Færslur: 2015 Desember
14.12.2015 21:07
"Er sólin hnígur .........."
Kæru skólasystkin!
Titillinn að fyrstu hugleiðingum þessa árs var: "Hvað boða nýárs blessuð sól ....?" Það er því við hæfi að líta í baksýnisspegilinn og enda árið með því að láta sólina hníga aftur til viðar! Ég hafði áhyggjur í upphafi árs af öllu því neikvæða sem fréttamiðlarnir drógu fram og mötuðu okkur á og hvatti okkur til að taka ekki þátt í þessu og sýna jákvæðni bæði í orði og verki. Ég vonaðist til þess að heyra meira í okkur á heimasíðunni eða á fésbókinni við að peppa hvert annað upp. Það hefur tekist mjög vel til hjá okkur í afmælisgeiranum því þar streyma nú inn hamingjuóskir og kemur sér örugglega vel hjá þeim sem mögulega voru að gleyma þessum merkilega degi. Þá hafa myndir einnig sett skemmtilegan svip á tilveruna og rifjað upp gamlar gleðistundir.
Næst barst talið að okkar fyrri matarvenjum og hreyfingu, en það var vegna þess að ég var orðinn uppgefinn á að tala fyrir sljóum eyrum og samtímis mæta kröfum nútímans um fullkomið heilbrigði. Ég var nefnilega að reyna að standa við upphafsorð mín að vera jákvæður og tala með uppbyggjandi orðum, en komst þá að því að það er ekki sama hvernig hlutirnir eru sagðir; þeir þurfa nefnilega að hljóma þannig að viðmælandinn bæði skilji það sem verið er að segja og einnig að honum falli það í geð. Annars flokkast orðin hreinlega undir hroka eða rangtúlkun á raunveruleikanum. Allavega virðist vera hægt að sleppa við kæru með því að ítreka nauðsyn þess að standa upp á milli máltíða.
Þá fór veðrið að fara fyrir brjóstið á mér sem öðrum. Það er hreint ótrúlegt hvað hægt er að slepp sér í að úthúða hlut sem við getum ekkert haft áhrif á öðru vísi en að "haga seglum eftir vindi", eins og forfeður okkar gerðu. Hversu oft höfum við ekki heyrt að það sé ekki til slæmt veður heldur bara slæm föt. Það er hins vegar ekki fyndið þegar Kári keyrir í 70m/s, því þá gáir hann ekki einu sinni að því hvort maður er í bláum eða orange galla. Ég hugleiddi mikið nú síðast þegar allir voru reknir inn í hús á meðan ósköpin gengu yfir: hvað var eiginlega hvasst þegar mamma batt mig og Guðfinnu systir saman með kaðli áður en við fórum í skólann. Einu varnaðarorðin voru þau að "ef þið byrjið að fjúka, reynið þá að lenda sitt hvoru megin við staurana"! Ég man hins vegar vel eftir svipnum á skóla-afa bak við gluggann á útidyrum Barnaskólans þegar hann með miklum handasveiflum og andlitsgrettum reyndi að koma okkur í skilning um að fara aftur heim; skrítið!
Loxins kom að því að við gætum heimsótt heimahagana á hverjum degi gegnum veðurmyndavélar. Ég sendi Birni yfirmanni Snerpu og Pétri Odds myndavélastjóra marga tölvupósta og bað um breytingar á sjónarhorni og gjarnan fleiri vélar því það væri heill árgangur að "taka púlsinn á tilverunni" og við sæjum stundum ekki alveg nógu vel fyrir sum hornin á húsunum! Viti menn, vélafjöldinn var tvöfaldaður fyrir okkur - nú vantar bara hljóðið !! Ef vel er að gáð, þá hefur veður lagast verulega á Ísafirði og fyrir vestan og íbúar eru farnir að hegða sér "öðru vísi". Tvennt sem vekur sérstaka athygli er að þeir sem eru akandi hægja á sér og þeir sem eru gangandi horfa svo stíft upp í myndavélina að hægt og bítandi eru þeir búnir að snúa sér við og ganga aftur á bak! Það nýjasta nýtt er að ef við veifum frá skjánum okkar, þá eru sumir sem veifa á móti. Þetta á þó ekki við alls staðar, t.d. á milli Silfurtorgs og Pósthússins er algengt að fólk sé með hettu á höfðinu og snúi sér frekar undan; veit ekki alveg af hverju - líklega er það byggingastíllinn eða mögulega vöruframboðið sem er meira aðlaðandi og þannig truflandi fyrir myndavélarnar.
Að lokum hóf haustið innreið sína með sínum marvíslegu áhrifum á bæði náttúru og menn. Ég hvatti okkur til að nýta landsins gjafir af berjum og slátri og undirbúa forðakisturnar fyrir veturinn. Ég er viss um að helmingur okkar tók áskoruninni því þeir eru aldir upp í þessum siðum og venjum og hafa geta viðhaldið hefðinni þrátt fyri hvað auðvelt er að fá hlutina bara tilbúna í búðinni. Ég frysti allavega lamb og sagaði í bita (allt löglegt) og var sigri hrósi yfir að standa við mitt, þó auðvelt væri. Svipaða sögu hafa örugglega þeir sem fóru á hreindýr, gæs og í fiskveiði og við segjum upphátt: "allt gefur þetta lífinu og tilverunni gildi". Hins vegar setur mann jafnmikið hljóðann og spyr tilveruna um tilgang þess að skólasystir sé hrifin frá okkur með óviðráðanlegum sjúkdómi. Minningin um hláturinn hennar vekur okkur hins vegar aftur til lífsins og minningin um faðmlagið hennar setur okkur aftur á 1954 sporið, sem er byggt á trausti og virðingu okkar til hvers annars.
Kæru skólasystkin! Er sólin hnígur og við horfum tilbaka, þá höfum við áorkað miklu af því sem við settum okkur í ársbyrjun. Nú er jólaundirbúningur á fullu og árið senn á enda eins og áður. Ég vil hvetja okkur til að hugleiða bæði liðnar stundir og hvað betur má gera og ekki síður nýtt á komandi ári. Það er t.d. ekki seinna vænna en núna að merkja inn næsta hitting okkar á Sólarkaffinu þann 29. janúar nk. Ég óska ykkur og fjölskyldum ykkar gleðilegra jóla og farsæls komandi árs með öllum þeim efndum sem við ætlum að standa við. Þá vil ég sérstklega þakka fyrir þá auknu þátttöku í allri umræðu sem átt hefur sér stað á árinu með ósk um að hún verði enn meiri með tímanum. Þessum hugleiðingum mínum til stuðnings, ætla ég að nota kvæði Hannesar Hafstein: "Er sólin hnígur"!
Er sólin hnígur hægt í djúpan sæ
og höfuð sitt til næturhvíldar byrgir,
á svalri grund, í golu þýðum blæ
er gott að hvíla þeim, er vini syrgir.
Í hinstu geislum hljótt þeir nálgast þá,
að huga þínum veifa mjúkum svala.
Hver sælustund, sem þú þeim hafðir hjá,
í hjarta þínu byrjar ljúft að tala.
Og tárin, sem þá væta vanga þinn,
er vökvan, send frá lífisins æðsta brunni.
Þau líða eins og elskuð hönd um kinn
og eins og koss þau brenna ljúft á munni.
Þá líður nóttin ljúfum draumum í,
svo ljúft, að kuldagust þú finnur eigi,
og, fyrr en veistu, röðull rís á ný,
og roðinn lýsir yfir nýjum degi.
Skrifað af HJjr
- 1
Flettingar í dag: 13
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 87
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 214817
Samtals gestir: 38843
Tölur uppfærðar: 24.12.2024 04:26:32
clockhere