06.01.2013 21:08

Rigning .............

Kæru skólasystkin!

Það hefur mikið rignt að undanförnu, bæði utan húss og inni í okkur. Hver lægðin á fætur annarri hefur dunið á landinu okkar rétt eins og í byrjun síðastliðins hausts. Á annan dag jóla byrjaði hins vegar að rigna inn hópnum okkar þegar ástkær Katý okkar kvaddi þennan jarðneska heim eftir nokkurra ára baráttu við illvígan sjúkdóm. Ég hefði getað sagt: "játaði sig sigraða", en það gerði hún í raun aldrei - því hún var baráttukona frá fyrsta degi sem sjúkdómurinn greindist. Eins og ég sagði í minningargreininni, þá lét hún hann aldrei verða að vandamáli, hversu harkalega sem hann réðist að henni. Hún brosti jafnan breitt og var æðulaus; hún missti aldrei sjón á gildum lífsins. Katý var félagslynd að eðlisfari og ræktaði stöðugt bæði vini og fjölskyldu. Hún var líka vinnusöm bæði utan sem innan heimilisins, þótt sjúkdómurinn sækti að úr öllum áttum.  Hún missti aldrei trúnna á læknavísindin þó hún hafi aðeins skilið helminginn af því sem sagt var við hana, enda stundum ekki fyrir heilvita mann að skilja þetta allt saman ........, sérstaklega ekki þegar dauðinn hefur betur ......, því hann kemur jú alltaf  óvænt á þessum tíma lífsins ............! Á slíkri stundu er nauðsynlegt að gráta og láta rigna inn í sér......

Fyrir tveimur árum síðan grétum við einnig sárt andlát Mumma Þórs. Hann var vélstjórnarkennari við Menntaskólann á Ísafirði. Á sama degi og Katý var jörðuð var opnuð Fab Lab nýsköpunarsmiðja sem var nefnd í höfuðið á honum, Guðmundarsmiðja. Því má með sanni segja að rigning okkar sem og annarra ber ríkulegan ávöxt. Því er ég sannfærður um að rigningin eftir hana Katý eigi einnig eftir að leiða gott af sér með því að við höldum nafni hennar og lífssýn hátt á lofti áfram.
 
Framundan er ennþá skammdegi, þó svo að daga sé farið að lengja og birta að aukast. Fólk lætur þennan tíma fara misjafnlega illa í sig eða skapið á sér. þeir sem hafa möguleika á, stytta tímann til páska með margvíslegum hætti eins og að stunda ræktina eða fara í utanlandsferðir. Aðrir elta uppi mannamót eins og árshátíðir og þorrablót til að rifja upp óendanlega mikla vinnugleði og ómissandi "mat" sem var á borðum forfeðra okkar áður en ísskápur og frystikista var fundin upp. Þrátt fyrir fráfall Katýar, ætlum við "Ísafjarðarpúkar 1954" að fjölmenna á Sólarkaffi Ísfirðingafélagsins til að nuddast saman og rifja upp okkar fyrri stundir í bæði gleði og rigningu ......., því (eins og sagt er) "það hefði hún viljað"! Það verður allavega auðveld upprifjun af okkar hálfu, því þar mun stíga á stokk (eða í ræðustól) einn úr okkar hópi, sjálfur Hrólli skipstjóri. 

Þegar litið er tilbaka, þá er Katý sú 7-unda sem yfirgefur okkar 80 manna árgangshóp. "Þetta nær engri átt", sagði Konni í erfidrykkjunni sl. föstudag; "hvar er Guð eiginlega"? Presturinn sagði: " hann er allt um kring og nú er hún Katý okkar hjá honum, læknuð meina sinna og laus við allar þjáningarnar"! og þar sem við erum kristin, þá skildum við þessa staðfestingu séra Vigfúsar og öllum virtist líða betur á eftir. Alla vega þornaði rigningin upp sem var innra með okkur í útförinni og við náðum smán saman áttum á ný á meðan við sötruðum kaffið og meððí og kættumst smá yfir þessum stutta endurfundi. Já, við vorum 17 systkini mætt til að kveðja í þetta sinn. Það hlýjaði okkur í rigningunni hvað 1954 luktin "okkar" með áletruðum skildi sómdi sér vel við kistugaflinn; ég er viss um að það heyrðist þaðan barátturödd "að hætta þessu snökti, því það styttir alltaf upp um síðir  ........"!

Kæru skólasystkin. Ég bið ykkur að taka þessi orð alvarlega - það er í anda Katýar og þannig höldum við merki hennar, brosmildi og æðruleysi, á lofti. Orðum mínum til stuðnings vitna ég að þessu sinni í kvæðið "Rigning" eftir Einar Benediktsson.

Hver er sem veit, nær daggir drjúpa,
hvar dafnar fræ, sem ná skal hæst.
Hver er sem veit, nær knéin krjúpa
við kirkjuskör, hvað Guði er næst.

Fyrst jafnt skal rigna yfir alla,
jafnt akurland sem grýtta jörð, - 
skal nokkurt tár þá tapað falla,
skal týna sauði nokkur hjörð?

Hver er að dómi æðsta góður, - 
hver er hér smár og hver er stór?
- Í hverju strái er himingróður,
í hverjum dropa reginsjór.

08.12.2012 16:27

Til hvers "gengur aðventan í garð" ........... ?

Kæru skólasystkin!

"Jæja, þá er aðventan gengin í garð .........."! Hvað, er einhver úti í garði? Það er ekki nema von að yngra fólk spyrji í dag hvað/ hvert við séum eiginlega að fara með slíku orðalagi, sem er notað í minna mæli en áður á þessari öld rafrænna viðskipta og umgengni.

Það má vel vera að einhver sé út í garði, en með þessu er átt við að nú séu aðeins fjórar vikur til jóla. Þetta er heiti á tímabili sem hefst fjórða sunnudag fyrir jóladag og stendur yfir í 4 vikur og "er ætlaður til undirbúnings fyrir komu frelsarans og til að minnast fæðingu hans". Þessi tími var áður kallaður jólafasta, en þá var það kaþólskur siður að fasta síðustu vikurnar fyrir jól. Í er þessum tíma mjög misjafnlega varið; sumir eru í hugleiðingum, aðrir setja upp aðventuljós og kransa og enn aðrir eru á fullu í jólagjafakaupum og að skrifa jólakort til útlanda.

Ég man eftir því frá skólaárunum á Ísafirði hvað þessir dagar lengdust eftir því sem nær dró jólunum og þó að við lentum ekki beinlínis í undirbúningi fullorðna fólksins, þá skynjuðum við hvernig spennan magnaðist og hraðinn á öllu jókst, nákvæmlega eins og í dag. Ég man aldei eftir því þá og hef ekki tekið eftir því nú að fólk væri sérstaklega að undirbúa jóldaginn sjálfan. Þessi tími hefur frekar verið nýttur til að gera hluti sem ekki hafa náðst yfir árið og síðan til að redda öllum jólapökkunum og ekki gleyma öllum matnum, því hvorki megum við fara í jólaköttinn eða svelta.

Það sem ég sakna mest að vestan úr þessum undirbúningi okkar krakkanna, eru allar "verslunarferðirnar" sem við fórum til að safna drasli á brennuna. Þetta var nú ekkert smávegis basl að draga þetta á sleða og kerrum sem við fengum lánaðar úr Neista, Jónasarbúð og Apótekinu. Ég man líka eftir sigurvímunni sem fór um okkur þegar kveikt var í og við kvöddum árið með stæl í Hlíðinni "okkar"! Þannig var í raun "okkar" adventa.

Í dag förum við ekki varhuga af afleiðingum svokallaðrar kreppu. Í stað undirbúnings er mikil spenna í þjóðfélaginu, ekki minnst inni á vinnustaðnum mínum, þar sem mikið er um uppsagnir og óvissu. Inn í þetta blandast öll óvissan um framtíð landsins okkar. Ef ekki nú, þá veit ég ekki hvenær við ættum að hjálpast að til að "gíra niður" og hugsa til fyrri ára og tíma og minnast þess að jólin komu nú alltaf á sama tíma, óháð því hvort við höfðum baslað mikið eða lítið í undirbúningum. 

Kæru skólasystkin. Ég vil hvetja okkur til að nýta aðventuna til góðra athafna eins og áður, en einnig til að hugsa vel til hvers annars og veita þannig styrk og hugarró inn í allra kringumstæður. Ég hef sagt það áður að tíminn okkar núna líður miklu hraðar en áður og hver líkamsfruma er eldri og úthaldsminni og þannig auðveldari bráð fyrir beyglum og skakkaföllum lífsins. Þannig er hver mínúta lífs okkar nú dýrmætari og verðmætari og okkur í (sjálfs)vald sett að fara vel með.

Ég óska ykkur, fjölskyldum ykkar og vandamönnum Gleðilegra jóla og farsæls komandi árs! Ég þakk ykkur einnig fyrir "rafræna spjallið" sem við höfum átt á líðandi ári. Orðum mínum til stuðnings ætla ég að vitna í ljóð Steingerðar Guðmundsdóttur, "Á aðventu"!  

Í skammdegismyrkri
þá skuggar lengjast
er skinið frá birtunni næst
ber við himininn hæst.

Hans fótatak nálgast
þú finnur blæinn
af Frelsarans helgiró -
hann veitir þér vansælum fró.

Við dyrastaf hljóður
hann dvelur - og sjá
þá dagar í myrkrum rann
hann erindi á við hvern mann.

Þinn hugur kyrrist
þitt hjarta skynjar
að hógværðin býr honum stað
þar setst hann sjálfur að.

Og jólin verða
í vitund þinni
að vermandi kærleiks yl
sem berðu bölheima til.

03.11.2012 21:00

Virðing er ekki meðfædd ........

Kæru skólasystkin!

Um daginn varð að veruleika sá langþráði  draumur að þeysast á mótorhjóli með Maríu í útlöndum. Við fórum með hagvönum vinum okkar til Orlando og ferðuðumst um á Flórída. Ég var búinn að vera þar áður og lenda í hremmingum, sem gerði endurminningar og frásögn þeirrar ferðar mjög leiðinlegar. Þá var búið að vara mig við umferðarmenningunni og sérstaklega trukkunum sem væru frekir og tillitslausir. Það var mikil spenna í loftinu þegar við mættum í Harley búðina til að ná í hjólin. Þegar ég stóð frammi fyrir síðhærðum, síðskeggjuðum, krosskeðjuðum afgreiðslumanni girtum hausarasveðju reyndi ég að vanda málfar mitt með fyrsta orðinu og rétti einnig fram hendina til að staðfesta að ég kæmi með friði. Hann horfði þannig á mig að ég vissi strax að fyrsta landið sem kom upp í huga hans var Mars. Til allra hamingju höfðum við prentað út pöntun okkar og samvinnan milli okkar jókst. Eftir klukkustunda yfirheyrslu, skriffinnsku, tölvuskráningu, ljósritun og undirritanir á leigusamningi, tryggingasamningi og greiðslustaðfestingu lyfti hann krepptum hægri hnefa. Það var mér til happs að kunna ennþá þetta atriði frumskógarlögmálsins, því með eldsnöggu hnefahöggi á móti var hjólasamningurinn innsiglaður með virðingu ...... 

Þegar ég sá splunkunýtt hjólið fór ég að skilja alvarleika samningins og hjarta mitt fór að mýkjast. Eftir að hafa dáðst að morgunrakstrinum í öllu króminu var farið að hlaða dóti í töskur og GPS á stýrið. Hjartað sló hratt á meðan hjólin runnu á stað um hverfið með stefnu á fyrstu hraðbrautina. Úti á aðreininni var ljóst af hraða umferðarinnar að hér var ekkert tilboð á "sorry - never been here before"! Í einni svipan þeyttust fákarnir inn í umferðarsogið sem var eins og beljandi jökulá. Þvílíkur urmull af bílum sem allir voru að flýta sér. Þegar við vorum búin að skanna inn umferðina á undan okkur var þar mikið af mótorhjólum af öllum gerðum sem og stjórnendur þeirra. Þrátt fyrir fjölda, hraða og margbreytilega einstaklinga var eins og allir færu þar fram með virðingu .......... 

Ups; nú var friðurinn skyndilega rofinn því ég sá í speglunum hvernig einn risatrukkurinn nálgaðist. Hann staðfesti skoðun sína á mér með því að blikka ljósunum. Í sömu andrá þeyttist mótorhjól framhjá okkur og ökumaður og farþegi stungu út höndunum og gerðu V með vísifingri og löngutöng. Ég sá fyrir mér hnefa afgreiðslumannsins sem ég fékk við samningslok sem "gentlemans agreement"! Við skiptum um akrein og trukkurinn rann upp að hlið okkar. Við settum bæði út hendi með V-fingur og fengum þá rokna lúðurhljóm tilbaka. Þar með var tilvera okkar með trukkakarlinum staðfest með virðingu .........  

Að kvöldi dags var þægilegt að matsölustaðurinn var handan við hótelið okkar. Þegar ég kom inn um dyrnar vorum það ekki við sem héldum dyrunum opnum fyrir hvort öðru heldur maðurinn sem fór inn á undan okkur. Þar var biðröð og var okkur boðið í hana með "please sir"! Maturinn rann ljúflega niður eftir þennan fyrsta dag okkar "on the road"! Það skemmdi ekki fyrir þegar við gengum út að kallað var á eftir okkur: "good night guys"! Ferðin gekk vel og það skyggði ekkert á þetta viðmót sem við kynntumst á fyrsta degi og upplifðum allan tímann ..............

Í ljósi fyrri reynslu minnar og þeirrar aðvörunar sem ég fékk gagnvart trukkum, varð mér tíðrætt um þá virðingu sem við mættum. Vinir mínir staðfestu að þetta væri almennt viðmót og ekki bara sparihegðun gagnvart ferðamönnum. Eftir heimkomuna varð mér þetta enn meira umhugsunarefni, því staðfesting á virðingu okkar gagnvart næsta manni hrundi í fyrstu matarinnkaupunum á Íslandi. Ég leitaði því í smiðju Gunnars Hersveins, en hann segir í bók sinni Gæfuspor um kosti okkar og galla: "Virðing er að umgangast aðra með tillitssemi, þekkja rétt annarra og kunna að meta hann. Hún er án hroka og felst í því að bera sigurorð af græðginni og skeytingarleysinu, sem er andstæða virðingarinnar".

Kæru skólasystkin. Af framansögðu má sjá að mótorhjólaferðin okkar var ekki bara ævintýri og upplifun á öðrum menningarheimi, heldur einnig lærdómur á hvernig hægt er (þrátt fyrir útlitið) að umgangast hvert annað með kurteisi og virðingu og ekki með "víkingasiðum"! Sannleikurinn er sá að virðing er ekki meðfædd, heldur numin eins og aðrar dyggðir. Virðing er megingildi í mannlegum samskiptum, en hún kemur ekki af sjálfu sér, það þarf að rækta hana! Ég vil því hvetja eitt og sérhvert okkar til að endurskoða hversdaginn og bæta þessum skemmtilega náungakærleik inn í lífið og tilveruna. Orðum mínum til áréttingar ætla ég að vitna í ljóð Tómasar Guðmundssonar, "Rödd úr draumi":

Það kemur sú stund, er haustið um hug þinn fer
og hraðfleygu sumri tekur óðum að halla,
að rödd úr draumi þér óvænt að eyrum ber
og ásakandi þér virðist á sál þína kalla.

Samt spyr hún ekki um afrek, sem fáum er fært,
og fæst því síður um völd og skammlífan hróður:
"En kjósirðu að vinna góðverk, sem Guði sé kært,
þá gakk þú aldrei fram hjá nauðstöddum bróður".

Og ennþá niðdimm nótt yfir öllu lá.
En næsti dagur? Hvort færðu með honum ratað
á veginn, sem ungur þú villtist í gáleysi frá?
Þar væntir þín ennþá líf, sem þú hugðir glatað.

30.09.2012 18:55

Áleiðis ............

Kæru skólasystkin!

"Áleiðis" er einfaldlega að halda áfram, að komast áfram, að miða áfram, að líða áfram, að þokast áfram .............! Þannig fer tíminn áfram með okkur í öllu; nema stundum getur líðan verið óbreytt og samningaumræður um laun geta farið (og fara oftast) í algjöra kyrrstöðu. Okkur hefur hins vegar miðað áleiðis eða áfram inn í haustið sem skall á með þvílíkum hvassviðris og kulda lægðum að það hálfa hefði verið nóg. En þar sem við tökum öllum hlutum með stæl, þá er ekkert verið að valsa með einhverjar smálægðir, heldur bara alvöru lægðir. Það fyndna er, að ef rólegheit eru í pótlitíkinni, þá tekur fólk meira eftir veðursviptingum og öfugt. Í þetta sinn snerust hausthlutirnir (allavega á mínum vinnustað) um launakjör og berjatínslu. Hvorutveggja bar brátt að og lauk einnig mjög skjótt.  Það fer ekki lengur leynt hvað fólki finnst um lífið og tilveruna og er greinilegt að efnahagskreppan hefur breytt lífssýn fólks til þess að meta sjálft sig, fjölskyldu sína og vini að meiri verðleikum en áður. Það er óhætt að fullyrða að það sé einn af jákvæðum þáttum "kreppunnar". 

Í dag hafa sumir borið betur úr bítum og aðrir síður eða ekki. Stöðuna verður hver og einn að meta fyrir sig og sína og fá eða leita lausna sem til eru í sérhverju tilviki. Oft geta kringumstæður litið vonlausar út og lausnir engar í augsýn, en tíminn liður  og við þurfum að halda áfram og áleiðis að marki sem er nauðsynlegt í öllum tilvikum. Á vinnustaðnum mín kom lausn inn í umrædda kjarabót með afturköllun á launatilboði og berjatínslunni lauk með fyrsta næturfrostinu og þannig hélt starfið áleiðis ......

Með haustinu kemur einnig myrkrið sem lætur okkur upplifa að tíminn líði hægar og geri þannig leiðinlega hluti erfiðari úrlausnar. Í slíkum kringumstæðum hefur skólasystir okkar séra Agnes bent okkur á að taka fram bænir sem flest okkar hafa lært í "föðurhúsum" og ef ekki, þá veit ég að hún myndi fúslega hjálpa okkur til að kynnast þeim betur og læra að nota þær eins og hún hefur gert með þeim árangri að hún hefur komist vel áleiðis ........

Á unglingsárum okkar viljum við að tíminn líði hraðar, án þess að vita í raun hvað það þýðir annað en að við verðum fyrr fullorðin og fáum þá að gera "allt mögulegt"! Ég er sannfærður um að við höfum öll fundið fyrir þeim tímamótum að vilja hægja á klukkunni, því allt í einu snýst hún einfaldlega of hratt. Ég stend mig að því sérstaklega núna að hreinlega stoppa tímann. Það gerist með því að setja armbandsúrið í vasann, stoppa tikkið í verkjaraklukkunni með því að taka út batteríið, slökkva á sjónvarpinu áður en fréttir byrja ogsetja fréttablaðið ólesið í bunka. Engu að síður ber tíminn okkur áfram og áleiðis .........

Kæru skólasystkin. Hvort sem við viljum, þá heldur tíminn alltaf áleiðis, óháð því hvernig við reynum að sporna við honum. Ég vil því hvetja ykkur til þess að vera frekar vakandi en sofandi og full tilhlökkunar í stað kvíða fyrir tilgangi tilveru okkar sem í öllum tilvikum mun þjóna ávkeðunum tilgangi og koma lífinu áleiðis ...........
Orðum mínum til stuðnings vitna ég í ljóð Hannesar Péturssonar, "Áleiðis"!

Haustkvöld. Langvegir.
Ljósafjöld sveitanna slokknuð
og allt þagnað
nema einn lækur
einn hestur sem þræðir
beinan stíg
og ber mig í dimmunni
yfir heiðalönd feðra minna
til fjarlægs staðar.

Engu þarf að kvíða.
Nú kular úr opnum skörðum
og lækurinn hljóðnar
í lautunum mér að baki.
Engu þarf að kvíða
klárinn fetar sinn veg
stefnir inn í nóttina
með stjörnu í enni.

01.09.2012 09:21

"Sjá, dagarnir líða ......... "

Kæru skólasystkin!

......., en til hvers eru haustin? - muniði hvað það var alltaf mikið stúss og at á þessum tíma og er kannski enn, en öðru vísi? Ég man það kannski sérstaklega vel, því mér varð svo illt í bakinu af þessu öllu saman; taka upp kartöflurnar, þvo þær og ganga frá; tína berin og hreinsa; svíða kindahausana, saga þá, hreinsa út heilann, pakka í Moggablað og fara með í frystihólfið. Frystiklefinn var líka ógnvekjandi - hvað ef hurðin skellur í lás og ég inni ?? Það var miklu skemmtilegra að smala og draga í dilka og hugsunin náði ekki lengra ....... !

Ég veit ekki hvort þar var flutningurinn að heiman og þar með breyttir siðir og venjur eða leiðinlegar minningar sem gerðu að þessum hlutum var ekki viðhaldið eða vaktir til lífs þegar aðstæður leyfðu það aftur. Mögulega hafa þjóðfélagsaðstæður þar eitthvað að segja og kannski minnkuð þörf eða hvöt til að draga björg í bú. Minningarnar tengjast allavega bara endalausum annatíma.

Nýlega gafst mér tækifæri til að fara á mínar fyrstu gæsaveiðar og síðar einnig á rjúpu. Ég furðaði mig á hvað allir voru spenntir eftir afrakstrinum og ekki síður að fá fyrsta smakkið; voru þetta kannski bara eðlileg viðbrögð við þeirri viðleitni að búa sig undir veturinn með nægum mat eða ....? Það reyndist því auðsótt að fá leyfi til að fara einnig í smölun til að endurgreiða veiðiréttindin.

Þarna gafst góður tími til að aftengjast borgarþysinu og stilla inn á "móðir líf". Hlaupandi á heiðinni (Tröllatungu), hóandi og geltandi, rákum við kindur og lömb til byggða og í tún sem var endastöð lífs þeirra. Sama var uppi á teningunum þegar við földum okkur í skurði, með gargandi flautu til að lokka gæsina í tún sem einnig var endastöð lífs þeirra. Allt í einu spyr maður sig: "er þetta bara eðlilegur gangur lífsins, var þetta löngu ákveðið eða var þetta ákveðið hér og nú"? Eitt er víst að lífið og dagurinn er raunveruleikinn, sem hvorutveggja tekur sinn enda.

Kæru skólasystkin. Tíminn líður stöðugt, í fyrstu allt of hægt en síðan allt of hratt. Öllum okkar er ætlað ákveðið hlutverk og vil ég hvetja hvert og eitt okkar 1954-inga til að sýna það og sanna að við stöndum okkar "plikt" í því hlutverki sem við höfum verið sett til að sinna! Orðum mínum til stuðnings vil ég af þessu tilefni vitna í ljóð Tómasar Guðmundssonar, "Sjá, dagarnir líða".

Sjá, dagarnir líða, í leiðslu vér hlustum
á laufið, sem hrynur um aldanna skóg
og leggst yfir stofnana sterku,
sem stormur og dauði til jarðar sló.
En þó að þeim visni hvert bjarkarblað
þá blómgast oss önnur í þeirra stað.
Því áfram skal haldið og aldrei þagnar
hin eilífa hrynjandi lífsins,
sem ymur um aldanna skóg.

Við hverfula daga mörg blekking oss bindur.
Þó býr oss í hjörtum sú eilífðarþrá,
er leitar sér hljóðs og rís hærra
en heimsdýrð og jarðneskar óskir ná.
Hún stefnir frá glötun og harmi heim,
og hvort skjal hið dauðlega miklast þeim,
sem leita handan við hrun og myrkur
þess himins, sem vakir og kallar
í aldanna eilífu þrá?

Sjá, laufið hrynur, en lífið er eilíft.
Lát lindirnar hníga í dimman sjó.
Því eitt sinn vor kynslíð skal eignast
í aldanna skóg sitt bergmál þó.
Ó, megi það hljóma sem heilagt ljóð,
er himninum blessar vort land og þjóð
og nýrri og fegurri veröld vísar
á veg hinna eilífu stjarna,
er skín yfir aldanna skóg.

11.08.2012 10:46

Vaknaðu, vaknaðu - hvar hefur þú verið .....?

Kæru skólasystkin!

Vaknaðu, vaknaðu - hvar hefur þú verið? Hafa ekki allir verið í einhvers konar "sumarfríi". Já, það er misjafnt hvernig þessi tími er skipulagður eða "tekinn" og svo hvernig hann er bara allt í einu er búinn :)) Í fyrrasumar fór mikill tími í viðhald heimafyrir sem flestir þurfa að gera. Í sumar fórum við til Västerås og Uppsala til að "taka út" spítalana sem við unnum við; ég þurfti líka að ræða við nemendur sem fara frá mér til framhaldsnáms í sérgreininni. Báðir staðirnir taka stöðugt breytingum, mest þó Västerås, en þar má sjá afrakstur góðæris eins og á Íslandi með uppbyggingu við sjávarsíðuna með skýjakljúfum og veitngastöðum. Það sem okkur brá þó mest við að uppgötva að það voru 30 ár síðan við mættum á staðinn eða 7. maí 1982. Við klipum svo sannanlega í handlegginn á hvort öðru og sögðum: "vaknaðu, vaknaðu - hvar hefur þú verið"? Við uppgötvuðum þá líka að nú voru liðin 20 ár frá því við fluttum aftur heim frá Uppsala eða 10. september 1992. En hvað er það sem bindur okkur svona sterkum böndum við slíka staði að þeir draga mann stöðugt til sín bæði í huga og í verki. Að hluta til eru það "æsku" minningar sem eru það góðar og ljúfar að þær rifjast stöðuglega upp - hitt er fólkið sem við kynntumst, Svíarnir - nágrannarnir ("grannarna") sem við erum í sambandi við amk mánaðarlega á báðum stöðunum. Þetta minnir mig stöugt á málsháttinn: "Að eignast vin tekur andartak; að vera vinur tekur alla ævi"! Við gerum okkur í raun ekki grein fyrir hvað tíminn okkar líður hratt, 20 ár - 30 ár og það var eins og í gær. Fyrr en seinna þurfum við að láta staðar numið í hringiðu tilverunnar og hlúa að þeim gersemum sem við eigum í fjölskyldunni, vinum og vandamönnum. Staðan er eðlilega misjöfn, en byrjunin er aldrei of sein. Það fyrsta og helsta sem laðar einstaklinga til eða að hverju öðru og gerir vinskapinn eftirsóknarverðan er kærleikur til hvors annars eða "kærleikur til náungans" (eða nágrannans)! Það fór hrollur - unaðshrollur um mig þegar ég stóð þarna á höfninni með "grannanum" okkar sem var ennþá hjartans vinur okkar eftir allan þennan (svo stuttan?) tíma.

Kæru skólasystkin - vaknið, vaknið, hvar hafið þið verið? Tökum stöðu okkar og skipuleggjum okkur, því hver mínúta er öllum dýrmæt. Sumar (frí) ið er á enda og haustið að hefja innreið sína; skipuleggjum okkur og höfum fjölskyldu, vini og vandamenn í fyrirrúmi áætlunar um kærleika til þeirra sem í kringum okkur eru hverju sinni  ...........
Orðum mínum til staðfestingar vil ég vitna í ljóð Snorra Hjartarsonar, "Vaknaðu"!

Vaknaðu sungu vængir dagsins inn
í vökudraum minn, sjáðu! heiminn þinn
sem liðin veröld lét í hendur þér
og líf þitt, sál þín skóp, er brot af mér,
því ég er er allt; í andartaki því
sem er að líða fæðist þú á ný
í nýjum heimi, gríptu mína gjöf
með glöðum huga. ég á stutta töf;
já vaktu! því að allt er aðeins nú
og allt er hér, í mér; og ég er þú!   

17.06.2012 09:08

"Mig langar til að spyrja þig, löngu horfna kona ........ "

Kæru skólasystkin!

Í dag er 17. júní, þjóðhátíðardagur Íslendinga (okkar). Ég ætti því að hlaupa út til að fagna .......... :) Ég tek bakföll í dyrunum, því úti er kallt, hvasst og rigning; ég er líka annars hugar eftir ferð til Ísafjarðar um Sjómannadagshelgina sem er notalegri í upprifjun innandyra. Ferðalagið var hefðbundin akstursleið um Dalina, Strandir og Djúpið, en þar sem með í för var barnabarn, litast umræðan í bílnum af minningum liðins tíma. Frásagan byrjar um leið og Djúpið blasir við frá Steingrími, en þungalesturin hefst í Ögurnesinu og við Litla-Bæ í Skötufirði og linnir ekki fyrr en barnið nær að forða sér út úr bílnum þegar hann stöðvast upp á Engjavegi. 
    Næsta dag, sem er laugardagur, berst mikill hávaði frá höfninni og Pollinum. Þar eru sjómenn að skemmta sér og yngri kynslóðinni því á morgun er Sjómannadagurinn og "hann höldum við hátíðlegan"! Mér fannst þetta mjög merkileg yfirlýsing og var að velta fyrir mér hvað þetta þýddi í dag á þeirra máli. Barnabarnið vildi nú ólm komast niður í bæ. Þegar við stormuðum út í "góða veðrið" og út Engjaveginn kom ískaldur strengur beint ofan í hálsmálið svo ég stoppaði og greip báðum höndum til að renna betur upp. Eitthvað hægði ég of mikið á göngunni við þetta á meðan ég skimaði í kringum mig og sá snjó í fjöllum allt í kring og beljandi læki í hlíðunum, því barnabarnið togaði mig áfram til að komast á þangað sem hún ætlaði sér. Ég var svo upptekinn af höfninni að ég var ekki með á nótunum hvert hún var að toga mig fyrr en hún benti mér á leikvöllin á gamla bílastæðinu við Kaupfélagið. Það vildi til að leiktækin voru hvert öðru skemmtilegra því þarna stóð afinn álengdar í pössunarhlutverkinu, á meðan að hugur hans fór á vit minninganna frá þessu leiksvæði skólaáranna.
    Sjómannadagurinn rann upp "ægifagur" - logn, heiðskýrt, sól og hlýrra en í gær. Við fórum til Sjómannadagsmessu í kapellunni í Hnífsdal, til að vera viðstödd fermingu bróðurdóttur minnar. Það var ekki fyrr en við þrumandi ræðu sr. Magnúsar að ég vaknaði til vitundar um mikilvægi stundarinnar og minninganna. Hann talaði eins og innfæddur um tilurð kapellunnar og tengsl hennar við skólann og uppbyggingu byggðarlagsins og sjómennskunnar þaðan. Hann kom eðlilega inn á þá báta og sjómenn sem höfðu farist og að við ætluðum að heiðra minningu þeirra í dag með helgihaldi og söng og að lokum ganga í kirkjugarðinn og leggja blómsveig að leiðum þeirra og minnismerkjum. Nú fór ég að skilja betur hvað sjómenn meintu með að halda daginn hátíðlegan.   
    Kirkjugarðurinn er einstaklega fallegur á að líta. Standandi á þessum minningareit í blankalogni og með útsýni yfir rennislétt Djúpið og með snæviþökkt fjöllin allt í kring, er erfitt að trúa því hvað átt hefur sér stað þarna úti fyrir, nema að líta á nafnspjöld og heyra aftur minningarorð prestsins. Það er á slíkri stundu sem hugurinn reikar enn og aftur á vit minninganna og í þetta sinn til horfinna ástvina. Það vildi því enn og aftur vel til að hér voru einnig "skemmtileg leiktæki", því barnabarnið var fljót að uppgötva vatnskönnuna ........."til að gefa blómunum (á leiðunum) sem voru svo þyrst"! Á leiðinni heim fékk barnabarnið að hringja í mömmu sína til að segja henni hvað það hafi verið gaman út í Hnífsdal. Þá fékk hún að heyra að mamma hennar hafi í einn vetur verið keyrð daglega þessa leið á leikskólann rétt hjá kapellunni (þar sem Maja Kristjáns var þá forstöðukona) og hún hafi þá verið mest hrædd við hafið við veginn - sú litla horfði nú út um bílgluggan og sagði hughreystandi: "já en mamma, það er allt í lagi"!
    Já kæru skólasystkin - eitt er að sýnast og annað að minnast. Á sama hátt og enginn dagur er sér líkur, þá erum við einnig ólík og sjáum og minnumst liðins tíma á mismunandi hátt. Sýn barnsins er greinilega einfaldari og saklausari en okkar, en minningarnar eru alltaf til staðar. Okkur ber skylda til að rifja þær upp og varðveita þannig sögu okkar gegn tímans tönn. Orðum mínum til staðfestingar ætla ég að vitna í kvæði Halldóru B. Björnsson, "Á þjóðminjasafninu":

Mig langar til að spyrja þig, löngu horfna kona,
hvað leiddi hendur þínar
að sauma þessar rósir í samfelluna þína?
Og svona líka fínar!

Var það þetta yndi, sem æskan hafði seitt þér
í augu og hjarta?
Eða fyrir manninn, sem þú mættir fyrir nokkru,
að þú máttir til að skarta?

Áttirðu þér leyndarmál, sem leyfðust ekki að segja,
en lærðir ekki að skrifa?
Eða væntírðu þér athvarfs þar, sem ekkert var að finna,
þegar erfitt var að lifa?

Var það lífs þíns auðlegð, eða blaðsins bitri kvíði
þegar blómið hefur angað?
Var það ást þín í meinum, eða eilífðardraumur,
sem þú yfirfærðir þangað?

En hver veit nema finnist þér fávíslegt að spyrja,
hvað fólst í þínu geði,
því ég er máske arftaki allra þinna sorga
og allrar þinnar gleði? 

05.05.2012 10:59

Traust "þitt" og biskupinn "okkar" .........

Kæru skólasystkin!

Hún gerði það með "stæl" eða frekar "af festu og með öryggi", hún séra Agnes - okkar :)) Já; við (fólk) er fljótt að eigna sér góða hluti og sæta sigra, því þeir veita vellíðan. En eins og við vitum öll, þá eru sigrar ekki gefins og ef þeir eiga að vera varanlegir eða gefa meira en tímabundna gleði, þá fylgja þeim áfram mikil vinna. Í blaðaviðtali í fyrradag segir sextugur maður sem er að fagna og gleðjast yfir farsælum tímamótum : "Ævin er bara örstutt leiftur" ........ ! Ég er ekki sammála honum um að 60 ár geti talist leiftur(tími), nema þá að hann meini að hugsuninin yfir þennnan tíma sé eldsnögg. 
    Ekkert okkar hefur farið varhuga af þeim tíma sem undanfarin ár hafa einkennst af; efnahagshruni í heiminum og mismiklum hremmingum fólks því samfara. Á slíkum tímum reynir alltaf á trú okkar á að einhvers staðar hljóti að vera til góðir hlutir sem hægt sé að leiða hugann að, teygja hendi sína í áttina eftir haldreipi eða tala til eins og þegar fólk fer með "Faðir vorið". Í aðdraganda biskupskjörsins og í vðtölum við sr. Agnesi bæði eftir á, þakkar hún "Guð sínum" fyrir þann styrk sem hann gefur henni og þá staðfestingu fyrir tilvist sinni sem hann sýnir með kosningasigri hennar. Ég skil þetta þannig að sr. Agnes eigi sér andlegan Guð föður á himnum sem hún treystir fullkomlega fyrir lífi sínu og starfi og að staðfesting á tilveru hans sé velgengni hennar bæði fyrr og nú!
    Síðasta hugleiðing mín gekk út á að traust og samningar manna í milli hér áður fyrr voru handsalaðir sem "gentlemans agreement"! Við náðum nú ekki öll að taka í hendina á sr. Agnesi til að staðfesta traust okkar á henni fyrir kosningarnar, en ákváðum að senda henni "góðar hugsanir" og "bænir"! Þannig má segja að við höfum einnig fengið staðfestingu þess að ekki bara hún eigi einhvern prívat og persónulegan Guð, heldur eigum við það líka. Það eru aldrei að vita nema að við séum að tala við sama Guðinn og sr. Agnes og það sé þannig skýringin á því af hverju hann heyrði í okkur hinum líka. Allavega höfum við enga ástæðu til annars á þessari stundu en að hlusta meira á það sem bekkjarsystir okkar hefur að segja og ráðleggja okkur og þannig sýna henni áfram traust okkar til hennar og hjálpa henni til að styrkja fólkið í kringum okkur - þjóðina okkar.
    Þessi tími var okkur ekki síður "andlegur" hér áður fyrr, þegar við lágum yfir bókum og glósum til að undirbúa okkur fyrir próf. Þessi tími var okkur hins vegar misskemmtilegur, því ekki voru þetta nú allt uppáhaldsfög. Það sem brást aldrei var hins vegar sólin - hún skein alveg pottþétt og í öllu sínu veldi á fyrsta upplestrardegi og hélt þannig áfram alveg fram til síðasta prófdags - þá komu skýin! En öll okkar áttum við einhvers konar drauma um að sólin kæmi nú aftur, skemmtileg sumarvinna tæki við eða spennandi ferðalag sem búið var að undirbúa; einhverjir ætluðu líka að nota sumarið til að undirbúa framtíðina. Svo leið sumarið "eins og örstutt leiftur" og haustið kom á ný - með ný áform og nýjar eftirvæntingar .......; sumir vissu strax hvað þeir vildu. Þannig tóka Agnes "okkar" snemma ákvörðun; hún setti allt traust sitt á Guð föður sinn og nú er hún Biskup Íslands!

Kæru skólasystkin. Nú er sumarið að bresta á og ekki síður en í gamla daga, þá erum við búin að setja okkur fyrir mismikið til að afkasta eða áorka á þessum tíma. Ég vil samt enn og aftur hvetja okkur til að hugsa vel til bæði fjölskyldunnar og hvers annars, eins og skólasystir okkar hefur brýnt fyrir okkur og þjóðinni. Þannig getum við hjálpast að til að styðja við og styrkja endurreisn þjóðarinnar sem er ég og þú! Í dag ætla ég því að vitna orðum mínum til stuðnings í "Orðskviður Salómons" (3), sem eru þannig:

Treystu Drottni af öllu hjarta,
en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit.
Mundu til hans á öllum þínum vegum.

06.04.2012 09:01

" ...... þú getur treyst mér!"

Kæru skólasystkin!

Í dag stöndum við frammi fyrir biskupskjöri og forsetakjöri. Í aðdraganda slíkra atburða koma frambjóðendur fram fyrir þjóð sína í fjölmiðlum og gera grein fyrir málefnum sínum og áherslum í endurbótum á þessum embættum. Þar skiptir líka miklu máli þegar kemur að lokaatriðinu: "...... þú getur treyst mér!" Vá, hvað þetta hljómar kunnuglega og samtímis hrollvekjandi. Það var einmitt það sem við gerðum fyrir Hrunið - við treystum öllum alveg tvist og bast. Er þessi setning kannski búin að stökkbreytast frá þeim tíma að menn tókust í hendur og gerðu með sér svokallað: "gentlemans agreement", en það þýddi gagnkvæmt traust sem ekki þurfti að setja á pappír. Má vera að þessi rafrænu samskipti hafi gert að tilfinningin fyrir loforðinu hafi tapast - þetta er jú svo einfalt og "laust í reipunum" - bara ýta á "send" og málið er leyst eða þannig :))
Gunnar Hersveinn segir í bók sinni Gæfusporum: "Traust er trúnaður milli manna, það er hollusta sem gerir lífið öruggt og einlægt. Traust veitir styrk og sjálfsöryggi. Menn sem bera traust hver til annars finna til öryggiskenndar. Þeir geta reitt sig á hjálp og liðveislu. Traustið er því eins konar samningur um samheldni í stað svika og pretta.Traust er þannig frumskilyrði mannlegra samskipta, það heldur samfélagi manna saman. Traustið milli manna er huggunin sem tengir þá saman og um leið og það dvínar hallar undan fæti, EN men verða að byrja á sjálfum sér!".

Í dag er páskahátíð. Fólk fer út og suður; margir fara vestur til að vitja heimahaganna og taka þar þátt í "Aldrei fór ég suður", sem er orðinn einn mesti menningarviðburður Íslands á þessum tíma. Á yfiborði menningarinnar eiga hlutirnir að líta vel út, en undir niðri eru margir ennþá í "afleiðingum" Hrunsins. Fólk er að vinna sú út úr margvíslegum vandamálum, bæði í fjárhagslega og ekki síður að endurheimta traust. Það er ekki hægt að segja að umræður manna á alþingi séu traustvekjandi. Hins vegar hafa þau fyrirheit sem komið hafa fram hjá frambjóðendum til biskups og forseta endurvakið vonir í brjóstum okkar um, að einhverjum sé ennþá treystandi. Við sem þekkjum séra Agnesi vitum fyrirfram, að hér fer manneskja sem við höfum alltaf getað reitt okkur á og þannig verið treystandi. Ég er því sannfærður um að traust hennar mun gefa kirkju okkar og þjóð nýjan byr og leiða okkur fram í styrk og sjálfsöryggi. Ég vil að hún viti það að þó svo við höfum ekkert með kosningar að gera, þá stendur árgangur 1954 sem klettur á bak við hana og sendir góðar hugsanir til þeirra sem merkja á kjörseðlana: "...... ég treysti þér!"

Kæru skólasystkin. Ég vil hvetja hvert og eitt okkar til að skoða og endurmeta traustið á tilveru okkar og kringumstæðum og ekki gleyma því að byrja vinnuna á heimaslóðum. Á þann hátt getum við verið öðrum til fyrirmyndar og styrkur í framgöngu séra Agnesar. Orðum mínum til staðfestingar og okkur til uppörvunar, vil ég vitna um traust okkar í kvæðið "Íslands börn" eftir Jóhannes úr Kötlum:

Nú koma þau með eld í æðum
á allavega litum klæðum
- og mörgum hleypur kapp í kinn,
er upp mót blámans heiðu hæðum
þau hefja fánann sinn.

Og aldrei hefur hópur fegri
né hugumstærri og yndislegri
sér fylgt í íslenzkt ævintýr.
Og aldrei storkað elli tregri
jafn ungur tónn og frjáls og nýr.

- - - - -

Á norðurhjarans sögusviði
- í sveit og bæ, á fiskimiði -
mun lífið verða af kvíða kvitt,
ef svona verur fá í friði
að fegra og elska landið sitt.

- - - - -

En vér, sem þykjumst menn, þá megum
ei máttinn draga úr vonum fleygum
né marka efans myrku spor
í svip þess bezta, sem vér eigum
og sem er líf og framtíð vor.

Að frelsið aldrei frá oss víki,
sem fæddi af sér hið nýja ríki,
er komið undir kosti þeim,
að enginn barnsins eðli svíki,
sem eitt fær skapað betri heim.

04.03.2012 11:06

Hvaðan komu fuglarnir ..........?

Kæru skólasystkin!

Við þekkjum öll til þess að segja af undrun: "hvaðan kom þetta"?, þegar eitthvað kemur óvænt eða skyndilega til okkar. Ég man svo ótrúlega vel eftir þessu hugtaki frá því í barnaskólanum, þegar tyggjó lenti óvart hjá kennaraborðinu í stað ruslafötunnar. Spurningu kennarans um: "hvaðan kom þetta"? var svarað eldsnöggt af tveimur stúlkum sem sátu saman á borðinu sem tyggjóið lenti "óvart" á, með fingurbendinu á aftasta bekk við gluggann. Viðbrögð kennarans urðu brottvísun í stað aðdáunar. Ég veit ekki af hverju þessi atburður kemur aftur og aftur upp í huga mér: "þetta var bara tyggjó sem átti að fara í ruslið"!, "hvernig gátu þessar tvær stelpur vitað hvaðan tyggjóið kom"?, "var einhver samningur milli kennarans og stelpnanna um að láta vita ef eitthvað væri í gangi út í bekknum"?, "af hverju urðu viðbrögð kennarans svona harkaleg"?.

Þetta er bara ein af mörgum sögum sem við munum misjafnlega vel og höfum í dag gaman af að rifja upp. Svar við ofangreindum spurningum og hugleiðingum fáum við líklega og vonandi aldrei, því þá hættu þær að verða okkur umhugsanarefni. Ástæða þess að einmitt þessi saga kemur svo sterkt upp í huga minn í dag er að þessar tvær samsætu skólasystur okkar hafa greinilega hvergi látið deigan síga, ef dæma má af þeim fréttum sem nú eru efst á baugi úr heimahögunum. Þetta eru þær Margrét Gunnars sem var að verða Bæjarlistamaður og sr. Agnes Sigurðar sem er að bjóða sig fram til biskupskjörs.

Ég er hér enn og aftur að vekja athygli á því hvað árgangur okkar er einstakur og dýrmætur. Það er á svona tímum sem við fylkjumst um okkar fólk og sínum samstöðu í hugsun og verkum. Við látum berast frá okkur jákvæð orð og yfirlýsingar sem hampa ágæti okkar og þá sérstaklega stelpnanna; við látum það heyrast svo hátt og hvellt að fólk spyr: "hvaðan kom þetta"? 

Orðum mínum til stuðnings stelpunum vil ég vitna í ljóð Davíðs Stefánssonar: "Hvaðan komu fuglarnir ........"?

Hvaðan komu fuglarnir,
sem flugu hjá í gær?
Á öllum þeirra tónum
var annarlegur blær.

Það var eitthvað fjarlægt
í flugi þeirra og hreim,
eitthvað mjúkt og mikið,
sem minnti á annan heim,
og ég get ekki sofið
fyrir söngvunum þeim.

Af vængjaþytnum einum
ég vor í lofti finn.
Einhver hefur sent þá,
sem elskar fjörðinn minn.
Þeir komu út úr heiðríkjunni
og hurfu þangað inn.

Það var eins og himnarnir
hefðu fært sig nær.
Hvaðan komu fuglarnir,
sem flugu hjá í gær.

Kæru skólasystkin. Ég vil hvetja okkur til að fagna slíkum áföngum. Við fögnum hvert í öðru og við fögnum með öðrum, með því að segja frá og tala um svona góða og merka hluti. Ég bið okkur nú að flykkjast saman, sérstaklega til stuðnings Agnesi í undirbúningi og síðan kosningu hennar til biskups Íslands.

05.02.2012 08:56

"Líf þitt átt þú ..............."

Kæru skólasystkin!

Annasamur tími jóla og áramóta er að baki og búið að blása í lúður til að fagna nýjum fyrirheitum. Til að stytta stundir tíma með vondum veðrum og dimmum dögum er efnt til margvíslegra mannamóta. Eitt það merkasta í huga Ísfirðinga er svokallað Sólarkaffi, en þá eru borðaðar pönnukökur í tilefni þess að sólin nái að skína á Eyrina og bæinn okkar í fyrsta sinn á nýju ári. Í Reykjavík hefur skapast sú hefð fyrir tilstuðlan Ísfirðingafélagsins að brottfluttir Ísfirðingar hittist og kætist saman rifji upp gamlar minningar "að vestan"!

Það er ekki hægt að tala um hefð, þó "Ísfirskir bæjarpúkar 1954" hafi stormað saman á Sólarkaffi í fyrra og ákveðið að gera það aftur í ár. En ástæðan var sú að hittingurinn í fyrra var flestum eftirminnilegur og til það mikillar gleði að ástæða þótti til að endurtaka viðburðinn. Eins og með allar hefðir, þá einkennast þær af því að endurtaka sömu hlutina aftur og aftur hvort sem það þykir gott eða ekki. Nú brá svo við að forsvarsmenn Ísfirðingafélagsins vildu breyta um samkomustað og fyrirkomulag "til að þétta mannskapinn" og "skapa meiri nálgun"!  Viti menn - þeir þekkja ekki sitt fólk (enda miklu yngri) og Ísfirðingar eru nú fastari fyrir en svo að láta smala sér saman í einhverja stólalausa kompu niður við Tjörnina í Reykjavík til að borða rjómapönnuköku standandi fyrir framan gargandi endur og máfa ............ (sem stela öllu steini léttara úr hendi manns)!

NEI; Bæjarpúkar 1954 snéru "hart í bak" - enda kraftmikill skipstjóri við stýrið - sem fyrirskipaði öllum að lenda í sinni höfn og dvelja þar að vild! En eins og við öll vitum um "kraftmikla" skipstjóra, þá er það konan sem þar ræður og á örskotsstund vorum við boðin að borði sem enginn okkar sem þar voru hefðu viljað missa af.

Kvöldið leið allt of fljótt; svo ég vitni til sögunnar um stóra naglann sem pabbinn fékk frá syni sínum í jólagjöf með utanáskriftinni: "pabbi - það er ekki stærðin sem skiptir máli, heldur hugurinn á baki við"; þá ríkti mikil samkennd í hópnum okkar. Við tókum fram "kladdann" og þar sem ég hafði reynslu frá barnaskólaárunum fékk ég það hlutverk að kalla upp nöfn og merkja við viðstadda. Það var ekki síður skemmtilegt að spá og spekúlera í hvar hinir væru staddir og niðurkomnir, þannig að lokum var eins og allur hópurinn væri mættur á staðinn :))

Þið sem ekki voruð getið ekki ímyndað ykkur hvað við áttum í raun góðar stundir saman á skólaárunum okkar. Þrátt fyrir alla fyrri hittinga er eins og það sé endalaust hægt að rifja upp og hlæja að því sem við gerðum. Þó svo að hægt sé að minnast margs í hljóði, þá verða atburðirnir svo ljóslifandi þegar við komu saman. Eins og samveran er ljúf og minningarnar flestar góðar, þá er okkur endurfundir í sjálfsvald settir. Ég vil þakka öllum fyrir þessa frábæru kvöldstund og minna að það er ekki stærðin sem skiptir máli, heldur hvert og eitt okkar eins og við erum.


Mér finnst ljóðið: "Líf þitt átt þú", eftir Jón úr Vör, tala inn í þessar kringumstæður okkar:

Líf þitt átt þú.
Ekki á ég það.
Enginn á það
nema þú.

En hamingjuna,
hver á hana?
Hana á
enginn einn.

Kæru skólasystkin. Ég vil hvetja okkur til þess að hugleiða þann fjársjóð sem við eigum í hvert öðru. Þrátt fyrir að við/ þú eigum okkar líf, sem hver og einn þekkir til, þá er endalaust hægt að bæta það og kæta með jákvæðum og kærleiksríkum hugsunum til bæði liðinna og ókominna stunda með hópnum okkar.

07.01.2012 12:04

"Klíf í brattann"!

Kæru skólasystkin!

Nú er gamla árið liðið og nýtt að byrja. Atburðir og minningar þess liðna rifjaðir upp bæði til að kalla fram ánægju tilfinningu þess sem gekk vel og einnig til að læra af því sem betur mátti fara. Heit eru gefin og heit eru strengd um að gera ákveðna hluti og ekki síður að gera betur og reynast betur en áður. Sumir eru einir og aðrir eru saman; sumir ákveða þetta í tilefni tímamóta og aðrir af því þeir meina það sem þeir segja.
Þegar ég lít tilbaka og hugsa til árgangsins okkar, þá þakka ég fyrir að tilheyra honum. Þetta er stór árgangur eins og sjá má á forsíðunni með 80 afmælisdaga. Ég spyr mig hvað það sé sem heldur svona stórum hópi saman. Í umhverfi mínu á spítalanum snýst slík umræða um genin eða erfðaefnið. Við erum þó lítið skyld innbyrðis, en erfðaefnið í hópnum okkar kemur örugglega frá vestfirska bænum okkar og hafinu á milli fjallanna sem heitir á fræðimálinu "1954 bæjarpúkagen".
Þó ég og örugglega fleiri finni fyrir nærveru við hópinn gegnum síðuna okkar, þá er ekkert eins dásamlegt eins og svo kallaður "hittingur". Stundirnar sem við áttum saman í haust voru örugglega flestum mjög dýrmætar. Þrátt fyrir hverja veðurlægðina á fætur annarri, mikið hvassviðri og grenjandi rigningu, var fátt sem skyggði á gleðistundirnar sem við áttum saman. Ég hef áður minnst á að sumum finnst slíkir endurfundir og samvera ekkert endilega til gleði og spilar þar margt inn í.

Ég man sjálfur eftir miklum spenningi þegar ég hitti hópinn í fyrsta sinn eftir margra ára fjarveru. Eftir á að hyggja var spenningurinn mjög góður og eðlilegur. Ég hlakkaði annars vegar rosalega til þess að hitta sem flesta og suma sérstaklega og auðvitað að rifja upp gamlar minninar. Það voru hins vegar tvö atriði í þessum gömlu minningum sem ég var mest spenntur yfir hvort bæru á góma og hvernig umræðan um það myndi enda. Viti menn, þegar upp var staðið - þá bólaði ekkert á þessum atriðum sem voru mér svo ofarlega í huga og í minningunni mjög skýr eftir 41 ár, þar sem viðkomandi var annað hvort búinn að gleyma eða grafa "stríðsöxina". Þar sem lærdómur minn og vinna gegnum árin hefur gengið mikið út á að leysa mál á sem farsælastan hátt, þá tók ég þarna þá ákvörðun að "klífa á brattan". Ég gekk til ákveðins einstaklings, rifjaði upp og útskýrði ákveðinn atburð og baðst innilega afsökunar á hvernig fór á þessum tíma. Viti menn - afsökun mín var meðtekin og staðfestir þannig að atburðurinn var ekki ofarlega bara í mínum huga og alls ekki grafinn dýpra en svo að honum var kippt snarlega upp á yfirborðið og svo grafinn að eilífu ........... eftir þetta finnst mér og að ég held fleirum minningarnar miklu ljúfari :))

Eins og þið eflaust hafið skynjað, þá fann ég í upphafi til mikilla vonbrigða með hvað fáir létu í sér heyra eða gáfu frá sér álit eða innlegg á síðuna okkar; mér fannst við hafa klifið brattann til einskis með allri þeirri vinnu sem fór í að gera hana og síðan viðhalda. Eftir hittinginn okkar í haust sá ég hins vegar hvað við erum hvert öðru dýrmæt, þó við kannski náum ekki að sýna það í raun gegnum "apparat" eins og heimasíðu. Í dag hef ég heitið því að klífa í brattann áfram og láta síðuna vera akkerið í hópnum okkar til að sameina og viðhalda 1954 bæjarpúkageninu. Ég vil hvetja hvert og eitt okkar til að varðeita þennan einstaka gimstein sem við eigum í okkur og láta hann verða öðrum til fyrirmyndar.

Orðum mínum til staðfestingar ætla ég að vitna í kvæði Hannesar Hafstein, "Klíf í brattann"!

Brekkur eru oftast lægri
upp að fara, en til að sjá.
Einstig reynast einatt hærri
en þau sýnast neðan frá.

Himinglæfur brattar, breiðar
bátnum skila´, ef lags er gætt.
Flestar elfur reynast reiðar
rétt og djarft ef brot er þrætt.

T'iðum eyðir allri samræmd
afls og þols; að hika sér.
Kvíðinn heftir hálfa framkvæmd.
Hálfur sigur þorið er.

Klíf í brattann! Beit í vindinn,
brotið þræð og hika ei!
Hik er aðal-erfðasyndin.
Út í stríðið, sveinn og mey!

Kæru skólasystkin. Ég vil hvetja ykkur til að klífa í brattann til góðra verka og hugsana á þessu ári og ævinlega, verandi með þennan dýrmæta og einstaka gimstein í brjósti ykkar. Ég hlakka til að sjá sem flesta á næsta hittingi, Sólarkaffi Ísfirðingafélagsins, eins og nánar er um getið á forsíðu.

04.12.2011 21:16

Hvernig er hugur þinn ...........?

Kæru skólasystkin!

Nú er aðventan byrjuð með tilheyrandi undirbúningi fyrir jólahátíðina. Fólk dæsir yfir því hvað frídagarnir séu fáir og það verði hreinlega engin jól í ár, sérstaklega ekki heldur í ljósi þess slæma ástands sem er í efnahagsmálum þjóðarinnar ........... eða hvað. Um daginn föðmuðu félagar mínir í Svíþjóð mig innilega á vinnufundi í Kaupmannahöfn og vottuðu mér næstum samúð sína yfir þessu ástandi á Íslandi. Þegar ég hafði sagt þeim frá þeim innilegu móttökum sem verslunarkeðja þeirra Lindex hafði fengið hjá okkur, létti á faðmlaginu og sorgasvipnum og ég varð óviss um hvort þeir væru að gleðjast í sér eða hætta að votta mér samúð sína. Allt í einu fannst mér eins og ég stæði einn á gólfinu ........ Eftir að mér hugkvæmdist að þakka þeim fyrir þessa kærkomnu verslun og frábæru föt á viðráðanlegu verði, datt ég aftur inn í hópinn (snilld).

Svipað á við um veðrið sem að undanförnu hefur hegðað sér svo óútreiknalega að við könnumst ekki við aðrar eins uppákomur. Starfsfélagi minn segir gjarnan: "það er alltaf veður Halldór, en ef þér líkar það ekki, þarftu að breyta um hugarfar"! Með þessi orð í huga fór ég vestur í Dali fyrir 3 vikum síðan til að huga að rjúpu upp á Tröllatunguheiði. Þegar kom að Gilsfirði var veðurhamurinn slíkur að ekki sá í veginn fyrir sjógangi. Jákvæður í huga hélt ég áfram, gegnum sjóskaflana, yfir Króksfjarðarnesið og upp á heiði. Ég svipti upp bílhurðinni og stökk út í veðrið. Þrátt fyrir jákvætt hugarfar, fauk ég eins og fis eftir veginum og endaði (sem betur fer) ofan í snjófylltu gili. Þarna var mun lygnara og þar sem ég var ennþá jákvæður, klóraði ég mig tilbaka upp eftir árfarveginum og fram fyrir bílinn. Þegar upp á veginn kom, var vindurinn jafnsterkur og áður (enda ég jafnléttur) og feiktist ég eftir veginum að bílnum. Eftir að ég náði að þrengja mér um hurðarfalsið og aftur inn í bílinn var ég ennþá jákvæður og sagði "tær snilld" og ákvað að snúa aftur til byggða.

Eftir á að hyggja hafði ég enga stjórn á veðrinu, heldur eingögnu huga mínum og afstöðu minni til þeirra aðstæðna sem ég var í. En með þessar dæmisögur í huga getum við þrátt fyrir efnahagsástandið í þjóðfélaginu og veðrið í landinu haldið ótrauð áfram að undirbúa komu jólanna til að minnast fæðingu Frelsarans. Það er á þessum tíma sem við getum með jákvæðu hugarfari breytt kringumstæðum okkar úr vonleysi í bjartsýni, þó svo að umhverfið mæli því mót. Frídagar jólanna eru fáir og því þurfum við að nýta hverja stund til hins ítrasta, þó svo hún fari fram í snjófylltu gili ......................

Þessum orðum mínum til staðfestingar ætla ég að vitna í tvö ljóð Benedikts Sveinbj. Gröndal úr kvæði hans: "Mér kenndi"!

Mér kenndi faðir
mál að vanda,
lærði hann mig,
þó ég latur væri;
þaðan er mér kominn
kraftur orða,
meginkynngi
og mynda gnótt.

Mér kenndi móðir
mitt að geyma
hjarta trútt
þó heimur brygðist;
þaðan er mér kominn
kraftur vináttu,
ástin ótrauða,
sem mér aldrei deyr.


Kæru skólasystkin!

Ég óska ykkur gleðilegra jóla, farsæls komandi árs og þakka ykkur dýrmætar samverustundir!

06.11.2011 06:27

"Hvar er hjartað þitt .............." ?

Kæru skólasystkin!

Í liðnum mánuði hefur umræða um hjartað sótt mikið að mér. Það hefur hins vegar farið eftir bæði umhverfinu og umræðunni hvaða merkingu það hefur haft í sér. Á spítalanum snýst málið oftast um hjartað sem líffæri sem við þekkjum öll til og er þá að "láta illa" eða það er ekki að starfa eðlilega. Það er hins vegar mjög algengt að hjartað sé notað í annarri merkingu og þá sérstaklega í merkingu sálarinnar eða hugans. Ég segi gjarnan við læknanemana að viðbeinsbrot séu svo sársaukafull því beinið sé svo nálægt sálinni; undantekningalaust horfa þau á mig og þora greinilega ekki að spyrja: "hvar heldurðu eiginlega að sálin sé"?  

Við heilsum fólki og afsökum hvað við séum handköld og staðfestum í leiðinni "en hjartað er hlýtt"! Við samhryggjumst einhverjum og sendum "hlýjar hugsanir frá hjartanu" eða við samgleðjumst og sendum "hjartans eða hjartanlegar kveðjur"!  Ef við látum okkur fátt um finnast, er hjartað okkar "steinrunnið"!, en ef við erum vingjarnleg þá erum við með gott eða notalegt "hjartaþel"! Í Svíþjóð kynntist ég starfsemi fyrir unglinga sem kallaðist 4-H sem stóð Huga, Hjarta, Hönd og Heilsu var talin samofin og nauðsynleg heild í "heilbrigðu" uppeldi.

Í dag er heimurinn gagntekinn af "réttu" mataræði og "réttri" hreyfingu til að geta lifað "heilbrigðu" líferni. Ef 4-H hugmyndafræði Svía var/er rétt, þá þýðir það að við séum í kappseminni um: "drasl inn - drasl út" og "lífrænt inn - lífrænt út" að gleyma eða undanskilja hug okkar og hjarta. Þarna er kannski komin skýringin á því af hverju "mér líður svona illa á þessu lífræna........."! Er mögulegt að GPS-inn á úlnliðnum sé að gefa rangar upplýsingar frá "hjartanu" - eða erum við að mæla "vitlaus gildi" :) !

Í sögunni um galdrakarlinn frá Oz er umræða um nauðsyn hjartans; þar staðfestir tinkarlinn að frekar vilji hann hjarta en heila, því hann vilji aftur fá tilfinninguna að verða ástfanginn ..............
Í þessari barnasögu er aftur komið inn á samspil hjartans og tilfinninga sem eru af ýmsum ástæðum að gleymast okkur í dag; hugsanir okkar og markmið eru komin of langt frá hjartanu og (því hlutverki)/ þeim tilgangi sem það hefur "í raun". Með þá mynd í huga skiljum við betur hvað hjartapílan hefur í raun "djúpstæða" merkingu um gleði og góða tilfinningu og ekki dauða, eins og hún gæti táknað í dag. Það er því ekki skrítið að hjartapílan var teiknuð og rist á áberandi staði til að gefa eitthvað elskulegt eða hugnæmt til kynna og skáldin "léttu á hjartanu" með því að setja tilfinningar sínar í bundið mál. En af hverju þurfti þetta að vera/ verða svona áberandi - af hverju var ekki hægt að bera þessar tilfinningar í hljóði, þe þegja. Jú; þeir sem sáu myndirnar eða lásu ljóðin brostu eða grétu af gleði og þá var kannski tilganginum náð - það að gleðja aðra, fá þá til að hrífast með, uppörfa.

Ég ætla að að vitna í hugleiðingar Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi, en þar vill hann vekja okkur til umhgusunar um hvað auðvelt er að dragast inn í heim vonskunnar og segir: Varaðu þig - 

Ég brá mér út í skóginn einn bjartan sumardag.
blærinn söng í trjánum sitt margraddaða lag.
Ég stóð þar undir björkinni, sem hæst við himinn ber,
og heyrði líkt og hvíslað í eyrun á mér:
Varaðu þig á skessunni, sem í skóginum er.

Ég sinnti þessu lítið og lék mér þar og hló,
og lengra inn í þykknið mig hulinn máttur dró.
Af vegi mínum hrukku hin hræddu skógardýr.
Þá heyrði ég kallað, og nú var röddin skýr:
Varaðu þig á skessunni, sem í skóginum býr.

Og lengra inn í skóginn og skuggana ég braust.
Ég skil það varla sjálfur, hvað af þeim sporum hlaust.
En stundum finnst mér allt vera illt, sem fyrir ber,
og ekkert hjarta lengur í brjóstinu á mér .........
Svona er að hitta skessuna, sem í skóginum er.

Kæru skólasystkin - ég vil með þessum orðum biðja ykkur að hugleiða betur "tilgang" hjartans; það er ekki bara til þess að dæla blóði og hitatilfinningu um okkur sjálf heldur einnig til að hugsa skýrt og rétt og vel til annarra - hvar er þitt hjarta?

04.10.2011 22:24

"Stundir á milli lægða ......"

Kæru skólasystkin!

Hjartans þakkir fyrir frábæran "hausthitting" um daginn. Þetta tókst frábærlega í alla staði eða "tær snilld" eins og sagt er í dag. Ég hafði ekki síður mikla væntingar fyrir þessum endurfundi frekar en þeim sem ætlaður hafði verið sl. vor og það gekk svo sannanlega eftir. Það var sko ekkert gefið eftir frekar en fyrri daginn - stærðfræðiséní hópsins var harður á því að 50 ár væru liðin síðan við hittumst fyrsta sinni í svokölluðum vorskóla, en þá vorum við undirbúin fyrir skólagöngu komandi hausts. Ekki man ég eftir veðrinu, en sérstaklega vel eftir hossinu aftan í honum Grána, en svo hét bíllinn hans Hreins sem við sátum í frá Engjaveginum og niður í bæ. Við vorum vel til fara, sumir strákanna í nýsaumuðum buxum frá Siggu saumakonu og stelpurnar með hliðartösku úr Bókhlöðunni með Andrésar Önd mynd utan á. Það þurfti að fara í röð framan við útidyrnar áður en ráðist var inn í anddyrið. Agnes var svo heppin að vera fremst, líklega vegna þess að skólastjórinn þekkti pabba hennar betur en okkar pabba - þetta þýddi líka að hún var alltaf lesin fyrst upp í kladdanum; eins gott að hún bjó nálægt og var því alltaf mætt snemma. Nú svo byrjaði bara skólinn og hver bekkur fékk sinn umsjónarkennara. Við þekktum þessa kennara misvel og þeir höfðu misgóð áhrif á okkur. Stundum veit maður ekki fyrir vízt hvað ræður framgangi og þróun mála frekar en hin margvíslegu veður, sem ýmist eru hlý, köld, blíð, hörð, laða fram vellíðan eða setja allt um koll með ófyrirsjánalegum afleiðingum .......... Stundin sem við áttum núna í skólastofunni okkar 50 árum seinna fannst mér vera eins og "stund á milli lægða" - það mátti sjá hvernig hugur flestra fór á flug, hjá sumum í hljóði og hjá öðrum með hljóði; en eitt vorum við sammála um: "við hefðum mátt hegða okkur betur, en hvort afleiðingarnar hefður orðið aðrar vitum við vízt aldrei  .... en nú virtist allt með kyrrum kjörum"! Auk þessarar stundar áttum við frábæran tíma í bíó með kók og popp, í Gamla með kakó og kókoslengju, í kirkjugörðunum í úrhellsirigningu og að lokum í Tjöruhúsinu með gítar- og nikkutríói og lokahnykk með balli í Krúsinni. Þannig var þessi stutta 50 ára samveru- og upprifjunarstund milli lægða tekin með stæl, enda ekki eftir neinu að bíða .........

Í fyrradag skaust ég á hjólinu austur í Skaftafell með kærum vini mínum, þrátt fyrir aðvaranir veðurstofu um slæmt veður vegna samfallandi lægða; það virtist allt mæla með því að við sætum bara heima og biðum eftir þessu voðalega - hræðilega veðri. Við fengum hins vegar blankandi logn, þurrviðri og sólarglætu alla leið þangað en þvílíka úrhellisrigningu og hvassvirði á bakaleiðinni svo að sundkskýla hefði passað betur en mótorhjólgallinn. Þegar ég sit núna við tölvuna í þurrum fötum og með nýgreitt hár get ég staðfest að ferðin var tær snilld og samveran og minningin um hana er mjög kær.

Já - kæru skólasystkin - ég vil hvetja ykkur hvar sem þið eruð að hallað ykkur aftur í smástund og smjatta á þessum dásamlega endurfundi sem við áttum og sem kemur ekki aftur. Mér fannst hurð skella nærri hælum þegar vorhittingurinn var blásinn af, því við gerum okkur í raun ekki grein fyrir því hvað við þurfum við að nýta vel "stundirnar milli lægða"; þær eru mislangar, misskemmtilegar og misblautar og mis- allt mögulegt, en það sem upp úr stendur er að þær eru hópnum okkar og ekki síður hverju og einu okkar óendanlega dýrmætar. Orðum mínum til staðfestingar vil vitna í stutt ljóð Stephans G. Stephanssonar sem heitir "Hugur og hjarta" og sem tala beint inn í kringumstæður okkar:

Láttu hug þinn aldrei eldast eða hjartað.
Vinur aftansólar sértu,
sonur morgunroðans vertu.

Flettingar í dag: 82
Gestir í dag: 25
Flettingar í gær: 362
Gestir í gær: 67
Samtals flettingar: 203540
Samtals gestir: 37272
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 09:29:49
clockhere