30.11.2014 10:36

Hver byrjaði með: "Gleðileg jól ........"?

Kæru skólasystkin!

Fyrirsagnir fjölmiðla eru einróma um að í dag sé 1. sunnudagur í aðventu og jólin því að nálgast. Á Wikipediu stendur að "aðventa í Kristni sé fjórir síðustu sunnudagarnir fyrir jóladag - og ef jóladag ber upp á sunnudegi, þá teljist hann til þess fjórða". Jólahátíðinni fylgir nú orðið mikill undirbúningur til þess að gleðja aðra og sjálfan sig, en upphafleg ætlunin var að minnast fæðingu frelsarans. Í fyrstu var það gert með hátíðarmat og drykk, en síðar bættust við gjafir og kveðjur með margvíslegum hætti. Hver kannast ekki við þá erfiðleika að "orða sig rétt", þegar verið er að velta fyrir sér textanum í jólakortið eða í rafmiðlana eins og nú tíðkast meir og meir. Það sem vefst meira fyrir mér er eiginlega: hvenær má fyrst byrja að segja "gleðileg jól" og síðan hvað lengi eftir jólin, en í síðara skiptið grípa margir til þess að segja "gleðilega hátíð eða "gleðilega rest"!

Þegar litið er til ársins í heild eru jólin örugglega tími mestra tilfinninga hjá öllum aldurshópum nema kannski yngsta og elsta. Þetta er tími sem allir vilja vera saman, þar sem liðinn stund eða tímar eru rifjaðir upp og því mikið af minningum sem hrannast fram. Þetta er líka tími sem bæði hristir upp í og einnig sameinar fjölskyldu og ættarbönd .......... og ekki veitir af í dag! Jólin eru líka tími til að minnast og minna á hluti, bæði góða og ekki góða, sem þó sumir ýta til áramótanna til að geta byrjað nýja árið með "hreinum huga" eða "hreinu borði"!

Eins og ég hef keppt að í gegnum árin með umræðuna á síðunni okkar er að "þjappa okkur saman" eins og 1954 fjölskyldu. Ég tel að þó við séum ekki endalaust að tala saman, þá muni mikið um allar góðar hugsanir - bæði hljóðar sem upphátt - sem beinast til okkar hvar sem við erum stödd. Ég gleymi ekki ennþá (vonandi þó á elliheimilinu) einu atviki í vinnunni - sem ég kalla "að ég varð fyrir" á Þorláksmessu fyrir mörgum árum. Það var búið að vera mikið at um haustið í að stytta biðlistana eftir gerviliða aðgerðum og jólin að detta á með mikilli tilhlökkun. Þegar ég er að hlaupa út úr dyrunum til að ná aðeins í búðir í lok dagsins. þá vindur starfsmaður sé að mér og segir mjög reiðilega: "ég vona að þú eigir ömurleg jól"! Ég vissi á þessu augnabliki ekki réttasta svarið eða hvort ég ætti ekki að svara heldur gera eitthvað; ég náði svo ekki að gera eða segja neitt, því hann hljóp á dyr og út. Það einkennilega (eða kannski ekki einkennilegt) var að þetta truflaði mig við jólainnkaupin og um öll jólin - það varð einhvern veginn allt öfugsnúið og óskemmtilegt. Eftir helgina fór ég beint til hans, tók utan um hann og þakkaði honum fyrir að vera frábær. Hans fyrstu viðbrögð voru, hvort hann hefði sent mér eða gefið mér eitthvað "í misgripum", m.ö.o. þá mundi hann greinilega ekki eftir því sem hann hafði hrópað til mín á Þorláksmessu. Þó ég viti ennþá ekki hvers vegna þessi orð voru sögð og gerandinn ennþá síður, þá meiddu þú ótrúlega mikið og ótrúlega lengi eftir á.

Allar götur síðan hef ég borið mikla virðingu fyrir þeim sem fann upp á þeim sið að segja óspart þessi tvö einföldu orð "gleðileg jól" á þessum tímamótum. Til viðbótar þessum orðum hafa menn komið með og bætt við margvíslegum þökkum fyrir samverustundir eða gjafir á líðandi ári sem og óskir um að það næsta verði gott og helzt ennþá betra en það gamla. Þannig tel ég miklu máli skipta hvernig við tjáum okkur við hvert annað og aðra, því eins og biblíutextinn segir "er orðið okkar beittara hverju tvíeggjuðu sverði". 

Kæru skólasystkin! Ég óska ykkur og fjölskyldum ykkar gleðilegra jóla og hátíðar með miklu þakklæti fyrir allt ykkar framlag á árinu sem er að líða. Ég bið ykkur Guðs blessunar og varðveizlu bæði nú og á komandi ári með ósk um að við getum áfram notið tengsla og samvista hér á síðunni sem og á komandi hittingum. Orðum mínum til stuðnings ætla ég að vitna í ljóð Steingerðar Guðmundsdóttur, "Á aðventu".

Í skammdegismyrkri
þá skuggar lengjast
er skinið frá birtunni næst
ber við himininn hæst.

Hans fótatak nálgast
þú finnur blæinn
af Frelsarans helgiró -
hann veitir þér vansælum fró.

Við dyrastaf hljóður
hann dvelur - og sjá
þá dagar í myrkum rann
hann erindi á við hvern mann.

Þinn hugur kyrrist
þitt hjarta skynjar
að hógværðin býr honum stað
þar sest hann sjálfur að.

Og jólin verða
í vitund þinni
að vermandi kærleiks yl
sem berðu bölheima til.
Flettingar í dag: 170
Gestir í dag: 122
Flettingar í gær: 61
Gestir í gær: 15
Samtals flettingar: 122287
Samtals gestir: 25773
Tölur uppfærðar: 21.5.2024 19:50:52
clockhere