    Já kæru skólasystkin - eitt er að sýnast og annað að minnast. Á sama hátt og enginn dagur er sér líkur, þá erum við einnig ólík og sjáum og minnumst liðins tíma á mismunandi hátt. Sýn barnsins er greinilega einfaldari og saklausari en okkar, en minningarnar eru alltaf til staðar. Okkur ber skylda til að rifja þær upp og varðveita þannig sögu okkar gegn tímans tönn. Orðum mínum til staðfestingar ætla ég að vitna í kvæði Halldóru B. Björnsson, "Á þjóðminjasafninu":

Mig langar til að spyrja þig, löngu horfna kona,
hvað leiddi hendur þínar
að sauma þessar rósir í samfelluna þína?
Og svona líka fínar!

Var það þetta yndi, sem æskan hafði seitt þér
í augu og hjarta?
Eða fyrir manninn, sem þú mættir fyrir nokkru,
að þú máttir til að skarta?

Áttirðu þér leyndarmál, sem leyfðust ekki að segja,
en lærðir ekki að skrifa?
Eða væntírðu þér athvarfs þar, sem ekkert var að finna,
þegar erfitt var að lifa?

Var það lífs þíns auðlegð, eða blaðsins bitri kvíði
þegar blómið hefur angað?
Var það ást þín í meinum, eða eilífðardraumur,
sem þú yfirfærðir þangað?

En hver veit nema finnist þér fávíslegt að spyrja,
hvað fólst í þínu geði,
því ég er máske arftaki allra þinna sorga
og allrar þinnar gleði? 
  • 1
Flettingar í dag: 13
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 87
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 214817
Samtals gestir: 38843
Tölur uppfærðar: 24.12.2024 04:26:32
clockhere