05.09.2011 22:21

Ástarkveðjur frá Rósu og Bjarndísi til árgangs 1954

Enn við komin erum saman

þá alltaf ríkir fjör og gaman,

sko árgangurinn okkar ber

af öðrum slíkum á landi hér.

Við ávallt munum æsku ljúfa daga

þegar öll í skóla við byrjuðum að kjaga,

við vorum alltaf afskaplega hress

eflaust jók það kennaranna stress.

Það var gaman, þetta er alveg satt

þegar út um gluggan "kladdinn" datt,

ög töluvert það tók á kennarann

þegar teiknibólu hann fékk í sitjandann,

við elskuðum hann engu að síður þó

en inn í okkur lítill púki bjó.

Þá var alltaf eitthvað hægt að gera

áhyggjur við þurftum ekki að bera,

þá sérhver dagur leið við leiki og gaman

við lifðum bara til að vera saman.

En síðan tóku unglingsárin við

og ekki var þá minna gamanið,

skólahljómsveit reif upp rokkið þar

og Rabbi Jóns hann barði trommurnar.

Kvikmyndin um þennan árgang er

afreksverk, það skilja allir hér,

Mummi Þór þá aldrei af sér dró

að erfiðleikunum hann bara hló.

Þótt árum fjölgi,  ennþá erum við

innst í hjörtum samhent púkalið,

ýmsir líta yfir árganginn

og óska að mega ganga í söfnuðin.

En kennitölum þyrfti að breyta þá

og Þjóðskráin myndi aldrei segja já,

nei þetta er sko OKKAR árgangur

sem einstaklega vel er heppnaður,

á svipuðum tíma öll við erum getin

það er augljóst mál, þá var hollur matur étin.

Já árin breyta okkur fjarska lítið

er þetta ekki dásamlegt og skrítið,

þó hárum fækki og fölni liturinn

þá finnst í okkur sami krafturinn.

Hrukkurnar þær myndast ein og ein

þær ekki gera nokkrum manni mein,

það er nú svo, við erum bara við

og við munum ávallt standa hlið við hlið.

Áföllum við aldrei sleppum frá

aðstoð veita góðir vinir þá,

í hópnum fækkað hefur gegnum árin

þá hjálpum við hvert öðru að þerra tárin.

Við minnumst þeirra sem héðan eru horfin

í hjörtu okkar mynd af þeim er sorfin,

þau gleymast ekki þó gleðin taki völd

og gleðjast eflaust með okkur í kvöld.

Svo lífsglöð, hress og yndisleg við erum

og aldurinn með virðuleika berum,

en nú er mál að ljúka lestrinum

við lifum öll í sælum minningum,

við erum stoltar af okkar árgangi

ástarkveðjur frá Rósu og Bjarndísi.
                                                G.G.

13.06.2011 10:31

Hvað þýðir: "Þannig fór með sjóferð þá ........" ?

Kæru skólasystkin!

Það hvarflar að manni setningin: "Þannig fór með sjóferð þá .......", flestir segja þetta í neikvæðri merkingu, en orðin segja alls ekki hvort sjóferðin hafi farið vel eða illa! Það blés hressilega á móti þegar bíllinn okkar stóð hæst á Steingrími og Djúpið kom í ljós, með hvitfyssandi öldurnar. Það heyrðist líka smellur í hitamælinum þegar hann datt úr 10 gráðunum niður í 2. "Já, þetta eru móttökurnar" eða "nú er hann kaldur af jökklinum" eða "svakalega ætlar sumarið að koma seint"! Mér var svo gjörsamlega sama um allt þetta, því ég hlakkaði svo til að komst "heim"! Þessu var þó ekki lokið, því um kvöldið hringdi "brósi" og bauð okkur að koma í Sjómannadagssiglingu með Sigga Bíu út á Djúpið. Í þessum töluðu orðum horfði ég út á hvitfyssandi Pollinn og sá fyrir mér hvernig allir skemmtu sér í siglingu á meðan ég lægi í keng út í einhverju skotinu með ælupokann í annarri og útataða myndavél í hinni hendinni. Þegar við komum loxins út úr þessum nýju en löngu og dimmu Bolungarvíkurgöngum, þá var bara logn í Víkinni. Á bryggjunni tóku við faðmlög og "langt síðan síðast" kveðjur og "hjartanlega velkomin um borð"! Siggi var flottur og snöggur í snúningnum - allt í einu á flugi út á Djúpið. Þarna var mikið af bæði stórum bátum sem fóru rólega og litlum bátum sem skutluðust inn á milli og út og suður svo "sauð á keipum"! Úti á miðju Djúpinu voru bátarnir komnir frá Ísafirði og þarna heilsuðust þeir "frændurnir" eins og hundar á lóðaríi með þvílíkum skvettugangi. Mér var efst í huga: "´Þannig fór með sjóferð þá ....... ", en það hefði verið hræðilega misskilið, því enginn vissi hvað mér hafði hviðið fyrir ferðinni þegar mér var boðið í hana kvöldið áður. Þess vegna sagði ég hátt og snjallt: "þetta var tær snilld" og það skildu allir rétt :))

Að þessu sögðu er auðveldara að lýsa tilfinningum mínum gagnvart 1954 hittingnum okkar. Ég var búinn að hlakka til hans eins og lítið barn. Þar blandaðist saman bæði það að hittast og að koma vestur. Ég skil alveg og virði ákvörðun nefndarinnar, en hélt því til streitu að fara vestur til að heilsa upp á "heimahagana"! Ég þarf ekki að útskskýra það á prenti hvernig brugðist var við komu okkar - með vinnugallann á hælunum, símann á öxlinni og höfuðið inni í bakarofni, var brostinn á "vorhittingur"áður en verðurfréttunum lauk á Stöð 1. Ekki nóg með að við náðum að knúsast, tala, hlægja og borða fram yfir miðnætti, heldur var haldið áfram í kjölfar erfidrykkju næsta dag. Þó svo að flestum okkar hafi verið efst í huga: "´Þannig fór með sjóferð þá ....... ", þá er það algjör misskilngur sem leiðréttist hér með og ég get aftur sagt hátt og snjallt: "þetta var tær snilld" og það skilja þeir rétt sem voru á staðnum :))

Ég vil því hvetja okkur til þess að missa ekki af tækifærinu sem gefst í haust. Þó svo að við gerum okkur ekki grein fyrir því í daglegu amstri og lífsins hlaupi, þá er ekkert dýrmætara en fjölskyldubönd, sem við í raun tengjumst með þessari sterku 1954 samstöðu og vináttu. Látum ekki svona dýrmætt tækifæri fara of auðveldlega fyrir bý - það væri mikil sóun á lífsins gæðum.

Mér finnst ljóð dagsins sem heitir "Leiðsla" og er eftir Þorstein Valdimarsson, passa vel inn í þessar kringumstæður okkar:

Í vefstól skúraskýja
hin skæra júnísól
með geislavafi vefur
á vorið daggakjól.

Svo skín þér allt í einu
þess undur tignarhljótt
í ljóma ungrar ástar
á óttubjartri nótt.

Þú stóðrst við elfarstrenginn,
er stríður geistist hjá,
en bakkinn rósum roðinn
í regnsins bláma lá.

Nú veit ei fyrr né framar
hinn fangni hugur þinn
en tíð og leið þér týnast
í tíbrá vorsins inn.

Þú felllur fram og skelfist,
hve fögur mynd þess er;
og kjólfald bryddan blómum
þú berð að vörum þér.

Ég óska ykkur áframhaldandi gleðilegs sumars með þakklæti til þeirra sem stóðu að og komu á vorhittinginn og uppörvun og hvatningu til þeirra sem ekki komu/ komust fyrir hittingnum í haust!

09.05.2011 23:03

Að skóla loknum .........

Kæru skólasystkin!

Já - hver man ekki þessa stund: "að skóla loknum"! Fyrstu árin var það sumarvinnan sem tók við: barnapössun, skógræktin, vinna fyrir mömmu, vinna fyrir pabba, fara í sveit og svo mætti lengi telja. Núna er 50 ár síðan við vorum í þessum sporum og á þeim tíma höfum við þurft að taka ýmsar ákvarðanir og stefnur sem hafa verið mikilvægari og þyngri í meðförum en einhver sumarvinna. Ég man samt eftir því að þetta vóg þungt í því hvað yrði úr sumrinu; ekki skemmdi heldur fyrir að fá pening fyrir verkið. Svo þurfti að hafa sig til fyrir þennan tíma með sumarklippingu hjá Árna Matt og gúmmískóm í Gústabúð. Ég veit að þessi háttur var nú ekki "standard" og verður gaman að heyra allar hinar sögurnar á hittingnum okkar. Þá getur söguljóminn orðið mismikill og eflaust á stundum það lítill og kannski óskemmtilegur og ekki verður til upprifjunar. Mér finnst hins vegar að hópurinn okkar sé orðinn þannig í stakk búinn og þroskaður, að hittingur sem þessi sé kjörinn vettvangur til að taka fram æskuminningar hvort sem þær voru nú sætar eða súrar. Þær sætu eru sérstaklega til að kæta hópinn og hjálpa til að muna þennan frábæra tíma sem við áttum hvert og eitt og einnig saman. Þær súru eru ekki síður til að leiðrétta mögulegan misskilning sem hefur lifað í gegnum allan þennan tíma og bara gerjast til hins verra með hverju árinu sem líður. Allavega vil ég hvetja okkur til að láta nú gamminn geysa gegnum síðastliðin 50 ár, festa á blað það sem kemur upp í hugann og draga fram myndir sem varpa betur ljósi á þessa tilveru okkar.

Mér finnst við hæfi að ljúka þessum maí-orðum til okkar með tilvitnun í kvæði Bjarna Gissurarsonar, sem heitir: "Samlíking sólar og konu"!

Hvað er betra en sólar sýn,
þá sveimar hún yfir stjörnu rann?
Hún vermir, hún skín
og hýrt gleður mann.

Þegar fögur heims um hlíðir
heilög sólin loftin prýðir,
lifnar hauður, vötn og víðir,
voldugleg er hennar sýn.
Hún vermir, hún skín.
Með hæstu virðing Herrans lýðir
horfi á lampa þann.
Hún vermir, hún skín
og hýrt gleður mann.

Já; nú er að hrökkva eða stökkva, því helgin er stutt undan og Nefndin þarf að vita fyrr en seinna hvað margir geta alls ekki komið :))

17.04.2011 09:43

Páskar og Sumardagurinn fyrsti ..........

Skrítið "hvernig uppeldið mótar okkur" ........ eru það bara umhverfisáhrif sem verka í lífi okkar og athöfnum eða spilar erfðamengið þar einnig sinn þátt. Í læknisfræðinni er það hvoru tveggja; "sitt lítið af hvoru" eins og sagt er. Hvað þá með "páskana fyrir vestan"! Er það ekki bara eða frekar uppeldið og mögulega umhverfisáhrifin .........? Af hverju sækja þá afkomendur okkar og ættingjar fæddir víðs fjarri Ísafirði eftir því að komast vestur og þá sérstaklega á páskunum?  .... umtalið eða endurupplifun á hegðun okkar, umræðu um þennan tíma og kannski hvernig við segjum frá þeim minningum sem við eigum í hjartanu frá þeim tíma þegar "við vorum á páskunum á Ísafirði"!

Í raun er páskahátíðin gleðihátið kristinna manna sem hefst á pálmasunnudegi en þá reið Jesú á asna inn í Jerúsalem til að halda páska gyðinga og fólkið fagnaði honum með því að veifa pálmagreinum. Á fimmtudeginum borðaði Jesús með lærisveinum sínum síðustu kvöldmáltíðina; dagurinn er nefndur skírdagur vegna þess að Jesús þvoði fætur lærisveina sina fyrir máltíðina, en skír í þessu samhengi þýðir hreinn. Föstudagurinn langi snýst allur um sakfellingu Jesú,krossfestingu og dauða. Páskahátíð gyðinga Pesach, var haldin á laugardeginum á sabbatinu. Þennan dag lá öll starfsemi niðri en daginn eftir, á sunnudeginum, var venjulegur virkur dagur. Það var þá sem María Magdalena og María móðir Jakobs sáu að Jesús var ekki lengur í gröfinni því að hann hafði risið upp frá dauðum. Kristnir menn halda því páskadaginn sem gleði og fagnaðardag. Jesús lifði þrátt fyrir að hafa verið tekinn af lífi á krossinum og það gerir páskana að mestu hátíð kristinna manna og forsendu kristinnar trúar.

Við höfðum ekki mikla hugmynd um þessa hluti hér áður; það snerist allt um að komast á skíði frá morgni til kvölds - allavega þegar nóg var til af snjó. Það má segja að Ísfirðingar hafi brugðist bæði við snjóleysinu og breyttum tíðaranda á rétta augnablikinu með því að innleiða hátíðina "Aldrei fór ég suður", sannkallað gleðihátið tónlistarfólks. Ótrúlegt hvað Ísfirðingar erum nú þrautsegir - á augabragði urðum við heimsfrægir fyrir hugmynd sem var í raun mjög einföld - en virkaði! Ég vil hins vegar leyfa mér að taka svo djúpt með árinni og staðhæfa að sú upplifun sem þessi gleðihátíð veldur hjá fólki er ekki bara tónlistin, heldur er það samspil tónlistarinnar, umhverfisins og alls þessa fólks sem er samankomið og fagnar því að vera komið vestur á eyrina, milli fjallanna og til kærkominna ættingja og vina.

Í ár stingur svo sumardagurinn fyrsti sér inn í hátíðina með því að bera upp á skírdag. Þetta er dagurinn sem annars á að gefa til kynna lok vetrar og upphaf hlýrri og sólarlengri daga. Í minningunni er hann skátamessudagur og skrúðganga í kulda og byl. Þrátt fyrir þessa miklu uppákomur nú um miðjan apríl, ætlum við 1954-ingar hvergi að láta deigan síga og stefnum ótrauð að okkar gleðihátið um komandi sjómannadagshelgi. Ég vil enn og aftur minna okkur á að taka tímann frá og byrja að rifja upp skemmtileg atvik sem þurfa að koma fram í dagsljósið, ekki seinna en nú, 50 árum eftir að við hófum skólagönguna okkar. Við þurfum einnig að vera dugleg að fylkja okkur bak við nefndina svo hún sjái einnig gleðina við hittinginn og ekki bara erfiðið :)))

Með tilhlökkun í huga eftir því að hittast fyrir vestan, vil ég enda þessa hugrenninga með tilvitnun í ljóð Friðriks Friðrikssonar, "Dýrlegt kemur sumar"

Dýrlegt kemur sumar með sól og blóm,
senn fer allt að vakna með lofsöngsróm,
vængjaþytur heyrist í himingeim,
hýrnar yfir landi´ af þeim fuglasveim.

Hærra´ og hærra stígur á himinból
hetja lífsins sterka - hin mikla sól,
geislastraumum hellir á höf og fjöll,
hlær, svo roðna vellir og bráðnar mjöll.

Gróðurmagnað lífsaflið leysist skjótt,
læsir sig um fræin, er sváfu rótt,
vakna þau af blundi´ og sér bylta´ í mold,
blessa Guð um leið og þau rísa´ úr fold.

Guði´ sé lof, er sumarið gefur blítt,
gefur líka´ í hjörtunum sumar nýtt,
taka´ að vaxa ávextir andans brátt,
eilíf þar sem náðin fær vöxt og mátt.

Blessuð sumardýrðin um láð og lá
lífsins færi boðskap oss himnum frá:
"Vakna þú, sem sefur, því sumar skjótt
sigrað kuldann hefur og vetrarnótt".

Ég vil fyrir hönd 1954-inga óska öllum gleðilegrar páskahátíðar. Einnig:
GLEÐILEGT SUMAR OG TAKK FYRIR VETURINN!

06.03.2011 16:49

Mót hækkandi sól ........

Kæru skólasystkin!

Já; nú er aldeilis að færast fjör í hópinn. Það er varla búið að klára einn hittinginn þegar blásið er til þess næsta. Það er kannski eitthvað til í þessu með D-vítamínið sem talið er að þjóðina skorti í dag, því kallið frá nefndinni fyrir vestan kom einmitt í kjölfar Sólarkaffisins. Það er nú hreint ótrúlegt að 50 ár séu liðin síðan við trítluðum fyrstu ferðina okkar í vorskólann 1961. Við Engjavegspúkarnir þurftum hins vegar ekki að trítla niður eftir því Hreinn heitinn keyrði okkur í Grána. Það þurfti að halda sér fast því nóg var af holunum á leiðinni. Það var svo sem í lagi því skólataskan hékk í langri reim yfir öxlina og svo var hægt að stífa sig af í nýju ilmandi gúmmískónum frá Gústa í skóbúðinni. Já - það verður margs að minnast og ýmislegt til upprifjunar á hittingnum í vor. Ég vil hvetja hvert og eitt okkar til að líta tilbaka og rifja upp þennan tíma til að allir hafi eitthvað að segja með vorinu. 

Þó spenningur okkar yfir vorhittingnum sé þegar byrjaður má vera að hann tengist líka þjóðfélagsaðstæðunum; hvernig fara nú kosningarnar og hverjar verða afleiðingarnar. Það er líka spenningur yfir því að páskarnir eru stutt undan og þeir marka alltaf tímamót okkar milli veturs og vors, því í kjölfar þeirra fara skíðin upp á loft, snjórinn bráðnar og sólin tekur völdin. Þessar fyrirætlanir eru þó allar byggðar á gömlum minningum frá fyrri tíð. Í dag eru hlutirnir eins og meira óútreiknanlegir eins og t.d veðrið sem mitt í þessu lemur með éli á glugganum á miðjum sólardegi. Það er á slíkri stundu sem við þurfum að kalla fram hlýjar minningar og það fallega umhverfi fjallanna sem við ólumst upp með og tengir sem okkur innst inni órjúfanlegum böndum.
 

Ljóð Matthíasar Johannessen, "Fjöllin í brjósti þér", lýsa þessu á eftirfarandi hátt:

Hann skín þér enn við augum dagur sá,
sem öllum dögum fegri rís úr sjá.
Og ennþá kemur hann á móti mér,
og morgunbjört vor ættjörð færir þér

sín himingnæfu fjöll - þú fylgir þeim
sem fugl er snýr á nýju vori heim,
þér fagnar ávallt heiðin hrjósturgrá
og himnesk nótt með stjörnuaugu blá.

Og fjöllin rísa björt í brjósti þér,
þau benda heim svo langt sem auga sér.
Og moldin vakir, mold og gróin tún
 - og máttug rís þín sól við fjallabrún.

Þú kemur heim, þín sól við sund og vík
er seiður dags og engri stjörnu lík,
hún bræðir hrím og vekur vor sem er
svo vængblá kyrrð og þögn í brjósti mér.

Ég vil hérmeð hvetja okkur til að taka mót sól og vori full tilhlökkunar að hittast og rifja upp gamlar og góðar minningar um þann yndislega tíma sem við áttum saman á fyrstu skólaárunum fyrir 50 árum síðan! 

05.02.2011 09:15

Hugarvíl og huggun .............

Kæru skólasystkin!

Nú er Sólarkaffi Ísfriðingafélagsins yfirstaðið með "pompi og prakt" - EN miklu færri en síðast! Hvað olli - "ekki flogið frá Ísafirði", stendur í blöðunum!. Í þetta sinna höfðu "Bæjarpúkar 1954" ákveðið að flykkjast á staðinn, en hittast fyrst hjá Hlöðveri og Siggu til að "þétta" hópinn. Þangað mættu færri en búist var við og svo mættu að lokum færri úr hópnum á hótel Hilton en "búist hafi verið við", nokkrir komu þó við í lokin. Við fórum að spyrja hvert annað - hvað veldur því að sumir skreppa frá Danmörku en aðrir "komast ekki" frá Reykjavík. Hefur þetta eitthvað með kreppuna að gera, því hún virðist geta koma svo víða við. Er kannski kreppa inn í okkur, sem veldur því að við viljum ekki eða eigum erfitt með að umgangast og hittast aftur. Ein slík kreppa gæri verið t.d eitthvað frá fyrri árum sem rifjast upp þegar við eigum að hittast aftur; kannski eitthvað sem kemur ekki upp bara á mannamótum, heldur fylgir okkur alltaf - hvar sem er og veldur okkur stöðugu hugarvíli. Sagt er að hugarvíl sé ekki bara læknisfræðilegt vandamál sem varðar heilann eða sprottið af félagslegum aðstæðum heldur er það mannleg tilfinning, innri efi, áskorun um að endumeta líf sitt og starf. Það að bregðast við þessari tilfinningu eins og flensu er að þora ekki að horfast í augu við sjálfan sig. Þanning glatast tækifæri til að sjá í gegnum "staðreyndir" sem við höfum samþykkt gagnrýnislaust. Hugarvíl er að efast um allt; það er tilfinning um að byggt hafi verið á sandi, en það er einnig þrá eftir bjargi. Því ættu einstaklingar sem fæddust sama árið, drukku sama lýsið, gengu sömu göturnar og hlustuðu á sömu kennarana að finna styrk í hvert öðru. Hittingur er þannig kærkomið tækifæri til að losa um ólar hversdagsleikans, rifja upp fyrri stundir í leik og starfi og taka á spurningum og vandamálum af festu og einurð sem einkenna á fullorðnar manneskjur. Hittingur á þannig að vera tækifæri til að afhlaðast um stund í öruggu umhverfi, þiggja góð ráð og hlaða líkama og sál með styrk og huggun sem við eigum að geta veitt og miðlað hvert öðru.


Ég ætla máli okkar til stuðnings að vitna í svipaðar kringumstæður Gríms Thomsen, sem hann finnur lausn á í ljóði sínu "Huggun"!

Hvað hjálpar þér í heimsins glaumi,
að heiminum verðirðu´ekkki að bráð?
Þá berast lætur lífs með straumi,
og lystisemdum sleppir taumi, - 
hvað hjálpar, nema Herrans náð?

Og þegar allt er upp á móti,
andinn bugaður, holdið þjáð,
andstreymis í ölduróti
allir þó vinir burtu fljóti,
Guðs er þó eftir gæska´og náð.

Hver dagur þér í dauðans stríði,
er duga ei lengur mannleg ráð,
þá horfinn er þér heimsins prýði,
en hugann nístir angur og kvíði, -
hvað dugir, nema Drottins náð?

Ég og við sem áttum þann möguelika að hittast núna á Sólarkaffi, viljum hvetja okkur sjálf og ykkur sem ekki komust, til að hittast oftar, þó tilefnið sé ekki meira en það að sjást og knúsast smá og veita hvert öðru þannig lausn frá mögulegu hugarvíli og styrk inn í kringustæður dagsins :)) 

08.01.2011 16:53

Viðráðanleg markmið ..........

Kæru skólasystkin!

Nú er nýtt ár hafið og það gamla kvatt. Fólk kveður og heilsar á margvíslegan hátt; í hljóði, upphátt, með látum, með gleði, með sorg, í baráttuhug .......... Það sem mest ber þó á eru öll blysin, raketturnar og sprengjurnar og síðan þessi mikli hamagangur í líkamsræktarstöðvunum. Ég virði báðar þessar íþróttir, en mér finnst þær vera öfgakenndar. Ég held að það sé auðveldara að gera minni og fleiri hluti sem taka jafnvel lengri tíma, heldur en eitthvað risastórt og snöggt. Þannig tala ég einnig til sjúklinga minna varðandi endurhæfingu; "settu þér viðráðanleg markmið sem þú getur verið stolt/ur yfir þegar þeim líkur"! Þannig vil ég líka tala til ykkar kæru skólasystkin og vinir; setjum okkur viðráðanleg markmið í upphafi árs sem við getum unnið með og verið stolt yfir þegar þeim líkur! Markmiðin geta verið með margvíslegum hætti. Það sem ég vil sérstaklega vekja athygli á er aukinn áhugi fólks á andlega hluta líkamsræktarinnar og ekki bara kílóunum. Ég er sannfærður um að þegar upp er staðið, þá eru hlaupabrettin frekar til líkamlegra vandræða heldur en til andlegrar vellíðunar. Regluleg hreyfing sem líkaminn þolir vel gefur einnig möguleika á að rifja upp liðna atburði sem bæði er hægt að gleðjast yfir og læra af, til að gera nútíðina skemmtilegri og framtíðina spennandi.

Orðum mínum til staðfestingar er hér ljóð Hannesar Hafstein: "Klíf í brattann"!

Brekkur eru oftast lægri
upp að fara, en til að sjá.
Einstig reynast einatt hærri
en þau sýnast neðan frá.

Himinglæfur, brattar, breiðar
bátunum skila´, ef lags er gætt.
Flestar elfur reynast reiðar
rétt og djarft ef brot er þrætt.

T'iðum eyðir allri samræmd
afls og þols: að hika sér.
Kvíðinn heftir hálfa framkvæmd.
Hálfur sigur þorið er.

Klíf í brattann! Beit í vindinn,
brotin þræð og hika ei!
Hik er aðal-erfðasyndin.
Út í stríðið, sveinn og mey!


Þann 28. janúar nk. verður hefðbundið Sólarkaffi Ísfirðinga á Broadway. Þá gefst okkur einstakt tækifæri til að hittast og kætast saman. Ég vil hér með hvetja okkur til að taka kvöldið frá í tíma til að ekkert verði því til afsökunar að komast ekki. Heyrst hefur sá möguleiki að hittast áður og verður það auglýst sérstaklega á síðunni og með tölvupósti.

05.12.2010 17:54

Aðventan og jólin .....

Kæru vinir!

Aðventan eða jólafasta, kemur frá katólskum sið, en þá var fastað síðustu 3-4 vikurnar fyrir jól. Þá var ekki borðað kjöt og þessi desemberfasta hugsuð sem undirbúningur fyrir fæðingarhátíð Frelsasarns. Orðið aðventa er dregið af latnesku orðunum Adventus Domini, sem þýðir "koma Drottins"! Hún hefst á 4. sunnudegi fyrir jóladag eða þann sunnudag, sem er næstur svokallaðri Andrésarmessu 30. nóvember, sem í ár var 29. nóvember.

Hjá mörgum er aðventan kærkomin tilbreyting frá amstri hversdagsins. Þá hefst hinn eiginlegi undirbúningur jólanna og helgarnar fram að jólum notaðar til að setja upp útiskraut, stjaka í glugga og skrifa jólakort. Þá er einnig kveikt á  kertum, sérstaklega kertunum fjórum í aðventustjakanum sem hver hafa sitt heiti og viðeigandi skýringar.

Það sem er mikilvægast í öllum þessum undirbúningi er að reyna að sleppa stressinu og njóta hverrrar stundar saman með fjölskyldu og vinum við yl minninga liðins tíma; já tíma og atvika sem koma ekki aftur. Það getur verið misgleðilegt að rifja upp fyrri tíma; en þá er nauðsynlegt að íhuga hvað það sem miður hefur farið hefur mögulega kennt okkur í framhaldinu. Adventan og jólin er allavega sá tími sem gefur okkur tækifæri til að sleppa huganum af leiðindum og vonleysi og grípa til ljóssins sem færir með sér bæði birtu og yl inn í kringumstæðurnar hversu slæmar eða erfiðar þær eru.


Í kvæði sínu: "Á aðventu", kemst Steingerður Guðmundsdóttir þannig að orði:

Í skammdegismyrkri
þá skuggar lengjast
er skinið frá birtunni næst
ber við himininn hæst.

Hans fótatak nálgast
þú finnur blæinn
af Frelsarans helgiró -
hann veitir þér vansælum fró.

Við dyrastaf hljóður
hann dvelur - og sjá
þá dagar í myrkvum rann
hann erindi á við hvern mann.

Þinn hugur kyrrist
þitt hjarta skynjar
að hógværðin býr honum stað
þar sest hann sjálfur að.

Og jólin verða
í vitund þinni
að vermandi kærleiks yl
sem berðu bölheima til.

Með þessum orðum óska ég ykkur og fjölskyldum ykkar gleðilegrar hátíðar með þökk fyrir liðnar stundir!

05.11.2010 23:05

Væntumþykja ..........

Kæru vinir!

Nú er kominn nóvember, minni hiti, minni birta ........., þ.e. allt er að styttast, meira að segja við sjálf. Þegar umverfið er hagstætt og aðstæður þægilegar, líður okkur betur bæði líkamlega og andlega. Þrátt fyrir frábært veðurfar höfum við þó ekki farið varhuga af ríkjandi þjófélagsaðstæðum sem hafa valdið miklum óróleika og áhyggjum. Það er á slíkum stundum sem gott er og nauðsynlegt að eiga öruggt "skjól", hvort sem það er í ytri kringumstæðum eða huganum. 

Upphaflega hugmyndin með heimasíðunni okkar var einmitt sú að við gætum dregist aftur nær hvert öðru og þannig endurheimt og endurnýjað styrk okkar frá fyrri tíð. Þeir sem hafa einhvern tíma lesið þessar hugleiðingar hafa ekki farið varhuga af sveiflum í tilverunni sem hefur verið beint inn á jákvæðar og uppbyggilegar brautir byggðar á tilveru okkar og þeim krafti sem býr ekki aðeins í sérhverju okkar heldur líka heildinni. 

Það má spyrja sig hvað sameini okkur annað en að vera fædd á því Herrans ári 1954 og kallast Bæjarpúkar? Það sem mér finnst alltaf hafa einkennt okkur, þ.e. verið sérkenni okkar er væntumþykja. Það má vera að við hugsum ekki svo mikið til hennar dags daglega og sérstaklega ekki þegar dagur er langur, hlýr og bjartur, en um þetta leiti ársins og sérstaklega þegar daglegir og sjálfsagðir hlutir ganga ekki upp, er í alvöru gott að vita að okkur þyki vænt um hvort annað og sendum hlýjar hugsanir. Hvorutveggja eru andlegir atburðir sem við getum bara ímyndað okkur að séu raunverulegir - því yrði vitneskja væntumþykjunnar til hvers annars miklu raunverulegri á formi einfaldrar heimsóknar, bréfs eða örstuttrar símhringingar ..................

Ég ætla að myndgera þessar hugleiðingar til okkar í eftirfarandi "Vögguljóði" eftir Jakobínu Johnson:

Ég held um smáa hendi, því gatan hér er grýtt,
þá get ég líka fundið, hvort þér er nógu hlýtt.
Ég veit mér skylt að ráða og rata fyrir þig,
 - en raunar ert það þú, sem leiðir mig.

Æ, snertir þú við þyrni? - hann fól hin fríða rós,
og fögur tárin myrkva þitt skæra hvarmaljós.
Mér rennur það til hjarta og reyni að gleðja þig,
 - en raunar ert það þú, sem huggar mig.

Þú spyrð um svarta skýið, sem skygggir fyrir sól,
og skrælnuð mösurblöðin, er fjúka um laut og hól.
Ég leitast við að ráða þær rúnir fyrir þig,
 - en raunar er það þú, sem fræðir mig.

Nú þreytast smáir fætur, svo faðminn þér ég býð.
Ég fel þig ljúft að hjarta, og stundin sú er blíð.
Þú andar hægt ogr rótt og þín rósemd grípur mig,
 - svo raunar er það þú, sem hvílir mig. 

Ég vil hvetja okkur til að raula gegnum þetta "móðurlega" ljóð til að viðhalda með því væntumþykjunni til hvers annars! 

03.10.2010 09:37

Hughreysting og samheldni ...........

Kæru skólasystkin!

Í dag 3. október, er afmælisdagur Margrétar heitinnar Oddsdóttur; já heitinnar, því illvígur sjúkdómur lagði hana að velli í blóma lífs síns. En minningin um hana lifir á margvíslegan hátt. Það sem ég vil sérstaklega draga fram var hressileikinn og hvatningin sem streymdi frá henni og gerði að umhverfið iðaði af lífi og léttleika og kringustæðurn sem virtust óárennilegar urðu mögulegar. Ein af venjum hennar var að "viðra hugann" með göngu og skokki í Fossvoginum. Svo mikill var hrifkraftur hennar að við ætlum að ganga í Fossvoginum í dag "eins og hún gerði". Í dag er einnig stofnaður minningarsjóður um hana til stuðnings baráttunni við þann sjúkdóm sem lagði hana standandi, með hvatningu á vörum um að sýna hvorki vol né víl, heldur hughreysti og samheldni. 

Í ljóði dagsins, "Til haustsins", eftir Jakob Jóh. Smára segir:

Ég ann þér, haust, með hreinleikssvipinn bjarta
og heiðan kulda yfir þinni brá,
með alvörunnar þrek í þínu hjarta
og þýðan bjarma fölum vöngum á.

Við sjálfar dauðans dyr þú kannt að skarta
og djörfum augum horfir sumri frá.
Þú kennir það, að oss ber ei að kvarta,
þótt einhvers sé að missa, sakna og þrá.

Lát karlmennskunnar djörfung hug minn hita
og hjartað veika finna það og vita,
að eftir vetri alltaf kemur vor.

Að baki lífsins bíður dauðans vetur, -
á bak við hann er annað vor, sem getur
látið oss ganga aftur æskuspor.


Ég þakka ykkur stuðning við stofnun minningarsjóðsins og bið þess að stöðuglegur hressileiki og hvatning Margrétar og hugleiðingar Jakobs Smára megi einnig verða hughreysting inn í fallvaltar kringumstæður okkar í dag.

11.09.2010 17:05

Hvað við erum dýrmæt ...........

Kæru skólasystkin!

Síðan okkar hefur lítið breyst í sumar; spurt er: fór "hún" í sumarfrí?, minnkaður áhugi?. Svarið er: "sitt lítið af hverju"! Síðunni var ætlað að endurspegla okkur sem heild og ekki nokkra einstaklinga. Hún er galopin fyrir öllum tillögum um breytingar og endurbætur og ekki sízt kveðjur og hvatningarorð inn í hópinn okkar. Þess vegna er mikilvægt að við öll og ekki bara nokkrir aðilar sjái löngun hjá sér til að kasta kveðju og ekki minnst afmæliskveðju til hvers annars þegar það á við. Þetta atriði hefur þannig sérstaklega verið til reynslu í sumar og afraksturinn má lesa um á viðeigandi stað. Mér og fleirum okkar þykir notalegt að gægjast inn á síðuna og kalla þannig fram minningar frá fyrri árum. Það reynir því stundum á þolinmæðina þegar "ekkert er að gerast"! Þannig leið greinilega fleirum en mér í sumar við að sjá hversu kveðjurnar urðu í raun fáar. Kannski er fésbókin að taka sinn tíma (toll)!

Lilja hefur nú riðið á vaðið og sent okkur heila tunnu af "blómum" til að vakna til lífisins á ný og taka hraustlega á haustinu og vetrinum sem kemur víst í kjölfarið. Þá hefur það verið orðað að þær hugleiðingar sem komið hafa frá "síðustjóranum" (webmaster) gætu verið of alvarlegar og gætu þannig fælt fólk frá lestri þeirra. Síðustjóri heldur alveg öfugt; ef þær væru ekki lesnar þá myndi enginn gera athugasemd :?? Hann er hins vegar opin fyrir öllum breytingartillögum ==

Í ljóði dagsins sem heitir Kveld og er eftir Stephan G. Stephansson, er margt sem talar inn í kringumstæður okkar og bið ég að þau verði okkur öllum til hvatningar á komandi haustdögum:

Í rökkrinu, þegar ég orðinn er einn
og af mér hef reiðingnum velt
og jörðin vor hefur sjálfa sig
frá sól inn í skuggana elt
og mælginni sjálfri sigur í brjóst
og sofnar við hundanna gelt -

En lífsönnin dottandi í dyrnar er sest,
sem daglengis vörður minn er,
sem styggði upp léttfleygu ljóðin mín öll,
svo liðu þau sönglaust frá mér,
sem vængbraut þá hugsun, sem hóf sig á loft
og himininn ætlaði sér -

Hver sárfeginn gleymdi ég og sættist við allt,
er sjálfráður mætti ég þá
í kyrrðinni og dimmunni dreyma það land,
sem dagsljósið skein ekki á,
þar æ upp af skipreika skolast hún von
og skáldanna reikula þrá -

Það landið, sem ekki með o´nálag hátt
í upphæðum neitt getur bæst,
þar einskis manns velferð er volæði hins
né valdið er takmarkið hæst
og sigurinn aldrei er sársauki neins,
en sanngrini er boðorðið æðst.

02.05.2010 14:25

Gleðilegt sumar!

Kæru skólasystkin!

Þá eru eldgosin yfirstaðin og sumarið brostið á, þó lofthitinn sé ennþá í lægri kantinum. Mótorhjólin eru allavega komin á göturnar með tilheyrandi hávaða og búin að mótmæla með launafólkinu á 1. maí. Snjórinn er að hverfa úr Esjunni og grænkan að brjóstast fram í görðunum, þar sem búið er að standa í ströngu með lóðahreinsanir og áburðadreifingu. Það er búið að vera hressilegt og jákvætt hljóðið í aprílsystkinum okkar og hafa þau öll nóg fyrir stafni. Kveðjur til ykkar hinna með ákveðinni von um að rekast á hvert annað á vegum landsins eða í besta falli á Ísafirði. Mér hefur verið bent á að textinn í kveðjunum sé mögulega of "háfleygur", þannig að enginn þori að láta í sér heyra í "athugasemdum"! Hugmyndin hjá mér er finnst og fremst að skrifa jákvætt og uppbyggjandi inn í kringumstæður okkar allra, án þess að það verði að "prédikun"! ÖLLUM er velkomið að skrifa og ef ekki hér, þá með tölvupósti á póstfangið sem er í efra hægra horninu á forsíðunni og ég get svo hjálpað við að koma því á réttan stað. Af hverju skrifa ég ekki á Facebook svo fleiri geti séð þetta? Mér finnst Facebook vera frekar til þess að spjalla við umheiminn og ekki sérstaklega við ykkur, þannig að ég hef valið þennan vettvang, árgang 1954, fram yfir hinn.

Í kvæði sínu: "Sjá, hin ungborna tíð", er Einar Benediktsson einnig í hvatningarhugleiðingum:

Sjá, hin ungborna tíð vekur storma og stríð,
leggur stórhuga dóminn á feðranna verk. -
Heimtar kotungum rétt, - og hin kúgaða stétt,
hristir klafann og sér hún er voldug og sterk.
-------------
Yfir álfur og lönd tengir bróðernið bönd,
yfir brimið og ísinn nær kærleikans hönd;
einnig hér undir eyðingu, áþján og neyð
blunda áranna kröfur við heiði og strönd.
--------------
Og sé mál vort ei laust og ef trú vor er traust
á vort takmark og framtíð, er sigurvon enn.
Þá skal losna um vor bönd, þá er líf fyrir hönd,
þá skal ljós skína um eyjuna, komandi menn!

Með þessum orðum sendi ég ykkur bíómynd á forsíðuna frá Skúla vini mínum sem sýnir seinna eldgosið og hvað við eigum flott land, séð ofan í frá :))

11.04.2010 11:25

Hugarstyrkur ..........

Kæru skólasystin!

Þá eru páskarnir búnir og vorið að bresta á. Það varð nú engin innrás af okkar hálfu á Ísafjörð, heldur af tónlistarfólki sem gerði það að bærinn okkar komst hvorki meira né minna en í heimsfréttirnar. Þvílík snilldarhugmynd hjá honum Mugison. Næsti möguleiki á heimsókn okkar er þá í sumar og geri ég ráð fyrir að fleiri okkar ráðgeri slíkt. Það væri því tilvalið þegar slík ákvörðun hefur verið tekin að láta vita hér á síðunni okkar undir fyrirsögninni "Kveðjur" til að gefa möguleika á smá hittingi, þó ekki væri nema í smá morgunkaffi í Gamla bakaríinu (mætipunktur 1954). 

Ég geri ráð fyrir að nú séu margir í óða önn að huga að görðum og gróðri og þá ekki sízt að börnunum sem eru bráðum að fara í vorprófin sín. Muniði þegar sólin var að brjótast fram úr skýjum og yfir fjallsbrúnirnar og ylurinn togaði okkur fram á Dal eða inn á fótboltavöll. Þetta var eitthvað svo einfalt á þessum tíma miðað við í dag; nú er einfaldleikinn orðinn að fyrirtæki og allt orðið erfiðara í framkvæmd. Spurning hvort þetta séu raunverulegar aðstæður eða bara tíðarandinn sem hefur breytt viðhorfum okkar í þetta flækjustig. Ég er sannfærður um að þær aðstæður/ ástand sem nú eru á landinu okkar færi okkur aftur nær hvert öðru. Þannig eigum við smám saman eftir að endurupplifa þann styrk sem er til staðar innan okkar vébanda, en sem virðist kannski fjarlægur þessa stundina. Það er því mikilvægt að við séum dugleg að senda og kasta kveðju til hvers annars og ekki minnst í huganum  ...........!


Ljóð dagsins er algjör snilld. Það heitir "Á páskum" og er eftir Þorgeir Sveinbjarnarson:

Aldrei hefur birta morgunsins
og litur landsins
ljómað eins skært og í dag.

Sjá, auga lyftist
og fær ljós að gjöf.
Lífbrún fagnar moldin
og angar.

Geisli leikur tónmjúkt
sterkri hendi
við stráin.

Enginn
dáinn.

Gangan er létt
úr garði
til glaðra endurfunda.

Það sem var
er heilt

framundan

horfið,
en ekki liðið.

Í birtu morgunsins
mætir þú Kristi
við hliðið.

Þessu til staðfestingar vísa ég enn og aftur í lagið á forsíðunni: "Ekki 1. apríl"!

27.02.2010 16:21

Æðruleysi ...........

Hlöðver átti afmæli sl .þriðjudag og Nílli Jóns í dag! Ég hitti Hlöðver hjá Katý um daginn, en ég hef hvorki séð Nílla eða heyrt í honum í mörg ár. Ég hringdi í Hlöðver í gær og sló á þráðinn til Nílla í dag og óskaði einnig til hamingju með afmælið! Þegar maður hvorki heyrir eða sér fólk/ skólasystkini sín lengi berst hjartað aðeins hraðar í spenningi yfir hvernig það sé nú að hitta þau aftur eða hvernig ætli þau taki því að allt í einu sé hringt í þau "out of the blue"!. Þrátt fyrir að þjóðfélagsaðstæður séu mjög erfiðar og óöruggar þá finn ég bara stöðugleika og æðruleysi; spennan virðist vera fyrst og fremst mín megin :)))

Ég fletti enn og aftur gegnum bók Gunnars Hersveins, Gæfuspor, og fann ekkert um æðruleysi, en í kaflanum um "Rósemd", þá kemur eftirfarandi fram: "Sá sem sækist eftir því mögulega og því sem er á hans valdi getur öðlast rósemd hjartans. Sá sem á hinn bóginn reynir að flýja hið óumflýjalega og breyta því sem ekki er á hans valdi verður eirðarlaus. Og sá sem telur sér trú um að atburðir stjórni líðan, en ekki hann sjálfur, getur ekki öðlast innsýn í rósemd hjartans. ............ Sérhver persóna þarf að rækta með sér ákveðnar dyggðir og tilfinningar til að mikilvæg verkefni sem verða á veginum heppnist vel. En engin persóna er fullgerð fyrr en hún finnur hjá sér knýjandi þörf til að gera eitthvað fyrir aðra og til að verða slík persóna þarf að efla nokkra lykilþætti; þeirra mikilvægastir eru gjöfin, þakklætið og vináttan ásamt rósemd hjartans. Ræktun þeirra skapa rmöguleikann á að lifa hamingjuríku lífi."

Mér finns þessi texti alveg stórmerkilegur, því hann talaði inní kringumstæður bæði Hlöðvers og Nílla, því þegar ég spurði þá: "hvað eruð þið eiginlega að bauka" (þ.e. hvað starfið þið við), þá voru báðir að aðstoða fólk við annars vegar "að halda velli" og hins vegar "að koma undir sig fótunum".


Ljóð dagsins, Frón, eftir Einar Ben talar einnig inn í þessar kringumstæður:

Það eitt, sem oss bindur, að elska vort land
fyrir ofan allt stríð, fyrir handan þess sand,
með þess hlutverk í höndunum fáu.
 - Eins og straumar þess blandast, um láð yfir lá,
skal hér lífsstarf af samtaka þúsundum há,
þar sem hafsbrún og tindar með tign yfir brá
setja takmörkin fjarlægu, háu.

Kæru skólasystkin! Ég vil með texta þessum hvetja okkur áfram til æðruleysis og rósemdar í því sem við erum, en einnig að við gefum gaum að þeim fjársjóð sem við eigum hvert í öðru.

  

30.01.2010 23:24

Vonin .........!

Kæru skólasystkin!
Nú er janúar senn á enda, dag tekið að lengja eða lengur bjart yfir daginn og Sólarkaffi yfirstaðið. Blóma-Siggi ku hafa flutt þvílíka snilldar ræðu á Kaffinu að annað eins hefur ekki heyrst síðan síðast. Þakkir til þeirra sem mættu fyrir okkar hönd; þeir skemmtu sér alla vega vel samkvæmt Maju K. Þrátt fyrir einmuna tíð með snjóleysi og hlýindum eru páskarnir framundan. Vonandi geta sem flestir kíkt í heimahagana og náð þar að stilla sameiginlega strengi. Það hefur lítið borið á myndum frá afmælisbörnum janúarmánaðar, en ennþá er von!


Því um "Vonina", segir Gunnar Hersveinn:

Von  er tilgáta hugans um betri tíð. Hún lætur lítið yfir sér og stundum tekur enginn eftir henni, en hún hefur undramátt því hún er driffjöður verka. Von er byggð á hugmynd um hvernig hlutirnir gætu verið eða ættu að vera. Vonin miðar á framtíðina því enginn ber von í brjósti um að fortíðin breytist til betri vegar. Vonin snýst um hið nýja og sterk von dregur jafnan kraft sinn frá einhverju sem getur hugsanlega orðið að veruleika. "Von er vakandi manns draumur", segir málshátturinn! 


Kveðjur til ykkar með yndislegu "Ljóði dagsins" eftir Steingerði Guðmundsdóttir, "Ljósaskipti":

Í brennandi glóð
        bjarma sólarlags
blikar stjarna
        silfurskær.
Geislafingur
        gagnsær
grípur streng
        og slær
fölbláan tón
        á hörpu deyjandi dags.

Hljóðlát - dul
        í djúpi sálar
dvelur nótt - 
        kolblá.
Mánagull
        á mar sjá
munablómin
        smá
er hún í svefni
minning sína málar.
Flettingar í dag: 234
Gestir í dag: 68
Flettingar í gær: 87
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 215038
Samtals gestir: 38906
Tölur uppfærðar: 24.12.2024 18:33:22
clockhere