15.12.2009 23:03

Jólatréð .................

Jólatréð eins og við þekkjum það er ekki mjög gamalt í  heiminum.  Elstu heimildir um skreytt tré í heimahúsum á jólum er frá Suður Þýskalandi á 16. öld en ekki eru nema tvö hundruð ár síðan síðan farið var að festa kerti á þessi grenitré. Allra fyrstu jólatré munu hafa sést á Íslandi í kringum 1850, en þó helst hjá dönskum eða danskmenntuðum fjölskyldum. Algeng urðu þau ekki , fyrr en komið var fram yfir síðustu aldamót. Það er mjög skiljanlegt, af hverju siðurinn festi ekki fyrr rætur á Íslandi. Hér var víðast hvar engin grenitré að hafa, og flestar aðrar vörutegundir hefur þótt nauðsynlegra að flytja inn. Auk þess tók sigling  oft svo langan tíma, að örðugt hefði  reynst að halda þeim lifandi. Þetta gerðu þó sum félög til þess að halda jóltrésskemmtanir fyrir börn, og milli 1890 - 1900 má sjá auglýst bæði jólatré og jólatrésskraut. Fyrir meira en hundrað árum hafa menn sumsstaðar byrjað á því að búa til gervijólatré. Var þá tekinn mjór staur, sívalur eða strendur og festur á stöðugan fót. Á staurinn voru negldar  álmur eða boraðar holur í hann og álmunum stungið í. Þær voru lengstar neðst, en styttust upp eftir og stóðu á misvíxl. Þær voru hafðar flatar í endann, og á honum stóðu kertin. Venjulega var staurinn málaður grænn eða hvítur og vafið um hann sígrænu lyngi. Síðan voru mislitir pokar hengdir á álmurnar og eitthvert sælgæti sett í þá. Þessi heimatilbúnu jólatré voru mest notuð , þar til fyrir nokkrum áratugum, þegar farið var að flytja grenitré inn í stórum stíl. Á síðustu árum hafa svo íslensk  jólatré komið á markaðinn í æ ríkari mæli.                                                                               (Úr Jólaskapi, Árni Björnsson. Bjallan 1983)


Hvers vegna er grenitréð notað sem jólatré?

Þegar halda átti jól í fyrsta sinn sagði Guð þremur englum sínum að fljúga út í heiminn til þess að finna jólatré. Það voru englarnir þrír sem honum þótti vænst um af öllum:

Engill trúarinnar
Engill vonarinnar,
Engill kærleikans.

Englarnir flugu út yfir akra og engi í áttina til skógarins mikla. Það var nístingskalt í veðri. Englarnir þrír voru að tala saman. Engill trúarinnar er yndislegur hvítur engill með blá augu sem ávallt horfa upp í himininn til Guðs. Hann tók fyrst til máls og sagði: "Eigi ég að vera jólatré, þá verður það að hafa krossmarkið á greinunum, en samt að vera beinvaxið og teygja sig upp til himins."
Engill vonarinnar sagði: "Það tré sem ég kýs má ekki visna heldur verður það að vera grænt og kraftmikið allan veturinn eins og lífið sem sigrar dauðann."
Engill kærleikans er yndislegastur þeirra allra. Það er hann sem elskar öll lítil börn og ber alltaf lítinn dreng á hægri handlegg sér og litla stúlku á þeim vinstri.
Hann mælti: "Það tré sem mér á að geðjast að verður að vera skjólsælt tré sem breiðir greinar sínar vinalega út til að skýla öllu litlu fuglunum."
Hvaða tré ætli þeir hafi svo fundið?

Blessað grenitréð!

Það hefur kross á öllum greinunum og er grænt í vetrarsnjónum og veitir öllum litlum fuglum skjól. Þegar þeir höfðu fundið það vildu þeir líka hver fyrir sig gefa því gjöf.
Engill trúarinnar gaf því yndislegu jólakertin til þess að staðið gæti af því himneskur ljómi eins og fyrstu jólanóttina.
Engill vonarinnar setti stóra tindrandi stjörnu á toppinn.
Engill kærleikans hengdi gjafir á allt fallega græna grenitréð.

Og Guð gladdist yfir góðu englunum sínum.

                                                            (Úr blaðinu Jólakveðja frá dönskum sunnudagaskólabörnum 1930)

28.11.2009 18:05

Tíminn .......

Ég glugga áfram í bók Gunnars Hersveins, Gæfuspor. Þar segir hann m.a. í kafla um Árstíðir:

....... "Ýmsir taka sér hvíld yfir jólin en stundatafla daganna krefst þess að henni sé hlýtt, þannig að atburðarásin haldi áfram, og endalaus verkefnin ráða tímaskynjun hvers og eins; það eru fundir, viðburðir, nám, skýrslugerð, verkefnalok. Manneskjan er háð tímanum en þó ekki alveg bundin honum. Hver mannsekja gerir í raun samkomulag við tímann; um að vera stundum í takt við hann, synda endrum og eins á móti straumi hans og jafnvel að hefja sig yfir hann. Tíminn í sjálfum sér nemur ekki staðar eða hægir á sér, innri  tími persónu er aftur á móti sveiganlegri í samningum. Vitundin um að geta stjórnað tíma er forsenda fyrir því að ráð sér sjálfur".

Vá; þetta var háfleygt og kannski ekki tilheyrandi nú þegar Aðventan er að byrja og allir með hugann við jólaundirbúning. Það er samt ágætt að stinga smá hugleiðingum Gunnars inn í amstur dagsins og t.d. "þakka það sem þú hefur og líka það sem þú hefur ekki. Þakklæti er tilfinning um lánsemi og ályktun um hlutdeild annarra í henni. Það er að kunna að gefa og þiggja og sýna gleði yfir hvoru tveggja. Hann þakkar til dæmis þeim sem braut reglu til að liðsinna honum og þeim sem gat veitt honum uppbyggilega gagnrýni".


Um þetta segir Hannes Pétursson í kvæði sínu, Þaðan:

Innst i því öllu sem gerist
öllu sem tekst þú í fang
heyrir þú stundirnar hverfa
heyrir þú klukkunnar gang.

Og þaðan mun þögnin koma - 
þögnin og gleymskan öll
er hinzta mínútan hnígur
á hvarma þér, eins og mjöll.    

Gaman væri að heyra sögur frá undirbúningi í öðrum löndum eins og t.d. Svíþjóð, Danmörku, Austurríki ofl.

06.11.2009 21:53

Ég held um smáa hendi ..........

Í vikunni kallaði ég eftir smá lífsmerki frá Svíþjóð. Lilja svaraði að vanda með fallegum haustmyndum úr sænska ríkinu, en hafði orð á því að við þyrftum kannski að halda aftur af okkur og leyfa öðrum að komast að ............. ! Ég svaraði því til að allir væru alltaf velkomnir, en það bólaði óneitanlega lítið á systkinum okkar. Kannski finnst þeim bara notalegt að fylgjast með blaðrinu í okkur um gamla tímann og þegar við vorum litlir krakkar.

Í þeim töluðu orðum datt ég niður í texta Gunnars Hersveins um Föruneyti Barnsins, sem mér fannst allt í einu passa mjög vel inn í kringumstæður okkar í dag og umræðuna, en þar segir m.a.: "Tíðarandinn er sýnilegt og ósýnilegt umhverfi barnsins. Í honum streyma margvíslegar hæðir og lægðir, persónur og viðhorf, straumar og stefnur, viðfangsefni og hættur. Þrautin er að greina tíðarandann, velja og hafna og taka ákvarðanir. Tíðarandi hverrar kynslóðar er breiðari en breiðasta fljót og dýpri en dýpsti hylur og í honum synda margir fiskar, ætir og óætir. Verkefnið er það sama og í öllum ævintýrum: Að læra að greina á milli góðs og ills - og sýna hugrekki og styrk.

Þar með smellur Ljóð dagsins sem er Vögguljóð eftir Jakobínu Johson beint inn í umræðuna um hlutverk okkar og tilveru:

Ég held um smáa hendi, því gatan hér er grýtt,
þá get ég líka fundið, hvort þér er nógu hlýtt.
Ég veit mér skylt að ráða og rata fyrir þig,
- en raunar ert það þú, sem leiðir mig.

Æ snertir þú við þyrni? - Hann fól hin fríða rós,
og fögur tárin myrkva þitt skæra hvarmaljós.
Mér rennnur það til hjarta og reyni að gleðja þig,
- en raunar ert það þú, sem huggar mig.

Þú spyrð um svarta skýið, sem skyggir fyrir sól,
og skrælnuð mösurblöðin, er fjúka um laut og hól.
Ég leitast við að ráða þær rúnir fyrir þig,
- en raunar ert það þú, sem fræðir mig.

Nú þreytast smáir fætur, svo faðminn þér ég býð.
Ég fel þig ljúft að hjarta, og stundin sú er blíð.
Þú andar hægt og rótt og þín rósemd grípur mig,
- svo raunar ert það þú, sem hvílir mig. 

Næst fáum við vonandi að heyra úr skáldsögunni hennar Lilju :))

23.10.2009 22:54

Fegursti dagurinn .........

Ljóð dagsins 23. október er eftir Jóhann Hjálmarsson. Það passar vel inn í þennan mánuð þar sem nú eru öll október börnin fædd. Maður hugsar til þess hvernig foreldrum okkar hafi liðið eða fundist þessi dagur þegar við fæddumst. Þá voru tímarnir að vísu öðru vísi en nú eða hvað? Kannski ekki; allavega eru tuskubleyjur aftur komnar í tísku. Og ennþá er verið að rökræða um gagnsemi brjóstagjafar; þá var kannski frekar litið á hana sem búbót frekar eitthvað heilsubætandi eða spillandi fyrir börnin. Hins vegar eru barnavagnarnir alveg horfnir og í staðinn fá krakkagreyin að dúsa eða kúldrast í svaka tæknilegum bílstólum, en það hefur vízt með öryggið að gera. En sprauturnar lifa góðu lífi, en nú þora foreldrarnir að neita! Ekki hefði nokkur maður þorað slíku hér áður fyrr, öll fengum við rass og handlegg stútfull ef ógeðslega sáru dóti. Í dag er talið að sprautuefnið geti orsakað margvísleg vandamál í taugakerfinu sem kemur svo mismikið og missnemma fram á þroskaskeiðinu. Og allt þetta ofnæmi og eyrnabólgur ..........! Þessi vandamál voru bara ekki til á okkar tíma eða hét það bara eitthvað annað ?????

Dagurinn sem hann fædddist
var fegursti dagur ársins.
Heiður himinn og stigi frá sólinni
niður á göturnar.

Frost, en heitt brjóstið
og fljúgandi hugurinn
fundu það ekki
í rauðu skini dagsins.

Það var daginn sem hann fæddist,
sonurinn, fyrsta barnið.
Á þessari stundu voru tvær litla hendur
að þreifa sig áfram í birtunni fyrir utan.

Fegursti dagur ársins
engum öðrum líkur
gekk upp og niður stigann
milli sólarinnar og strætanna.

10.10.2009 18:36

Haustið og vináttan ...............

Haustið er skollið á með fullu afli. Það byrjaði eiginlega kvöldið sem við komum saman hjá Katý, smá rigning sem bara jókst og undir miðnætti var einnig orðið mjög hvasst. Nokkrum dögum seinna einnig snjókoma og ríkisstjórnin að reyna að halda velli .........
Ég tók fram bók herra Sigurbjörns Einarssonar, "Ljóð dagsins" og þar ber upp Bjarkir, Einars Benediktssonar, sem hann hefur líklega ort undir öðrum kringumstæðum en sem nú eru:

Þær hlífðu sér nokkrar við hamraskjól
og horfðu mót rísandi sól,
á stofninum aldna með unglimið nýtt
hjá alfara stiginum mjóa.
Þar vöfðust þær örmum og hlúðu sér hlýtt,
hin harðgerðu tré, gegnum blítt og strítt,
og Guð, hann lét bjarkirnar gróa.

Um langar styrjaldir hyrjar og höggs
bar höndin ráns hina blikandi öx,
og stofnar og kvistir af iðinni önn
í eldanna kesti hlóðust.
En herjandi logann og hjarnsoltna tönn,
með höfuðin beygð undir þyngjandi fönn,
samt blessaðar bjarkirnar stóðust.


Það var auðséð eftir hittinginn hjá Katý að öllum þótti kvöldstundin notaleg og ég er viss um að fleiri en ég erum að orna okkur aftur og aftur við að skoða myndirnar frá kvöldinu. Ég vil því minna okkur öll á orð úr bóka Gunnars Hersveins sem ég skrifaði hér áður og eru svohljóðandi:

......Vinátta er oftast lengi að verða til. Hún er ekki hrifning því fólk getur hrifist hvert af öðru án þess að mynda persónulegt samband. Vinátta felst í því að gera eitthvað saman, vinna, skemmta sér og leysa vandamál. Það vekur vonir um framtíðina að gera eitthvað ánægjulegt saman og skapa góðar minningar. Vinátta er því lifandi samband sem þróast og styrkist með árunum og segja má að góðir vinir bæti hver annan!

Ég vil því hvetja okkur til að vera áfram dugleg að láta í okkur heyra og sjást með orði og myndum og hvatningu til hvers annars :)))

05.04.2009 22:54

Hvað er það fyrsta sem þú mannst eftir ........ ?

Lilja man ...............

.....hraedilega ljótu gúmmískórnir sem baedi Pimmi og Óli Lyngmó (bádir nágrannar mínir )gengu í. Thad var farid í salta braud og sto í portinu bakvid Útvegsbankann. Benidikta mamma Pimma sá til ad Pimmi fékk ad borda og kastadi nidur (thau bjuggu efst í Útvegsbankahúsinu) rúgbraudi med sykri svo ad Pimmi fengi í sig einhvern mat. Fleiri sem voru med voru Elisabet Ástvalds, Hanna Lára (einu ári yngri) og fleir nágrannar....og sú sem kom med börning hét Binna ljósa ekki Stína..(hjá mér alla vega)...   




Ég rakst á bók Helen Exley "Viska fyrir okkar öld", en þar stendur m.a.:"Gæska skiptir meira máli en viska og viðurkenning á því er upphaf viskunnar" (Theodore Isaac Rubin).
Vá, þetta var djúpt, en svo sem ágæt byrjun. Ég ætlaði nú bara að breyta aðeins til og reyna að hressa upp á mannskapinn. Það er búið að vera yndisleg forrétindi að fá að hringdja í skólasystkin sín og segja: "Góða kvöldið, þetta er Halldór, skólabróðir úr barnaskólanum" - ÞÖGN - (hinu megin) "Er þetta Halldór sem ............." (ég) nei, nei, Halldór frá Ísafirði; við vorum saman í Barnaskólanum og á myndinni, þú veizt" (hinu megin) "ertu ekki að grínast", (ég) "nei, ekki núna"! Í kjölfarið hafa flóðgátti opnast við að rifja upp þennan "gamla tíma" eins og sagt er í dag, en það eru nú bara rúmlega 40 ár síðan þessar myndir voru teknar. Já, margt hefur breyst og margt hefur verið gert síðan þá, en það sem við eigum sameiginleg er að vera 1954 árgerð frá Ísó og það er eru engir aðrir en við. Ég talaði við Golla frænda í dag og þá barst Ísfirðingshúsið í tal og hvað þetta væri orðið merkilegt hús miðað við hvað til þess var vænst í upphafi. Ég sagðist þá muna eftir því að hafa hjólað á ltilu bláu hjóli frá Engjaveginum og þangað niður eftir með kaffi og meððí til pabba. Hvað mannstu eiginlega langt aftur spurði hann. Ég sagðist muna mjög vel eftir því þegar ég, Sigga Brynja og Þráinn vorum að leika okkur í Grundargötunni; Stínu ljósu sem átti rauðan Opel station sem hún notaði til að flytja nýfædd börn í heimhús, Bubbi á vörubílnum og Helgi Hjartar á mótorhjólinu sem hann faldi annars í skúr í Tangagötunni.
Nú ætla ég að hafa þetta sem smá áskorun til fleirri að koma með smá sögu frá því fyrsta sem þeir muna eftir ................... HJjr

12.01.2009 18:09

Helstu niðurstöður Mastersritgerðar Gunnars

Value Chain of Yellow-fin Tuna in

Sri Lanka

ABSTRACT

Fisheries are important in Sri Lanka, in particular for domestic supply, but there is also a small but growing export market for high value products. The potential for economic development in the sector is great, especially in the export sector with yellow-fin tuna the most important species.

The fishery for yellow-fin tuna is dynamic and complex. In this thesis, the efficiency and productivity of the yellow-fin tuna value chain in Sri Lanka is studied with a view to assessing structural changes are needed to increase profit within the industry.

An unstructured pre-study was undertaken to get a general description of the value chain, with unstructured interviews during site visits to fishing harbours and fish markets.  Based on this preliminary research and theoretical considerations, a framework was designed and used as a guideline to design structured questionnaires for important actors in the value chain.  A focus group meeting was held with the processors/exporters.  The field studies were conducted from late 2007 until July 2008.

There are two sub-value chains in the yellow-fin tuna industry, the export market and the local market. The export market is characterised by high demand for quality and good prices and relies heavily on landings of foreign vessels.  At any rate, the major potential for further growth of exports depends on increasing contribution from local vessels.  The local vessels are generally too small and poorly equipped to meet the quality requirements of the exporters.    There is considerable scope to improve quality and reduce costs for the local fleet, improving profits and increasing the overall value of the fishery and its contribution to the national economy but lack of knowledge and flow of information between fishermen and processors/exporters is an obstacle.

15.12.2008 22:09

Hvað heita kertin fjögur á aðventukransinum?

Fyrir rúmlega 40 árum orti norski rithöfundurinn Sigurd Muri (1927-1999) ljóð um aðventukertin fjögur sem kallast "Nå tenner vi det første lys" og er það sungið við sænskt lag frá 1898 eftir Emmu Christinu Köhler (1858-1925). Lilja Sólveig Kristjánsdóttir fyrrverandi kennari og safnvörður í Reykjavík þýddi ljóðið sem á íslensku ber heitið "Við kveikjum einu kerti á" og er það á góðri leið með að verða einn þekktasti aðventusálmur Íslendinga fyrr og síðar. Hann er á þessa leið:

Við kveikjum einu kerti á.
Hans koma nálgast fer
sem fyrstu jól í jötu lá
og Jesúbarnið er.

Við kveikjum tveimur kertum á
og komu bíðum hans,
því Drottinn sjálfur soninn þá
mun senda' í líking manns.

Við kveikjum þremur kertum á,
því konungs beðið er,
þótt Jesús sjálfur jötu og strá
á jólum kysi sér.

Við kveikjum fjórum kertum á.
Brátt kemur gesturinn,
og allar þjóðir þurfa að sjá,
að það er frelsarinn.


En um aðventukertin er líka til þýsk saga, er ber heitið "Fjögur kerti". Höfundur hennar er ókunnur en þýðinguna gerði Pétur Björgvin Þorsteinsson. Sagan er á þessa leið:

Það var búið að kveikja á öllum fjórum kertunum á aðventukransinum. Í kringum þau ríkti þögn. Ef einhver hefði verið nálægur þá hefði hann heyrt kertin tala saman:

Fyrsta kertið andvarpaði og sagði: "Ég er friðarkerti. Ljós mitt lýsir en fólkið býr ekki í friði hvert við annað. Fólkinu er alveg sama um mig!" Ljósið á fyrsta kertinu varð minna og minna þangað til það slokknaði alveg.

Annað kertið flökti og sagði: "Ég heiti trú. En ég er alveg óþarfi. Fólkinu er alveg sama um Guð, það vill ekkert af honum vita. Það hefur engan tilgang að það sé ljós á mér." Krafturinn í kertinu sem nefndi sig trú var þrotinn. Lítill trekkur dugði til. Ljósið slokknaði.

Með lágri, dapurri röddu tók þriðja kertið til máls: "Ég heiti kærleikur. En ég hef enga orku til þess að láta ljós mitt skína. Fólkið er búið að ýta mér til hliðar. Það sér bara sig sjálft og ekki náungann sem þarf á kærleikanum að halda." Að þessum orðum mæltum slokknaði á þriðja kertinu.

Lítið barn kom inn í herbergið þar sem aðventukransinn stóð á borðinu. Með tárin í augunum sagði það: "Mér finnst ekki gaman þegar það er slökkt á ykkur."

Þá svaraði fjórða kertið: "Ekki vera hrætt, kæra barn. Meðan ljós er á mér getum við kveikt á hinum kertunum. Ég heiti von." Það var gleðisvipur á andliti barnsins þegar það notaði ljósið af vonarkertinu til þess að kveikja á kærleikskertinu, trúarkertinu og friðarkertinu. Að því loknu sagði barnið eins og við sjálft sig: "Nú geta jólin komið í alvöru."

08.12.2008 22:17

"Logandi kerti", til minningar um Rabba, sem átti fæðingardag í dag

Logandi kerti, aðeins eitt kerti lifir af meiri tign en manneskja.
Logandi kerti gefur öllum af sér.
Það vinnur, svitnar og bræðir eigin líkama,
dropa eftir dropa, þó líf þess sé stutt.
Þó líkami þess muni að lokum hverfa, 
hefur kertið aldrei áhyggjur,

verður aldrei reitt,
kvartar aldrei.
Það heldur bara áfram að lýsa öðrum veginn.
Ó kerti, ég vil vera eins og þú.
Mér líkar hvernig þú lifir.
Mig langar til að vera kerti.

 

Ljóð þetta var samið af þrettán ára dreng með lífshættulegan sjúkdóm. Hann lést þegar hann var fjórtán ára og gat þá ekki lengur stjórnað höndum sínum né fótum. Þrátt fyrir þetta bað hann látlaust fyrir friði á jörð.

07.12.2008 22:46

Söngur Hlíðavegspúkanna ..... (lag: "Undir Bláhimni ...")

Í skjóli fjallanna fögru og bláu

ríkir friður og gleði i sál

i Naustahvilftinni hamrarnir háu

hvísla i golunni seiðandi mál.

Hérna eyddum við æskunni saman

alla daga var skemmtilegt þá

þá var lífið allt glaumur og gaman

með glampandi framtíðarþrá.

Þegar hittum við Hlíðarvegspúka

fara hjörtun strax örar að slá

þá brandara fimlega fjúka

og fortíðin verður svo blá

Oft hlutum við skrámur og skeinur

og skjálfandi hlupum þá heim

þar fengum við kakó og kleinur

og kokhraust sporðrenndum þeim.

Þó að árin þau yfir nú færist

ennþá myndin i hjartanu býr

upp i Stórurð enn blómhnappur bærist

þegar blærinn hann kyssir svo hlýr.

Gleiðarhjallinn af töfrum nú titrar

og tíbráin leggst yfir sjó

í Pollinum kvöldgeislinn glitrar

hér er gleði og friður og ró.

GG.

06.12.2008 13:48

Hvað er Aðventan ....

Aðventa er annað heiti á jólaföstu. Hún hefst fjórða sunnudag fyrir jóladag og stendur því í fjórar vikur. Orðið aðventa hefur verið notað í málinu að minnsta kosti frá því á 14. öld og er tökuorð úr latínu adventus í merkingunni 'tilkoma'. Að baki liggur latneska sögnin advenio 'ég kem til' sem leidd er af latnesku sögninni venio 'ég kem' með forskeytinu ad-.

Framan af virðist orðið jólafasta hafa verið algengara í máli fólks ef marka má dæmi í fornmálsorðabókum og í seðlasafni Orðabókarinnar. Nafnið er dregið af því að í kaþólskum sið var fastað síðustu vikurnar fyrir jól og ekki etið kjöt. Í Grágás, hinni fornu lögbók Íslendinga, stendur til dæmis ,,Jólaföstu skal fasta hvern dag og tvær nætur í viku nema messudagur taki föstu af" (1992:30) og á öðrum stað segir: "Jólaföstu eigum vér að halda. Vér skulum taka til annan dag viku að varna við kjötvi, þann er drottinsdagar eru þrír á millum og jóladags hins fyrsta. Þá skal eigi eta kjöt á þeirri stundu nema drottinsdaga og messudaga lögtekna". (1992:31)

29.11.2008 23:34

Heilræði dagsins .........

Temdu þér rósemi í dagsins önn og mundu friðinn, sem getur ríkt í þögninni. Reyndu að lynda við aðra, án þess að láta þinn hlut. Segðu sannleikan af hógværð en festu. Hlustaðu á aðra þótt þeir kunni að hafa lítið til brunns að bera, þeir hafa sína sögu að segja.

 

Forðast háværa og freka, þeir eru æ til ama. Vertu ekki að bera þig saman við aðra, þú verður engu bættari, sumir eru ofjarlar þínir, aðrir mega sín minna. Gakktu ótrauður að hverju verki, láttu ekki sitja við orðin tóm.

 

Legðu alúð við starf þitt, þótt þér finnist það léttvægt. Vinnan er kjölfestan í völtum heimi. Vertu varfærin í viðskiptum, því margir eru viðsjálir. Lokaðu samt ekki augunum fyrir dyggðinni þar sem hana er að finna. Margir stefna að háleitu marki og alls staðar er verið að drýgja dáð.

 

Vertu sannur. Reyndu ekki að sýnast. Ræktaðu ástina, því þrátt fyrir þyrrking og kulda er hún fjölær eins og grasið. Virtu ráð öldungsins, sem víkur fyrir æskunni. Stældu hugann svo hann verði þér vörn í hretviðrum lífsins. Auktu þér ekki áhyggjur af ástæðulausu. Margur óttinn stafar af þreytu og einmannakennd. Agaðu sjálfan þig, en ætlaðu þér af. Þú ert þessa heims barn, rétt eins og trén og stjörnurnar, og þú átt þinn rétt. Þú færð þín tækifæri þótt þú gerir þér það ekki alltaf ljóst.

 

Haltu frið við Guð - hvernig svo sem þú skynjar hann - hver sem iðja þín er og væntingar í erli lífsins. Vertu sáttur við sjálfan þig.

 

Lífið er þess virði að lifa því þrátt fyrir erfiðleika, fals og vonbrigði. Vertu varkár. Leitaðu hamingjunnar.

 

(Fannst í gömlu St.Pálskirkjunni í Baltimore Bandaríkjunum; ársett 1692)

24.11.2008 23:16

"Huggun"

Vertu alltaf hress í huga
hvað sem kann að mæta þér.
Lát ei sorg né böl þig buga,
baggi margra þungur er.

Vertu sanngjarn, vertu mildur,
vægðu þann sem mót þér braut.
Bið þinn Guð um hreinna hjarta,
hjálp í lífsins vanda og þraut.

Treystu því að þér á herðar,
þyngri byrði ei varpað er.
En þú hefur afl að bera,
orka blundar næg í þér.

Þerraðu kinnar þess er grætur,
þvoðu kaun hins særða manns.
Sendu inn í sérhvert hjarta,
sólargeisla kærleikans.
                    (höf. óþekktur) emoticon

18.11.2008 21:02

VIRÐING...........

......Virðing er þýðingarmikil í mannlegum samskiptum, hvort sem er milli einstaklinga, hópa eða þjóða, og er meðal máttarstólpa lýðræðis. Skipta má virðingu í innri og ytri virðingu. Innri virðing fæst þegar einstaklinguinn hefur lært að virða sjálfan sig. Hann hefur sjálfsvirðingu og er ekki sama um andlega og líkamlega líðan sína og hæfileika. Ytri virðing er að bera virðingu fyrir öðrum, að hafa lært að setja sig í spor annarra og finna til með þeim. Að rækta virðinguna er því forsenda góðs samfélags.Lögmál virðingarinnar er að sá sem ber virðingu fyrir öðrum öðlast virðingu annarra. Þekking og djúpur skilningur á þessu gildi er því í raun forsenda velgengni í lífi og starfi. Forsenda þess að ganga vel í lífinu er að læra að meta aðra til jafns við sjálfan sig og heiðra þá. Foreldrar sem virða ekki barn sitt geta ekki heldur vænst virðingar þess. Hið sama á við um annað fólk; börn læra aðeins að virða aðra ef þau eru sjálf virt. Gæfusamt barni á foreldra sem bera virðingu fyrir því, löngunum þess og hæfileikum.

...... Virðing er helsta dyggð mannréttinda. Hún er burðarvirki menningar þar sem lögð er áhersla á frið og stöðugleika en ef hennar nýtur ekki við þá hefst ofbeldið. Að heiðra og virða aðra er forsenda velgengni í sátt og samlyndi. Ástæðan fyrir því að börnunum var öndverðu kennt að bera virðingu fyrir öðrum var sú að reynslan sýndi að þá urðu þau farsæl. Maðurinn þráir öryggi en hann er sjaldan öruggur. Heillavænlegasta leiðin að öryggi er að læra að bera virðingu fyrir náunga sínum, öðrum kynþáttum, menningu. trúarbrögðum, dýrum og lífríkinu í heild, og vona að virðingin verði gangkvæm. Virðingin er skyld kærleikanum og samúðinni og er háð væntumþykju gagnvart lífinu. Hú er ekki aðeins milli manna heldur einnig gagnvart dýrum og náttúru. Dýr marka sér yfirráðasvæði og jafnvel einstakligar innan sömum tegunda virða það. Dýr eiga sé heimkynni og kjörlendi. Þau eru háð ákveðnum svæðum kynslóð eftir kynslóð. Maðurinn þarf að ganga til móts við náttúruna með sátt í huga. Hann þarf að læra að setja sig í spor annarra lífvera og temja sér að bera hag þeirra fyrir brjósti. Hann þarf að virða líf þeirra og heimaslóðir.
 
..... Virðing er að umgangast aðra með tillitssemi, þekkja rétt annarra og kunna að meta hann. Hún er án hroka og felst í því að bera sigurorð af græðginni og skeytingarleysinu, sem er andstæða virðingarinnar. Maðurinn hefur átt í erfiðleikum með að virða rétt minnimáttar; til dæmis dýra og fugla sem eiga jafnvel lengri sögu en hann sjálfur. Hann hefur ekki virt yfirráðarétt þeirrra á tilteknum stöðum og valdið með því útrýmingu teguna. Hins vegar hefur hann viðurkennt að réttur hans og náttúrunnar er ekki allur hans megin, þótt því sé ekki fylgt eftir. En hver er mælikvarðinn? Maðurinn krefst öryggis á öllum sviðum en öðrum dýrategundum og náttúrunni sjálfri virðist hætta búin vegna þess að virðing mannsins er óþarflega birgðul. Réttindi dýra eru oft ekki metin til fulls af hálfu mannins.

...... Virðing snýst um sanngjarnt mat á verðmætum og hagsmunum manna, dýra, gróðurs og annarrar náttúru. Hún felst meðal annars í því að sérhagsmunir tiltekinna dýrategunda í heimkynnum sínum geti í vissum tilfellum vegið jafnþungt og stundum þyngra en sérhagsmunir mannanna sjálfra. Virðing er því grundvallargildi í öllum mannlegum samskiptum og umgengni mannsins við jarðlífið allt, Sá sem ekki nýtur virðingar verður sennilega óhamingjusamur og ekki er víst að honum farnist vel. Jafnvel tilhugsunin um að njóta ekki virðingar annarra veldur flestum kvíða. Virðing er því höfuðatriði í mannlegum samskiptum. (tilv í Gæfuspor eftir Gunnar Hersvein)

              Virðing felst í því að hafa jafnmikinn áhug á velferð annarra og sinni eigin.
                                                                            

15.11.2008 22:41

VINÁTTA..........

......Vinátta er oftast lengi að verða til. Hún er ekki hrifning því fólk getur hrifist hvert af öðru án þess að mynda persónulegt samband. Vinátta felst í því að gera eitthvað saman, vinna, skemmta sér og leysa vandamál. Það vekur vonir um framtíðina að gera eitthvað ánægjulegt saman og skapa góðar minningar. Vinátta er því lifandi samband sem þróast og styrkist með árunum og segja má að góðir vinir bæti hver annan!

...... Vinátta gefur djúpa reynslu af vinum og sjálfum okkur. Vinur er spegill sem sýnir ekki útlit heldur innri mann, hver við erum í raun. Enginn getur þekkt sjálfan sig nema í gegnum náin kynni við aðra manneskju. Við deilum tilfinningum okkar og hugsunum með vinum og treystum þeim fyrir innstu hugðarefnum okkar. Vinur er ekki aðeins félagi heldur kær félagi. Orðið vinur er tengt latneska orðinu Venus sem merkir kærleikur og er heiti yfir gyðju ástar. Ást og traust eru því sterkustu þræðir vináttunnar.

..... Við getum átt nokkrar gerðir af vinum, ef svo má segja, til dæmis ánægjuvini: þá er ánægjan sterkasti þráðurinn í sambandinu. Við skemmtum okkur með þeim og hlæjum mikið. Unglingarnir eiga marga ánægjuvini og beinist athygli þeirra þá meira að hlutum sem veita ánægju heldur en sambandinu sjálfu. Sumir eru nytjavinir: við eigum sameiginlegra hagsmuna að gæta með þeim. Þeir hjálpa okkur og við þeim. Aðrir eru andlegir vinir: Manngerðin, skapgerðin og persónan sjálf vega þá þyngst. Vinir í þessum flokki yfirgefa okkur síðastir þegar á móti blæs. Andlegur vinur hefur lært að treysta okkur, virðir góðu eiginleikana í fari okkar og fyrirgefur annað. Hann hefur gengið í gegnum súrt og sætt með okkur. Hann þekkir okkur og við erum hluti af hans eigin sjálfsmynd. Hann er tryggur þegar við lendum í hremmingum sem verða til þess að margir hætta að umgangast okkur. Andlegur vinur er því vinur í raun. {Þetta síðasta ætti að vera aðalsmerki íso 1954 - tiilaga HJjr}.
 
...... Öllum er nauðsynlegt að eiga vini og enginn vill lifa vinalaus. Markmiðið getur því aldrei verið að eiga sem flesta vini. Einn vinur getur verið nóg því sá sem á einn andlegan vin hefur mikið að þakka. Hann ætti að gefa vini sínum margt af hinu góða  sem hann býr yfir en minna af göllum sínum. Ein á báti getum við ekki öðlast næga andlega fullnægingu, lífiið fullgerist aðeins í samskiptum okkar við aðra. Lífið hlýtur að vera meira virði ef við erum svo lánsöm að gera notið stundanna með öðrum.

......Vinir eru ekki á hverju strái. "Vandfenginn er vinur trúr",  er málsháttur sem minnir á að allir menn eru breyskir. Það er aftur á móti heimska að vanrækja vin. Ástfangin pör sem hefja náin kynni falla þó oft í þá gryfju að sinna ekki gömlum vinum og til eru þeir sem hafa staðið uppi vinalausir þegar ástarsamband þeirra slitnar. Vinasamband á ekki að rjúfa nema í undanteknigartilfellum: Það getur átt við ef vinurinn tekur nýja stefnu í lífinu sem okkur er engin leiða að fylgja eða sætta okkur við, ef vinurinn bregst trausti eða misnotar sambandið eða ef vitsmuna- eða tilfinningaleg gjá myndast á milli vinar. (tilv. í gæfuspor Gunnars Hersveins). 
                    
                                TRAUST OG ÁST ERU MÁTTARSTÓLPAR VINÁTTUNNAR

Flettingar í dag: 268
Gestir í dag: 79
Flettingar í gær: 87
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 215072
Samtals gestir: 38917
Tölur uppfærðar: 24.12.2024 18:54:44
clockhere