Færslur: 2013 September

14.09.2013 08:46

Mér dvaldist of lengi .........

Kæru skólasystkin!

Haustið er komið  - allavega "í veðrinu"! Bíddu við - hvenær kom þá sumarið? Það er "þungt" í fólki, hvar sem stungið er niður. Það er ýmist verið að bíða eftir bata í efnahags- og atvinnumálum eða hvernig "óstandið" endar inn á spítalanum. Það jákvæðasta sem fram hefur komið síðustu daga er frá íslenska fótboltanum og í Fréttablaðinu í morgun segir sænski þjálfarinn: "Ég dáist að viðhorfi Íslendinga - þeir eru vanir að taka ábyrgð í stað þess að bíða eftir hjálp"! En er þetta ekki gamla viðhorfið okkar - hefði hann sagt þetta ef við hefðum ekki unnið? Er hann kannski að lýsa veröld fótboltamannsins sem takmarkast af stærð vallarins og bóndans sem takmarkast af stærð jarðar sinnar og flugfélagsins sem takmarkast af stærð Íslands. Misstum við kannski stjórn á hlutunum við allar sameiningarnar og við það að reyna blanda Íslandi við umheiminn. Er vandamálið kannski það að búið sé að kveða niður eða kæfa frumkvæði og forystu einstaklingins í hítinnni? Þegar ég spyr í kringum mig: "af hverju siturðu" er svarið "ég fæ ekkert meira fyrir að standa" eða "eigum við ekki að drífa í þessu", er svarið "til hvers - vandamálið fer ekki, því enginn annar vill taka á því"? Hér eru hlutirnir greinilega ekki eins og þeir ættu að vera - en af hverju ættu þeir að vera öðruvísi - "ég fæ ekkert meira fyrir að hlaupa á eftir þér"! Hvað er eiginlega að - jú, það er umbunin eða uppskeran af verkunum sem er horfin - og það slekkur einnig allt framtak og vinnugleði sem við erum annars almennt þekkt fyrir. Viðbrögð okkar hafa verið eins og forðum að við leitum hreinlega "annarra miða", bæði nær og fjær. Vegna smæðar okkar eru nærmiðin þétt skipuð svo næstu mið verða því gjarnan annar kostur - ekki sízt ef fók hefur verið þar áður og þekkir þau af góðu einu. Ástandið minnir óneitanlega á landflóttann mikla til Canada ..................

En af nógu er að taka "heimafyrir", það er þeirra sem ekki ætla til Canada :)) Á þessum tíma eru það haustverkin. Með tímans tönn hefur dregið úr sveitatengdum skyldum eins og kartöflurækt, berjatínslu og sláturgerð og meiri áhersla orðið á undirbúning heimilis fyrir veturinn fyrir skólagöngu og félagsstörf. Já - það þýðir ekki lengur að bara mæta; það þarf að skipa í nefndir og skilgreina hvað hver og einn á að gera og ekki gera og  gefa það út fyrir ákveðin tímamörk á bæði skriflegu og rafrænu formi. Þannig erum við að færast hægt og bítandi inn í hinn rafræna heim upplýsinga sem smám saman gerir bókformið ónauðsynlegt. Þetta hefur mögulega áhrif á víðsýni okkar og þekkingu, en ekki kunnáttu. Þannig á námsfólk í dag mjög greiðan aðgang að öllum þeim fróðleik sem þau þarfnast en minnið nær ekki að halda öllu til haga þegar á hólminn er komið; þá rekur í vörðurnar og vantar "gúgglið"! Sama er upp á teningnum þegar þarf að skrifa og það hratt - bæði sú kunnátta og þjálfun fer forgörðum með bæði tölvunum og sérstaklega "pöddunum", þannig að tjáningarformið sem eftir situr verður tungan eða frumtjáningin.

Hvort heldur er að fólk flyst burt eða hættir að geta skrifað, þá er búið að sjá fyrir hvorutveggja vandamálið með "skæpinu". Í dag er skæpið bara á "on" og "þá erum við alltaf eins og saman"! Þarna er greinilega kjörið tækifæri fyrir okkur að alltaf vera saman hvort sem við erum í vinnunni, heima eða á elliheimilinu.  Það er kannski eins gott að tækið sé í gangi aðeins fyrir líðandi stund og ekki í stöðugri upptöku, því það væri ekki gott fyrir síðari tíma. Engu að síður tel ég þetta ekki koma í veg fyrir að við hittumst líka, því enn eru staðhæfingarnar úr Hávamálum í fulli gildi varðandi: "maður er manns gaman"!

Já - kæru skólasystkin. Mér dvaldist kannski of lengi við haustverkin, en þau voru hreinlega þyngri og umfangsmeiri en áður. Nú er spennanndi vetur í aðsigi og við tökum honum fagnandi. Það er gott að við vitum af hvert öðru og leitum stöðuglega styrks í trúnni eins og biskupinn hún Agnes skólasystir okkar er stöðuglega að brýna okkur á að gera. Ég bið ykkur einnig að hugleiða alvarlega hitting og það kæmi mér ekki á óvart að við næðum að skíra hann í tilefni einhvers eftirminnilegs úr fortíð okkar.

Ég ætla að ljúka þessum pistli með tilvísan í kvæði Snorra Hjartarsonar: "Mér dvaldist of lengi"!

Mér dvaldist of lengi það dimmir af nótt
haustkaldri nótt á heiði.

Ég finn lynggróna kvos við lækjardrag
og les saman sprek í eldinn

barnsmá og hvít og brotgjörn sprek.
Sjá logarnir leika við strauminn

rísa úr strengnum með rödd hans og glit.
Ó mannsbarn á myrkri heiði

sem villist í dimmmunni vitjaðu mín
vermdu þig snöggvast við eldinn

fylgdu svo læknum leiðina heim.

  • 1
Flettingar í dag: 13
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 87
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 214817
Samtals gestir: 38843
Tölur uppfærðar: 24.12.2024 04:26:32
clockhere