Færslur: 2014 Janúar

04.01.2014 11:13

Raddir sem aldrei hljóðna ..........

Kæru skólasystkin!

Þá er nýtt ár, 2014, gengið í garð og það gamla "liðið í aldanna skaut"! Mér finnst það alltaf einkennileg tilfinning þegar kirkjuklukkurnar hljóma um jól og áramót. Klukknahljómur er nefnilega að gefa eitthvað til kynna; lest að fara af stað, bátur að leggja frá, athöfn að byrja eða enda í kirkjunni .......... eða eins og við höfum nýlega heyrt: útvarpsmessan kl 18 í Dómkirkjunni eða árinu lokið kl 24 á gamlársdag. Í þetta sinn er nýja árið merkilegt fyrir þær sakir að 60 ár eru liðin síðan við fæddumst og það verður því að kallast "stórmerkilegt" ár!  Okkur finnst mismunandi hversu hratt tíminn hefur liðið, líklega f því viðmiðin eru ólík. Ég man eftir því þegar ég stóð fyrir utan Barnaskólann okkar haustið 1970 og beið eftir pabba, sem var að koma af fundi með Jóni Baldvini og sagði að þessi Menntaskóli tæki að minnsta kosti 4 ár. Glætan - 4 ár til viðbótar við öll hin árin - ég kikknaði í hnjánum og var ekki viss um að ég nennti að labba aftur heim. Þessi tími leið síðan eins og annar tími og allt í einu stóðum við í myndatöku út í Blómagarði og strákarnir flestir með hár niður á herðar. "Við" fórum einnig í Iðn- og tækniskólann, en ég veit ekki hvar sú myndataka fór fram. Ég held ég geti staðhæft að um þetta leiti hafi flest okkar fluttst úr "föðurhúsum" til Reykjavíkur og byrjað enn eitt tímabilið .......
     Við könnumst öll við það "hvað allt breytist", þó við förum að heiman bara í nokkra daga. Viðbrögð okkar við breytingunni eru misjöfn allt frá því að láta breytinguna fara óáreitta gegnum hugann upp í að tjá sig með háreistum yfir því að "hér hafa hreinlega verið unnin skemmdarverk"! Við þekkjum eflaust flest til einhverra sem hreinlega neita að koma aftur til Ísafjarðar af því að bærinn hefur breyst svo mikið frá að þau ólust þar upp eða eða búið sé að skemma lögun Eyrarinnar frá því sem hún var í upphafi. Ég er sannfærður um að í slíkum tilvikum er eitthvað annað að og skuldinni því skellt á þessa náttúrulegu hluti sem tilheyra "tímans tönn"!. 
    Við erum hins vegar svo heppin að eiga 1954 rætur sem ekki láta bifast þrátt fyrir 60 ár í blíðu og stríðu. Þegar ég fer vestur, þá er alltaf stoppað í Ögurnesinu og á Litlabæ, þar sem amma og afi áttu heima, labbað gegnum Tangagötuna og Hrannargötuna þar sem þau áttu heima síðustu árin og upp Hafnarstrætið þar sem "bæjarkarlarnir" voru alltaf á sínum stað þar til þeir fóru einnig til "sinna heima". Þau okkar sem voru á síðast hittingi heima og löbbuðu gegnum nýju grunnskólabygginguna muna vel eftir þeim tilfinningum sem bæði komu fram í hugann og var einnig lýst í orðum þegar við settumst í gömlu skólastofurnar okkar í Barnaskólanum. Þarna komu fram raddir sem aldrei mega hljóðna ......
    Þess vegna er svo mikilvægt að við höldum áfram að heyrast, hittast og rifjum upp liðinn tíma sem bara verður lengri með árunum. Ég hef áður minnst á nauðsyn þess að segja líka öðrum frá þessum liðna tíma, hvort sem það eru vinir, makar, börn eða barnabörn. Sumir kannast við að hafa átt svipaða æsku og uppvöxt, en oftar en ekki eigum við vinninginn. Ég man hvað það snart mig þegar ég var kyrrsettur af einu barnabarninu mínu á göngu gegnum Kaupfélagsplanið, því hún þurfti að klifra upp í grindina sem þar er. Hún var snögg upp á efsta stallinn og hrópaði þaðan sigri hrósandi: "afi. ég sé fjallið þitt"! Það er í eina skitpið sem ég hef óskað þess að María væri eins lengi og hún vildi inn í búðinni ......... :))
    Kæru skólasystkin. Klukkurnar hafa hringt og nú er gengið í garð sextugasta aldursár okkar. Eins og þið sem hafið lesið einn og einn pistil hafið rekið ykkur á, þá hef ég aldrei minnst á hraða tímans, því það er tilfinning hvers og eins okkar. Ég þreytist hins vegar seint á því að rifja upp tímann okkar og hvað við höfum aðhafst bæði sundur og saman, því það endurfæðir okkur og nærir fyrir framtíðina. Ég geri mér fyllilega grein fyrir að það sé misjafnlega erfitt að rifja upp liðinn tíma og atvik sem varpa ljósi á bæði gleði og annað minna skemmtilegt. Ég tel samt að við höfum öll eitthvað jákvætt fram að færa sem vert er að minnast og segja hvert öðru og öðrum frá. Ég skora því á eitt og sérhvert okkar að gera allt til þess að komast á hittinginn okkar heima á Ísafirði í haust til að gera liðinn tíma og þá stund eftirminnilega, því raddir okkar mega aldrei hljóðna ...........

Orðum mínum til stuðnings í dag ætla ég að vitna í kvæði Guðmundar Böðvarssonar, "Raddir sem aldrei hljóðna":

Svo hljótt þaut mín jörð yfir himinsins naflausu vegi,
að hjarta mitt fann ekki mismun á nóttu og degi,
í feimninni þrá, sem endalaust bíður og bíður.
Hann blekkti mig, tíminn, ég vissi ekki, hvernig hann líður.

Og svo flaug hann á burt með mitt vor yfir heiðar og hlíðar,
með höll mína, tign mína og ríki, - ég vissi það síðar,
með hið fegursta og besta, sem aðeins af afspurn ég þekki.
 - Og ég átti það, átti það allt, en ég vissi það ekki.

Nú undrast ég það, þar sem einn ég í skugganum vaki,
að mín æska er liðin, er horfin, og langt mér að baki,
á einfaldan hátt, ein og auðfarin spölur á vegi,
og þó undrast ég mest, að ég gekk þar, og vissi það eigi.

  • 1
Flettingar í dag: 82
Gestir í dag: 25
Flettingar í gær: 362
Gestir í gær: 67
Samtals flettingar: 203540
Samtals gestir: 37272
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 09:29:49
clockhere