Færslur: 2015 Nóvember

22.11.2015 08:23

"Faðmlagið og hláturinn ........."

Kæru skólasystin!

Enn kom skarð í 1954 hópinn, þegar kær systir okkar, Magga Odds, kvaddi heiminn þann 13. nóvember sl. eftir hetjulega baráttu við illvígan sjúkdóm. Það var stingur í hjartanu í gærmorgun þegar allt í einu var komið að því að kveðja hana frá Skálholtskirkju. En eins og fyrr sá hún til þess að umfaðma mig og alla sem þangað stefndu með sólargeislum yfir Tungunum og frostmóðu yfir Skálholtssvæðinu.

Sveitin hennar Möggu, Tungurnar, tók vel á móti vinum og vandamönnum sem streymdu alls staðar að á þessum fallega brottfarardegi hennar. Á meðan orgelið seiddi frá sér uppáhalds laglínur, fylltist mikilfengleg og virðuleg kirkjan á örskammri stundu og sveitailmurinn varð ríkjandi. Það var mjög kallt, bjöllurnar hringdu, hurðin lokaðist og raunveruleikinn brast á.

Á meðan lagið "My way" hljómaði, komu fram minningarbrot mín um Möggu frá barnaskólanum, sem síglaða og mjög duglega stelpu; enda komst hún strax í "klíkuna"! Þegar svo séra Egill fór að lýsa henni nánar, þá fór ekki á milli mála að fleiri áttu ítök í henni en 1954 árgangurinn. Orð Egils voru sönn og einlæg frá upphafi til enda og hann talaði frá hjartanu fyrir hönd allra sem þarna sátu. Þá ítrekaði hann svo ekki var um villst að "hún átti okkur og við hana"! Þá sá ég líka Möggu ljóslifandi fyrir mér þegar hann lýsti: "þéttingsföstum faðmlögum hennar" sem ítrekuðu þann sanna vin sem hún var og "smitandi vestfirskan hlátur" sem ekki hafði áður heyrst um þessar slóðir áður og vakti því sofandi sveit til lífs. Að lokum ljóstraði hann upp um prakkarastriki eins nemanda í sveitinni sem hafði skrifað á vegginn bak við hurðina í matarbúrinu hjá Möggu: "bezti kokkur í heimi"!

Þegar lagið: "Góða ferð" hljómaði í lokin var ekki um villst að komið var að síðustu mínútum kveðjustundarinnar. Sporin út á stéttina að kistunni voru ekki síður þung en upp tröppurnar. En úti var sólin að setjast og frostmóðan farin með Möggu til himins. Þessi kveðjuathöfn var svo falleg og sönn að stingurinn fór úr hjartanu. Í Aratungu fengum við svo að kynnast "Hnallþórunum" sem Magga var búin að kenna sveitungum sínum að baka. Þar áttu 1954 púkarnir góð stund saman, þó tilefnið hefði mátt vera annað. Kveðjuluktin okkar til Möggu stóð með glæsibrag á tröppunum og heilsaði öllum og kvaddi að lokum.

Kæru skólasystkin! Nú er hún Magga okkar Odds búin að yfirgefa jarðheiminn. Eftir sitja minningar um kæra systir sem hafði sanna vináttu, glaðlyndi og eljusemi að leiðarljósi fyrir okkur. Ég bið að við varðveitum minningu hennar með því að viðhalda því sem hún kenndi okkur. Ég bið einnig Guð um styrk og stuðning til fjölskyldu hennar og varðveizlu yfir öll barnabörnin.Orðum mínum til stuðnings ætla ég að vitna í 2 vers úr Hávamálum:

Ungur var eg forðum,
fór eg einn saman,
þá varp eg villur vega;
auðigur þóttumk,
er eg annan fann,
maður er manns gaman.

- - - - - - - - - - - - - - 

Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama.
Eg veit einn,
að adkrei deyr;
dómur um dauðan hvern.
  • 1
Flettingar í dag: 13
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 87
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 214817
Samtals gestir: 38843
Tölur uppfærðar: 24.12.2024 04:26:32
clockhere