Færslur: 2014 Nóvember

30.11.2014 10:36

Hver byrjaði með: "Gleðileg jól ........"?

Kæru skólasystkin!

Fyrirsagnir fjölmiðla eru einróma um að í dag sé 1. sunnudagur í aðventu og jólin því að nálgast. Á Wikipediu stendur að "aðventa í Kristni sé fjórir síðustu sunnudagarnir fyrir jóladag - og ef jóladag ber upp á sunnudegi, þá teljist hann til þess fjórða". Jólahátíðinni fylgir nú orðið mikill undirbúningur til þess að gleðja aðra og sjálfan sig, en upphafleg ætlunin var að minnast fæðingu frelsarans. Í fyrstu var það gert með hátíðarmat og drykk, en síðar bættust við gjafir og kveðjur með margvíslegum hætti. Hver kannast ekki við þá erfiðleika að "orða sig rétt", þegar verið er að velta fyrir sér textanum í jólakortið eða í rafmiðlana eins og nú tíðkast meir og meir. Það sem vefst meira fyrir mér er eiginlega: hvenær má fyrst byrja að segja "gleðileg jól" og síðan hvað lengi eftir jólin, en í síðara skiptið grípa margir til þess að segja "gleðilega hátíð eða "gleðilega rest"!

Þegar litið er til ársins í heild eru jólin örugglega tími mestra tilfinninga hjá öllum aldurshópum nema kannski yngsta og elsta. Þetta er tími sem allir vilja vera saman, þar sem liðinn stund eða tímar eru rifjaðir upp og því mikið af minningum sem hrannast fram. Þetta er líka tími sem bæði hristir upp í og einnig sameinar fjölskyldu og ættarbönd .......... og ekki veitir af í dag! Jólin eru líka tími til að minnast og minna á hluti, bæði góða og ekki góða, sem þó sumir ýta til áramótanna til að geta byrjað nýja árið með "hreinum huga" eða "hreinu borði"!

Eins og ég hef keppt að í gegnum árin með umræðuna á síðunni okkar er að "þjappa okkur saman" eins og 1954 fjölskyldu. Ég tel að þó við séum ekki endalaust að tala saman, þá muni mikið um allar góðar hugsanir - bæði hljóðar sem upphátt - sem beinast til okkar hvar sem við erum stödd. Ég gleymi ekki ennþá (vonandi þó á elliheimilinu) einu atviki í vinnunni - sem ég kalla "að ég varð fyrir" á Þorláksmessu fyrir mörgum árum. Það var búið að vera mikið at um haustið í að stytta biðlistana eftir gerviliða aðgerðum og jólin að detta á með mikilli tilhlökkun. Þegar ég er að hlaupa út úr dyrunum til að ná aðeins í búðir í lok dagsins. þá vindur starfsmaður sé að mér og segir mjög reiðilega: "ég vona að þú eigir ömurleg jól"! Ég vissi á þessu augnabliki ekki réttasta svarið eða hvort ég ætti ekki að svara heldur gera eitthvað; ég náði svo ekki að gera eða segja neitt, því hann hljóp á dyr og út. Það einkennilega (eða kannski ekki einkennilegt) var að þetta truflaði mig við jólainnkaupin og um öll jólin - það varð einhvern veginn allt öfugsnúið og óskemmtilegt. Eftir helgina fór ég beint til hans, tók utan um hann og þakkaði honum fyrir að vera frábær. Hans fyrstu viðbrögð voru, hvort hann hefði sent mér eða gefið mér eitthvað "í misgripum", m.ö.o. þá mundi hann greinilega ekki eftir því sem hann hafði hrópað til mín á Þorláksmessu. Þó ég viti ennþá ekki hvers vegna þessi orð voru sögð og gerandinn ennþá síður, þá meiddu þú ótrúlega mikið og ótrúlega lengi eftir á.

Allar götur síðan hef ég borið mikla virðingu fyrir þeim sem fann upp á þeim sið að segja óspart þessi tvö einföldu orð "gleðileg jól" á þessum tímamótum. Til viðbótar þessum orðum hafa menn komið með og bætt við margvíslegum þökkum fyrir samverustundir eða gjafir á líðandi ári sem og óskir um að það næsta verði gott og helzt ennþá betra en það gamla. Þannig tel ég miklu máli skipta hvernig við tjáum okkur við hvert annað og aðra, því eins og biblíutextinn segir "er orðið okkar beittara hverju tvíeggjuðu sverði". 

Kæru skólasystkin! Ég óska ykkur og fjölskyldum ykkar gleðilegra jóla og hátíðar með miklu þakklæti fyrir allt ykkar framlag á árinu sem er að líða. Ég bið ykkur Guðs blessunar og varðveizlu bæði nú og á komandi ári með ósk um að við getum áfram notið tengsla og samvista hér á síðunni sem og á komandi hittingum. Orðum mínum til stuðnings ætla ég að vitna í ljóð Steingerðar Guðmundsdóttur, "Á aðventu".

Í skammdegismyrkri
þá skuggar lengjast
er skinið frá birtunni næst
ber við himininn hæst.

Hans fótatak nálgast
þú finnur blæinn
af Frelsarans helgiró -
hann veitir þér vansælum fró.

Við dyrastaf hljóður
hann dvelur - og sjá
þá dagar í myrkum rann
hann erindi á við hvern mann.

Þinn hugur kyrrist
þitt hjarta skynjar
að hógværðin býr honum stað
þar sest hann sjálfur að.

Og jólin verða
í vitund þinni
að vermandi kærleiks yl
sem berðu bölheima til.

01.11.2014 11:17

"Dagar vors lífs .............."

Kæru skólasystkin!

Hjartans þakkir fyrir frábæran 6-tugs ára hitting um daginn. Ég og eflaust fleiri höfðum beðið hans með mikilli eftirvæntingu og spenningi yfir því bæði að hittast og einnig að koma vestur, koma heim í átthagana. Allt í einu var stundin orðin raunveruleg; við samankomin í Safnhúsinu í Neðstakaupstað - sezt að snæðingi. Það var fiskur - ekki bara ein tegund, heldur var eins og allir fiskarnir úr náttúrufærðibókinni væru mættir hálfsprikklandi á borðinu bakatil í verelsinu. Ég fyrir mitt leiti er í alvöru búinn að fá yfirmig nóg af þessum fiski - en hann var samt borðaður af öðrum og það í miklu magni, þannig að kokkurinn þurfti ekki að óttast leyfar. Kannski var það spennan í loftinu sem minnkaði matarlystina - en svo kom kaffi og Síríus súkkulaði meððí og það fór betur niður. Ég kom líka aðeins of seint - en það lentu fleiri í því og gátu samt borðað allt sem bauðst. Kvöldið var fagurt; úti var brjálaður vestanvindur, en í stofunni hlýnaði hægt og bítandi - einnig í kroppnum. Byrjað var að segja sögur sem mikið var búið að hvetja til, en flestar voru þær saklausar - enda hópurinn eðalárgangur. Einhverjum þótti þó tilveran fábreytt og bryddaði upp á söng sem tekið var undir með nikkuspili. Við urðum snemma þreytt, enda komin á aldur, svo ákveðið var að fara til kojs til að eiga góðan morgundag ......

Það var fjörugur hópur sem mætti framan við Gamla Bakaríið næsta dag til að fylkja liði í kirkjugarðana til að blessa yfir leiði fallinna systkina. Af áttatíu Ísfirskum bæjarpúkum fæddum á því merka ári 1954, eru nú 8 fallin frá á leiðinni til þessara merku tímamóta. Að þeirri athöfn lokinni var safnast saman í Ísafjarðarkirkju, þar sem sem skólabræðurnir Gunnlaugur Jónasson og Jón Páll Halldórsson tóku við að rekja sögu staðarins og ganga um götur bæjarins með tilheyrandi frásögn á hverjum stað. Þrátt fyrir sól í heiði, var vindur napur og því notalegt að komast inn undir þak í Edinborgarhúsinu í kaffi og kruðerí frá Gamla. Þar gafst enn eitt tækifærið til skrafs og upprifjunar á liðnum dögum ...........

Þá var kominn enn einn hvíldartíminn áður en tekist yrði á við kvöldið í Krúsinni. Ég var í alvöru að koma þangað í fyrsta sinn síðan þar voru haldin jólatrésböll Verkalýsfélagsins, sem enduðu með einu rauðu eppli að gjöf. Það var ekkert vesen að komast inn, þó í dyrurnum stæði vestfirskt vöðvatröll - hann brosti meira að segja, eins og hann þekkti mig. Í kjallaranum var alvöru Krús, með rökkurlýsingu og rauðmáluðum veggjum, hljóðfærin uppstillt á pallinum og lagt á borð fyrir bara okkur og enga aðra. Það var ljúfur matur (kjöt) sem rann fljótlega inn á borðin og mettuðu okkur vel fyrir skemmtiatriðin. Þar fóru á kostum talendur árgangsins og var mjótt á mununum hver hafði betur í að mæra okkur, þeir sem töluðu frá hjartanu eða þeir sem töluðu í bundnu máli. Alla vega var vel hlegið, grátið og slegið á læri. Þessum frábæra degi lauk svo ýmist með sveiflu á gólfinu eða pískri í horni.

Við (sumir meira en aðrir) höfum verið ótrúlega ötul að taka fram tímamót til að minnast og gleðjast saman yfir því "að vera til og vera við"! Hittingur sem þessi er hvorki sjálfsagður og verður heldur ekki til af sjálfu sér. Áður fyrr var slík uppákoma bara tilkynnt og svo gerðust bara hlutirnir. Sjálfkrafa ?, nei - ekki aldeilis; það gerist ekkert sjálfkafa, það er alltaf "maður á bakvið tjöldin"! Eins og ég sagði einu sinni (ekki tvisvar), þá þarf alltaf að hafa fyrir hlutunum til þess að þeir takist vel og það viljum við öll. Þá var ég að væla yfir því að heyra ekki í fleirum á síðunni okkar, en með tímanum hefur "meðvirknin" aukist og sú hætta við að tjá sig virðist vera að líða hjá.  Þó meginþunginn í undirbúningi þessa hittings hafi lent á staðarhöldurum sem fyrr, þá held ég að við hérna "hinumegin" höfum náð að leggja smá hönd á plóg. En meira þarf (almennt), ef duga skal eða  ..... er þetta kannski bara allt í lagi - þetta hefur hvort sem er alltaf gengið upp .... :)) 

Ég held að þetta tengist hreinlega mismunandi hlutverkum sem eru í okkur og ná með tímanum að þroskast á ólíkan hátt rétt eins og hvað annað. Kannski er það þess vegna sem við erum svo frábær saman að vegna ólíkra hlutverka, þá verða engir eða færri árekstrar og hópurinn nær betri samheldni en aðrir :) Þegar upp er staðið að þessu sinni get ég staðfest hvað mig varðar og það sem fram hefur komið á síðunni, að vel hafi tiltekist. Það verður hins vegar að viðurkennast að það varð undarlega hljótt í kjölfarið. Kannski er það rétt þegar öllu er á botninn holft að aldurinn hafi þar eitthvað að segja. Líffræðilega séð er það engin spurning, en svo geta margir utanaðkomandi þættir einnig haft þar áhrif.

Kæru skólasystkin. Ég vil framfæra hjartans þakkir fyrir hönd þeirra sem mættu, til þeirra sem leynt og ljóst lögðu hönd á plóg til að gera þennan 60-tugs ára hitting að þeim skemmtilega veruleika sem hann varð. Ég vil enn einu sinni hvetja okkur til að halda á fram að tala saman, hittast og eiga ánægjulegar samverustundir, því hver stund og hver dagur sem líður kemur aldrei aftur nema sem minning.

Orðum mínum til staðfestingar ætla ég að vitna í kvæði Tómasar Guðmundssonar, "Dagar vors lífs".

Enn leysa dagar vors lífs
hver annan af hólmi,
þótt lögð sé á þá sú kvöð
að bera oss, fávísa menn,
þrotlaust um allar vegleysur vöku og svefns,
og hvorki þeir né vér séum látnir vita
hvert erindið sé (sem ýmsum finnst bagalegt)
og því síður hvar eða hvenær ferðinni lýkur.

En veki mönnum óvissa nokkurn ugg
þeim ætti að vera fróun að vita það,
að aldrei nema einum þessara daga
er ætlað að skila oss af sér. seint eða snemma,
alla leið í öruggan gististað.
  • 1
Flettingar í dag: 13
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 87
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 214817
Samtals gestir: 38843
Tölur uppfærðar: 24.12.2024 04:26:32
clockhere