Færslur: 2013 Desember

07.12.2013 11:23

Á aðventu .............

Kæru skólasystkin!

Í síðastliðnum mánuði hefur margt borið við í landinu okkar. Sumt þekkjum við og hlustum á það "með öðru eyranu" í fréttamiðlunum; annað er nýtt og bregður okkur þá mismikið í brún. Víð grínumst oft með það á spítalanum að ef eitthvað skrítið er til eða eitthvað einkennilegt kemur uppá, þá verður það á Íslandi. Það er samt sérkennilegt hvernig þessar svokölluðu uppákomur lenda í umræðunni. Í heilt ár er búið að ræða og rífast yfir hvernig beri að leysa skuldavanda heimilanna. Dag einn var lausnin svo birt, en umræðan varð engin. Í jafnlagan tíma er búið að ræða og rífast yfir fjárhagsvanda spítalans sem endaði með því að forstjórinn sagði af sér við birtingu fjárlaga. Í fyrradag komu 3.5 milljarðar til lausnar án þess að ein rödd um þakklæti eða ein augabrún hækkaði til að fagna. Þurfum við virkilega að skjóta fólk til að vekja athygli á þeim vanda sem þjóð okkar eru komin í?
            Aðrir hlutir okkur nær hefur verið umræða um komandi 60 ára afmæli okkar á næsta ári. Það hefur ótrúlega lítið komið inn af tillögum að framkvæmd slíks viðburðar - kannski er hann bara ekki virði meiri umræðu eða vandkvæða. Engu að síður er þetta viðburður sem okkur ber að fagna okkar hátt. Einhver okkar vill eflaust fagna heima hjá sér og á sínum forsendum og er í raun ekkert við því að sakast. Hópurinn okkar er þó betur þekktur af því að sjást og heyrast á heimavelli. Stóri munurinn á okkur og þjóðinni er nefnilega sá að við berjumst á ögurstund, við gleðjumst á sigurstund og við syrgjum þegar í okkur er höggið. Þannig er 1954 hópurinn okkar öðruvísi en "almenningurinn" og mér (og fleirum) finnst aðdáunarverð sú eljusemi og samheldni sem í okkur ríkir. Ég hefur áður sagt, "þetta eru genin" og staðreyndin er sú (sem betur fer), að þeim verður ekki breytt!
            Allavega er komin tillaga frá stjórn okkar að við hringjum til fagnaðar þann 6. og 7. september 2014 og nú sem fyrr er bara að mála, hringa inn eða rispa á dagatalið og gera allar þær ráðstafanir sem þarf til að koma saman þessa helgi. Það er því ekki seinna vænna en núna að láta hugann reika um heimahagana til að rifja þann tíma sem við áttum þar saman. Það má eflaust finna ýmsu til ama og falla í gryfju moldvörpunnar, en núna er blásið til fagnaðar og þá tökum við fram lúðra og spil en ekki sverð og skjöld. Mig langar sérstaklega til að við festum á blað skemmtilegar sögur eða frásagnir og myndir sem við tökum með okkur til opinberunar og til að setja síðar inn á stað sem okkur öllum verður aðgengilegur á elliheimilinu.

Í dag er aðventan. Á Vísindavef Háskólans stendur að aðventan sé annað heiti á jólaföstu. Hún hefst fjórða sunnudag fyrir jóladag og stendur því í fjórar vikur. Orðið aðventa hefur verið notað í málinu að minnsta kosti frá því á 14. öld og er tökuorð úr latínu adventus í merkingunni 'tilkoma'. Að baki liggur latneska sögnin advenio "ég kem til" sem leidd er af latnesku sögninni venio "ég kem" með forskeytinu ad-. Framan af virðist orðið jólafasta hafa verið algengara í máli fólks ef marka má dæmi í fornmálsorðabókum og í seðlasafni Orðabókarinnar. Nafnið er dregið af því að í kaþólskum sið var fastað síðustu vikurnar fyrir jól og ekki etið kjöt. Í Grágás, hinni fornu lögbók Íslendinga, stendur til dæmis ,,Jólaföstu skal fasta hvern dag og tvær nætur í viku nema messudagur taki föstu af" (1992:30) og á öðrum stað segir:

Jólaföstu eigum vér að halda. Vér skulum taka til annan dag viku að varna við kjötvi, þann er drottinsdagar eru þrír á millum og jóladags hins fyrsta. Þá skal eigi eta kjöt á þeirri stundu nema drottinsdaga og messudaga lögtekna. (1992:31)

Kæru skólasystkin. Hjá okkur einkennist þessi tími af undirbúningi fyrir skólalok, klár ógerða hluti frá árinu, skreytingar, jólakortaskrif og jólapakkasendingar og ekki að gleyma öllum jólamatnum. Ég vil því biðja okkur að þrátt fyrir mikið annríki hugsa vel til hvers annars og velta fram hugljúfum minningum liðinna ára sem gaman verður að deila með hvert öðru á hittingnum í haust.

Orðum mínum til staðfestingar ætla ég að vitna í kvæði Steingerðar Guðmundsdóttur, Á aðventu. Ég óska ykkur og fjölskyldum ykkar Gleðilegra jóla og friðar með ósk um farsælt nýtt ár 2014.

Í skammdegismyrkri

þá skuggar lengjast

er skinið frá birtunni næst

ber við himinn hæst.

 

Hans fótatak nálgast

þú finnur blæinn

af Frelsarans helgiró -

hann veitir þér vansælum fró.

 

Við dyrastaf hljóður

hann dvelur - og sjá

þá dagar í myrkum rann

hann erindi á við hvern mann.

 

Þinn hugur kyrrist

þitt hjarta skynjar

að hógværðin býr honum stað

þar sest hann sjálfur að.

 

Og jólin verði

í vitund þinni

að vermandi kærleiks yl

sem berðu bölheima til.
  • 1
Flettingar í dag: 13
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 87
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 214817
Samtals gestir: 38843
Tölur uppfærðar: 24.12.2024 04:26:32
clockhere